25 ágú Pilsfaldakapítalismi sjávarútvegsins
Viðreisn hefur á síðustu mánuðum sett vaxandi þunga í umræður um frjálslyndar umbætur í sjávarútvegi. Markmiðið er annars vegar að tryggja réttlátari skipan mála með eðlilegu endurgjaldi fyrir einkarétt til veiða og hins vegar að eyða óvissu um gildistíma hans.
Þannig verði þjóðareignin virkari en um leið er réttarstaða útgerðanna gerð skýrari og öruggari.
Brestir í vörninni um kyrrstöðu
Skoðanakannanir sýna aukinn þunga í kröfum almennings um breytingar. Umræðan hefur áhrif.
Kröfunni um gæslu heildarhagsmuna, almennings og sjávarútvegs, vex einfaldlega fiskur um hrygg.
Matvælaráðherra, sem staðið hefur gegn öllum umbótum í fimm ár, notar nú sterku orðin og segist brenna fyrir auknu réttlæti. Ráðherrar Framsóknar tala svo ítrekað um nauðsyn þess að hækka veiðigjaldið.
Þetta eru skýr dæmi um að brestir eru að koma í varðstöðuna um áframhaldandi kyrrstöðu.
Veikleikinn í vörninni fyrir óbreytt ástand birtast líka í vaxandi þversögnum talsmanna SFS.
Pólitískt en ekki lagalegt öryggi
Varanleiki og fyrirsjáanleiki eru lykilhugtök í þessari umræðu. Talsmenn SFS segja breytingar af hinu illa af því að þær myndu eyða varanleika veiðiréttarins og fyrirsjáanleika í rekstri. En er þetta svo?
Fiskveiðistjórnunarlögin kveða afdráttarlaust á um að aflahlutdeildina megi afturkalla hvenær sem er. Þau gera ekki einu sinni kröfu um að það sé gert með fyrirvara.
Þetta er ástæðan fyrir því að hlutur smábáta er nú miklu stærri en í byrjun. Þessi réttur hefur ekki verið mikið nýttur umfram þetta.
Varanleikinn og fyrirsjáanleikinn byggja því ekki á lagalegum rétti. Að þessu leyti eiga útgerðirnar allt undir pólitískri afstöðu Alþingis á hverjum tíma. Þetta er pólitískt öryggi en ekki réttaröryggi.
Hvers virði er lagalegt öryggi?
Tillögur Viðreisnar gera aftur á móti ráð fyrir að gerðir verði einkaréttarlegir samningar um aflahlutdeild til 20 ára. Tíminn er afmarkaður en rétturinn er á móti lagalega varinn. Fyrirsjáanleikinn er miklu meiri og ekki háður pólitískum geðþótta.
En hádegisverðurinn er ekki ókeypis. Útgerðirnar þurfa að kaupa bætta lagalega réttarstöðu. Þannig yrðu einkaréttarlegir samningar um 5 prósent af aflahlutdeildum til sölu á frjálsum markaði árlega. Þar fæst það verð sem útgerðirnar sjálfar telja eðlilegt.
En af hverju vilja útgerðirnar frekar lagalega óvissu? Ástæðan er einföld. Í gegnum pólitísk ítök geta þær treyst því að þingmenn núverandi stjórnarflokka muni ákveða lægra endurgjald en þær sjálfar myndu telja eðlilegt í samkeppni á frjálsum markaði.
Réttaröryggi um fyrirsjáanleika er ekki meira virði í þeirra huga.
Meiri afleiðingar
Talsmenn SFS hafa fram til þessa réttilega lagt höfuðáherslu á að frjálst framsal aflahlutdeildar sé lykillinn að þjóðhagslegri hagkvæmni sjávarútvegsins. Margar sjávarbyggðir hafa styrkst meðan að aðrar hafa látið undan síga.
Útgerðirnar hafa einnig sagt að þjóðhagsleg hagkvæmni réttlæti þessa þróun. Það er nú almennt viðurkennt.
Þegar Viðreisn leggur til að frjálst framsal verði aukið um 5% með árlegum uppboðum, snúa talsmenn útgerðanna við blaðinu. Nú staðhæfa þeir að af því frjálsa framsali muni hljótast algjör héraðsbrestur vítt og breitt um byggðir landsins. Og þingmenn stjórnarflokkanna vatna músum með þeim.
Margir þingmenn vinstri flokkanna spiluðu þessa sömu plötu fyrir þrjátíu árum þegar frjálsa framsalið var fyrst lögfest. Það hafði lítil áhrif. En þegar talskona útgerðanna leikur nú á fyrstu fiðlu á sameiginlegum hræðslutónleikum gegn auknu frjálsu framsali, kann það að hafa meiri afleiðingar.
Ágiskun um niðurstöðu
Líklegt er að niðurstaðan úr 46 manna nefndaflækju matvælaráðherra verði það pólitíska mat hennar að færa væna sneið, að minnsta kosti 10%, frá stærri útgerðum til smábáta. Hugsanlega verður einnig skerpt á því ákvæði sem tekur til tengdra aðila. En ekkert afgerandi.
Þó að öll stóru málin verði látin óleyst mun þetta duga til að fullnægja brennandi réttlætiskennd matvælaráðherra.
Þegar síðan kemur að þessu á síðasta þingvetri fyrir kosningar mun ekkert heyrast í fyrstu fiðlu útgerðanna. Því það verður ekki bæði hægt að tala um þjóðhagslega hagkvæmni og héraðsbrestinn sem af henni hlýst. Og án eðlilegs endurgjalds fyrir þennan einkarétt útgerðar á þjóðarauðlindinni verður heldur ekki unnt að gera kröfu um lagalegt öryggi. Hvað þá samfélagslega sátt.
Gegnsæ byggðastefna
Það er eitt af grundvallaratriðunum í stefnu Viðreisnar að samfélagið, sem hefur hagnast á frjálsa markaðskerfinu, þurfi að styðja við þær byggðir, sem hafa veikst af þeim sökum.
Viðreisn vill hins vegar ekki gera það með ógegnsæjum hætti. Það á ekki að gera með allt of lágu gjaldi og ekki með takmörkunum á frjálsum viðskiptum. Það er pilsfaldakapítalismi.
Útgerðin á að greiða fullt gjald, sem verður til á markaði. Samfélagið á að nota verulegan hluta þess til að byggja upp innviða- og nýsköpunarsjóð fyrir landsbyggðirnar, einkum þær byggðir sem hafa veikst vegna hagræðingar í sjávarútvegi.
Fyrir meira en 20 árum var þetta ein af ábendingum auðlindanefndar og hefði betur verið komin til framkvæmda fyrir löngu.
Þetta er frjálslynd markaðsstefna með félagslegri ábyrgð. Hún mun reynast farsælli en pilsfaldakapítalisminn, sem útgerðirnar tala nú orðið fyrir og stjórnarflokkarnir fylgja.