Aðild að ESB og evru, til að auka verðmætasköpun, kaupmátt og bæta lífskjör

Margháttaður ávinningur er nú þegar af samstarfi við Evrópuþjóðir með EES samningnum. Allt bendir til þess að stórauka mætti þann ábata með því að ganga að fullu inn í Evrópusambandið. Með því væri tryggður ytri stöðugleiki, lægri vextir, bætt markaðsaðgengi og aukið frelsi í viðskiptum, þjóðinni til hagsbóta.

 

Aðild að ESB og upptaka evru skapar nýja möguleika í nýsköpun atvinnulífsins og veitir möguleika að betri aðgengi að styrkjum úr byggða- og landbúnaðarsjóðum ESB, sem munu efla byggðir og landbúnað. Aðild að ESB mun auka samkeppnishæfni fjármálafyrirtækja og atvinnulífs, efla  útflutning, hagvöxt og framleiðni og lækka matvælaverð vegna lækkunar tolla. Öll þessi breyting mun skapa forsendur  fyrir auknum kaupmætti launafólks og bættum lífskjörum til lengri tíma.

 

Aðild að ESB og upptaka evru er því eitt mikilvægasta og stærsta verkefni á sviði efnahags- sjálfstæðis- og stjórnmála hér á landi, sem myndi auka sjálfstæði, fullveldi, bæta kaupmátt og lífskjör almennings umtalsvert og varanlega í öllum byggðum landsins.

 

Markaðslausnir sem treysta hagsmuni almennings

Lög og reglur skulu stuðla að samkeppni, aukinni nýsköpun og öflugu atvinnulífi. Hið opinbera dragi sig út úr samkeppnisrekstri og gefi einkaaðilum kost á að starfa samhliða hinu opinbera, til að ná fram hagræðingu til að tryggja góða og aðgengilega þjónustu fyrir almenning með sem lægstum tilkostnaði.

 

Hagstjórn og fjármálastjórn sem treystir stöðugleika og kjör almennings

Efnahagslegur stöðugleiki er forgangsmál. Megináhersla þarf að vera á stöðug ytri skilyrði og ábyrgan rekstur hins opinbera. Með stöðugleika skapast tækifæri fyrir langtíma uppbyggingu hagsældar og fjölbreytts atvinnulífs sem býður sem flestum tækifæri þar sem hæfileikar þeirra nýtast.

 

Traust hagstjórn, með öguðum ríkisfjármálum og bættum vinnubrögðum á vinnumarkaði, eru forsenda stöðugleika og hagsældar. Viðreisn vill draga úr ríkisumsvifum, lækka skuldir hins opinbera og einfalda stjórnsýslu.

 

Hagvaxtar- og atvinnustefna sem eflir samkeppnishæfni atvinnulífs, byggða og lífskjara

Viðreisn vill að skapaður verði grundvöllur fyrir uppbyggingu samkeppnishæfs atvinnulífs sem skapar samfélaginu ábata til lengri tíma og býr til tækifæri fyrir sem flest okkar til að lifa og starfa við sem best skilyrði í öllum landsbyggðum. Leggja skal áherslu á vöxt atvinnulífs og svæða, m.a. með uppbyggingu klasa, aðstöðu fyrir háskóla og rannsóknarstarf og samstarf við atvinnulíf, þar sem lögð er áhersla á sérstöðu og styrkleika hvers svæðis fyrir sig.

Lestu efnahagsstefnu Viðreisnar hér

 

Samkeppni, sjálfbærni, jafnrétti og nýsköpun eru leiðarstef sem eiga að ríkja í öllum atvinnurekstri. Viðreisn treystir frjálsum markaði almennt til að skila bestum ábata fyrir fólkið í landinu. Stjórnvöld skulu búa fyrirtækjum hagstæð rekstrarskilyrði og draga úr efnahagssveiflum. Í því ljósi þarf að einfalda regluverk og minnka flækjustig í leyfisveitingum á vegum hins opinbera. Tryggja þarf góðar samgöngur, öfluga nettengingu og öruggt rafmagn um allt land. Það er forsenda fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar og fjölgunar tækifæra á Íslandi. Samkeppnishæfur gjaldmiðill er forsenda samkeppnishæfs atvinnulífs.

Lestu atvinnustefnu Viðreisnar hér

 

Ljúkum aðildarviðræðum við Evrópusambandið

Evrópuhugsjónin um frið, hagsæld og samvinnu þjóða er kjarni í stefnu Viðreisnar. Ísland á að taka þátt í því samstarfi af fullum krafti og ganga í Evrópusambandið. Við eigum landfræðilega, menningarlega og efnahagslega samleið með þeim sjálfstæðu og fullvalda ríkjum sem kjósa að taka þátt í þessu samstarfi. Verkefni nútímans og framtíðarinnar krefjast þess að við sitjum ekki hjá heldur setjumst til borðs með Evrópuþjóðum og vinnum þétt saman um umhverfis- og loftslagsmál, mannréttindamál, viðskiptafrelsi og  efnahagslegan stöðugleika. Þannig tryggjum við góð lífskjör á Íslandi til frambúðar. Á þeim forsendum leggur Viðreisn höfuðáherslu á að ljúka aðildarviðræðum í virku samstarfi við þjóðina. Samningur verði í kjölfarið lagður í dóm þjóðarinnar.

Lestu utanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

Efnahagslegt jafnvægi

Sköpun verðmæta með hugviti og skynsamlegri nýtingu auðlinda til framtíðar eru nauðsynleg forsenda efnahagslegs stöðugleika, samkeppnishæfni og lífskjara sem skulu vera að minnsta kosti jafngóð og í nágrannalöndum Íslands. Efnahagslegu jafnvægi verður aðeins náð með stöðugum gjaldmiðli.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér