22 sep Framfarir og bætt lífskjör í stjórnmálaályktun Viðreisnar
Landsþing Viðreisnar hefur samþykkt stjórnmálaályktun undir yfirskriftinni „Viðreisn lætur verkin tala“.
Þar er lögð sérstök áhersla á hallalausan ríkisrekstur, hlutverk sveitarfélaganna þegar kemur að bættum lífsgæðum fólks, fjárfestingu í geðheilbrigði og að Viðreisn treysti þjóðinni til að taka ákvörðun um áframhald viðræðna við Evrópusambandið.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar sagði um stjórnmálaályktunina:
„Viðreisn var sett á fót til þess að vinna að umbótum í samfélaginu og standa vörð um dýrmæta frelsið okkar. Við höfum sett mark okkar á stjórn landsins og munum halda því áfram. Ég er mjög stolt af stjórnmálaályktun flokksins. Þar er sleginn tónn fyrir það sem koma skal, bæði í ríkisstjórn en ekki síður í sveitarstjórnarkosningunum næsta vor.“
Viðreisn lætur verkin tala
Landsþing Viðreisnar 21. september 2025
Viðreisn er í stjórnmálum til að stuðla að framförum og bæta lífskjör landsmanna. Undirstaða þess er framsýni, frjálslyndi og fagleg vinnubrögð. Þetta er verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í ríkisstjórn. Við höfum sett mark okkar á stjórnarsamstarfið og munum staðföst standa vörð um að almannahagsmunir séu settir framar sérhagsmunum. Á fyrstu níu mánuðum þessarar ríkisstjórnar höfum við sýnt það í verki, til að mynda með breytingu á veiðigjaldi, eflingu lögreglu, niðurgreiðslu skulda og nýrri öryggis- og varnarmálastefnu.
Áfram munum við leggja áherslu á ábyrg ríkisfjármál og stöðugleika, markaðslausnir og öruggara samfélag þar sem mannréttindi allra eru virt. Mikilvægt er að samræma útlendingalöggjöf við önnur Norðurlönd. Verkefnið er að byggja á ný upp traust á grunnstofnunum ríkisins, tryggja stöðugleika og efla samstarf milli stjórnvalda, atvinnulífs og almennings til að takast á við þær áskoranir sem bíða okkar.
Ábyrg ríkisfjármál fyrir heimili og fyrirtæki landsins
Það er forgangsmál Viðreisnar að koma á stöðugleika í efnahagsmálum og hallalausum ríkisrekstri. Þannig bætum við lífsgæði almennings án þess að fjármagna þau með lánsfé á kostnað komandi kynslóða. Það krefst hagsýni og ábyrgðar, sem og viðvarandi umbóta og hagræðingar hjá hinu opinbera.
Með sjálfbærum ríkisfjármálum getum við stuðlað að hagvexti, dregið úr verðbólgu og skapað grundvöll fyrir lægri vexti fyrir heimili og fyrirtæki landsins. Stöðugleiki byggir á því að útgjöldum sé stýrt með skynsemi í góðæri og fjárfest sé í uppbyggingu í samdrætti. Með auknu aðhaldi, skilvirkni og sameiningu opinberra stofnana tryggjum við fjármögnun velferðarmála án þess að ógna stöðugleika eða kjörum almennings.
Fyrirhuguð atvinnustefna ríkisstjórnarinnar þarf að styðja við öflugt atvinnulíf, auka útflutningstekjur og efla framleiðni. Atvinnustefna rammar inn hvernig stjórnvöld styðja við heilbrigðan vöxt atvinnulífs en er ekki tól fyrir stjórnvöld til að velja hvaða atvinnuvegir vaxa og dafna og hverjir ekki. Meðal þess sem leggja þarf áherslu á er aukin orkuöflun, einföldun regluverks og stuðningur við samdrátt í kolefnislosun. Tryggja þarf 55% samdrátt í losun Íslands fyrir árið 2035 og kolefnishlutleysi 2040.
Fjölskylduvænt samfélag
Leikskólaþjónusta, menntun og húsnæðisuppbygging eru hornsteinar í lífsgæðum fjölskyldna. Sveitarfélögin gegna þar lykilhlutverki í því að einfalda líf fólks. Það gera þau með því að tryggja að öll opinber þjónusta sé öflug, aðgengileg og skilvirk.
Öruggt og farsælt samfélag styður við barnafjölskyldur. Brúa verður bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla enn frekar til að tryggja samfellu í þjónustu við ung börn og foreldra þeirra.
Húsnæðisuppbygging þarf að standa undir þörfum samfélagsins, bæði hvað varðar magn og hvers konar íbúðir eru byggðar. Viðreisn vill auka framboð af lóðum fyrir hraða og hagstæða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.
Stöndum vörð um Evrópuhugsjón
Evrópuhugsjónin um frið, hagsæld og samvinnu lýðræðisþjóða er kjarni í stefnu Viðreisnar. Viðreisn treystir íslenskri þjóð til að taka ákvörðun um næstu skref á Evrópuvegferðinni. Við munum leita til þjóðarinnar um það hvort við eigum að halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið, vegna þess að stjórnmálin hafa hingað til reynst vanmáttug gagnvart þeirri spurningu. Við munum ekki óttast dóm þjóðarinnar
Ísland á að auka enn frekar þátttöku sína í Evrópusamstarfinu og styrkja stoðir EES-samningsins. Viðreisn telur hagsmunum Íslands best borgið með því að gerast fullgildur aðili að Evrópusambandinu. Við eigum landfræðilega, menningarlega og efnahagslega samleið með þeim sjálfstæðu og fullvalda ríkjum sem þar hafa átt gott og farsælt samstarf um mannréttindamál, öryggismál og virðingu fyrir alþjóðalögum. Þannig tryggjum við góð lífskjör og öryggi til frambúðar.
Viðreisn fordæmir grimmilegar árásir ísraelskra stjórnvalda og Hamas á almenna borgara. Hernaður Ísrael gegn almennum borgurum, hjálparstarfsfólki og fréttafólki á Gaza og Vesturbakkanum er augljóst brot á alþjóðalögum og ber einkenni þjóðarmorðs.
Fjárfestum í geðheilbrigði
Fjárfesting í mannlegum innviðum samfélagsins er talin ábatamesta verðmætasköpunin. Viðreisn ætlar að leggja áherslu á geðheilbrigði barna og ungs fólks.
Efla þarf skóla, forvarnir og fræðslu, bjóða ókeypis sálfræðiþjónustu og tryggja að öll börn hafi jöfn tækifæri til náms og þroska. Biðlistar barna eftir nauðsynlegri þjónustu eru óboðlegir og ráðast þarf í að stytta þá til muna. Viðreisn vill að opnuð verði fleiri úrræði og tryggt að börn og fjölskyldur þeirra sem þurfa á stuðningi að halda detti ekki á milli kerfa.
Aðrar ályktanir sem samþykktar voru á Landsþinginu má finna hér:
Atvinnumál /EfnahagsmálHeilbrigðis- og velferðarmál / Innanríkismál/Jafnréttismál / Mennta-, menningar- og tómstundamál/ Umhverfis- og auðlindamál / Utanríksmál