01 jan Annus difficilius
Árið 2022 var nokkuð viðburðaríkt. Við sáum stríð, sveitarstjórnarkosningar, eldgos, verðbólgu, gjörbreytt efnahagsumhverfi og svo mikið fleira. Þetta er líka árið þar sem við komum aftur saman í stórum mannfögnuðum. Við héldum aftur upp á 17. júní, Menningarnótt og Pride. Og fórum í fjölmargar fjölskylduveislur.
Árið hófst ekki með neinni sérstakri bjartsýni. Oft hef ég verið jákvæð og full vonar um betri tíð í upphafi árs, sem átti ekki við í upphafi 2022. Áramótin 2021-2022 voru enn lituð heimsfaraldri og alveg ljóst að faraldurinn var farin að taka á alla innviði samfélagsins. Þetta fundum við í borginni vel. Álag var farið að segja til sín hjá starfsfólki hvort heldur í velferðinni, fræðslu eða annarri þjónustu. Húsnæðismál voru orðin þung eftir nokkur misseri af mikilli sölu íbúða og sögulegri fjölgun nýrra íbúða sem runnu út eins og heitar lummur í faraldrinum enda höfðu vextir sjaldan jafn lágir. Enn eitt árið blasti við þar sem efnahagsumhverfi hreyfðist eins og ólgusjór, allar tölur sem höfðu verið grænar urðu rauðar, þar sem var nægt framboð var orðið að skorti.
Tímar stríðs og átaka
Upptaktur ársins 2022 var því ekki sérlega léttur. Innrás Rússa í Úkraínu í febrúar var gríðarlegt áfall fyrir þann friðartíma sem ríkt hefur í Evrópu. Nýr tími stríðs og átaka er tekin við af heimsfaraldri. Verðbólga, hækkandi vextir, hrávöru- og íhlutaskortur einkennir öll viðskipti og hefur gríðarleg áhrif á heimilin í landinu. Framtíð okkar mun byggjast á því hvernig átök þróast og mikið í húfi fyrir okkur öll í Evrópu að Úkraína nái að sigra þetta ömurlega stríð. Ég hef af þessu miklar áhyggjur, framtíð okkar allra er undir þessu stríði komin. Börn sem fæðast í þennan heim í dag munu alast upp á stríðstímum og ekki þarf mikla sögukunnáttu til að átta sig á að við erum langt í frá komin út úr þessu tímabili sem getur staðið í áratug eða lengur og litað allt okkar líf.
Með opinn faðminn
Ég hef aldrei verið á flótta. Ég skil hins vegar vel hvað það hefur mikil áhrif þegar fótunum er kippt undan manni og framtíð fjölskyldunnar er í uppnámi. Forfeður mínir flúðu vosbúð, fátækt og takmörkuð tækifæri á Ísland yfir til Kanada. Ég á fjölskyldu frá Ekvador sem hefur flúið heimalandið yfir til Bandaríkjanna af sömu ástæðu og margir flýja nú Venesúela. Á sitthvorri öldinni flúðu þessir hópar til landa sem tóku þeim með opnum faðmi, sköpuðu þeim tækifæri og gáfu þeim nýtt tungumál.
Hér búum við á þessari friðsælu og fallegu eyju, með nóg af endurnýjanlegri orku til að halda okkur hita og lýsa okkur leið. Strjálbýlið hefur reynst okkur áskorun og áratuga umræða hefur verið um byggðaþróun. Nú stöndum við frammi fyrir nýjum veruleika, þar sem fjöldi flóttafólks sem vill koma til Íslands og taka hér þátt í samfélaginu hefur aldrei verið meiri. Flóttafólk er upp til hópa alveg frábært fólk, fólk sem hefur bjargir og getu til að fara af stað. Fólk sem treystir sér til að aðlagast nýjum tungumálum, siðum og venjum. Þessu fólki eigum við að taka opnum örmum því í þeirra löngun til að verða partur af íslenskri þjóð felst okkar framtíðarauður.
Innviðir borgarinnar undir pressu
Í heimsfaraldri reyndi mikið á mannauðinn í borginni en árið 2022 dró fram ýmislegt annað tæknilegt sem vert er að hlúa að og styrkja. Gríðarleg fjölgun íbúa í borginni hefur dregið fram að huga þarf að innviðum eins og heitu vatni og orku. Í úrgangs- og frárennslismálum verða verkefnin næg á komandi misserum.
Árið 2022 fer í bækurnar sem eitt snjóþyngsta og kaldasta ár í Reykjavík í langan tíma. Snjómokstur er allur boðinn út í borginni og er það vel að mínu mati að efla þannig atvinnulífið. Borgin ber ábyrgð á að hafa góða verkferla og forgangs- og viðbragðsáætlanir til að allt gangi vel. Þær áætlanir hafa gengið vel hingað til þar sem snjólétt hefur verið undanfarin áratug en árið 2022 sýndi okkur að afar mikilvægt er að endurskoða þjónustuna, áætlanir, verkferla og viðbragð. Sú endurskoðunarvinna hófst eftir sumarleyfi og var fyrirhugað að lyki í upphafi nýs árs 2023. En þá kom yfirstandandi hvellur nú í desember með miklum snjó, ófærð og skafrenningi sem enn og aftur reyndi á innviðina. Það er afar mikilvægt að vetrarþjónusta geti mætt snjóhvellum eins og þeim sem við höfum kynnst í ár, en ekki er skynsamlegt að nýta almannafé í að vera alltaf með uppsett afl í hámarks viðbragði. Það er bæði dýrt og óskynsamlegt. Við verðum að finna skynsamar leiðir sem virka, það er mikið í húfi að fólk komist til og frá vinnu og skóla og geti nýtt fjölbreytta samgöngumáta til þess.
Gerum betur
Um leið og við lögum vetrarþjónustu í borginni þá tel ég einnig að við ættum að skoða hvernig við eflum upplýsingagjöf í svona hvellum á höfuðborgarsvæðinu. Við gætum verið með nokkurs konar almannavarnarviðbragð og mun betra upplýsingastreymi um færð, þar sem við hefðum lifandi kort af færð og snjómokstri og skýrar upplýsingar um hverjir og hvað er í forgangi þegar allt er ófært. Við gerum það þegar það eru jarðskjálftar, eldgos og þegar þjóðvegir lokast en getum verulega bætt í þegar höfuðborgarsvæðið stöðvast vegna ófærðar. Það á einnig við um allt havaríið sem varð í kringum alþjóðaflugvöllinn og færðina á Reykjanesbraut sem hafði áhrif á að 30.000 manns. Er kannski bara komin tími á lest? Mér sýnist við vel geta skoðað það af fullri alvöru, því við verðum að tryggja samgöngur milli borgarinnar og alþjóðaflugvallar.
Ég vona svo sannarlega að næsta ár mun færa okkur tækifæri til að halda áfram að þróa samfélagið okkar, til að allir fái notið sín og ég hvet borgarbúa til að taka öllum nýjum Reykvíkingum opnum örmum.
Gleðilegt ár, kæru landsmenn.