09 okt Óskiljanleg umræða um EES
Þvert á alla skynsemi er nú sprottin upp umræða á Íslandi um hvort við eigum yfirhöfuð að vera að vasast í alþjóðsamstarfi. Því er jafnvel haldið fram að réttast væri að segja upp samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) en svæðið nær til allra ríkja Evrópusambandsins og svo Íslands, Noregs og Liechtenstein.
Svona hræðsluáróður er ekki nýr af nálinni. Hann blossar upp með reglulegum hætti og tengist sennilega því að ákveðin öfl hér á landi eru að gíra sig upp fyrir kosningar. Eins og það sé einhver glóra í því fyrir þjóð sem á allt sitt undir viðskiptum við önnur lönd að forða sér aftur inn í torfkofana.
Ég er viss um að landsmenn muni – nú sem fyrr – sjá í gegnum þetta bull. Fólk gerir sér fulla grein fyrir þeim ávinningi sem alþjóðlegir samningar hafa haft í för með sér fyrir Ísland. En í ljósi umræðunnar er mér bæði ljúft og skylt að rifja upp það helsta sem íslenskt samfélag hefur haft upp úr krafsinu með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið:
Í fyrsta lagi veitir EES aðgang að stærsta innri markaði í heimi. Þess vegna geta íslensk fyrirtæki selt vörur og þjónustu án hindrana, mokað inn gjaldeyri og lagt grunninn að efnahagslegum vexti landsins. Hvorki meira né minna.
Í öðru lagi geta Íslendingar ferðast, búið og starfað í öðrum EES-ríkjum án hindrana. Stóraukin tækifæri okkar til menntunar og starfsframa eru þannig EES-samningnum að þakka. Þetta má ekki gleymast.
Í þriðja lagi eru þær reglur sem verja neytendur, tryggja samkeppni og stuðla að sanngjörnum viðskiptum hér á landi tilkomnar vegna EES-samningsins. Réttarbætur okkar í þessu tilliti, eins og svo mörgu öðru, eru innfluttar.
Í fjórða lagi geta íslenskar stofnanir og fyrirtæki sótt um stuðning vegna rannsókna, þróunar og nýtingar í gegnum samninginn. Með öðrum orðum: Nýsköpun á Íslandi væri hvorki fugl né fiskur ef ekki væri fyrir veru okkar á Evrópska efnahagsvæðinu.
Þessi upptalning er ekki tæmandi en gefur þó góða mynd af því hve miklum stakkaskiptum íslenskt efnahagslíf hefur tekið með tilkomu Evrópska efnahagssvæðisins. Við eigum það til að líta á réttindi okkar sem sjálfsögð. Þau eru það ekki. Það er þess vegna mikilvægt að standa vörð um þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu. Mér finnst að fólk sem býður sig fram til þjónustu fyrir íslenskt samfélag eigi að vera þar í fararbroddi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. október 2024