Loftslagsáherslur í forgrunni allrar ákvarðanatöku

Stuðlað verði að hröðum orkuskiptum á öllum sviðum. Öflugasta og skilvirkasta verkfæri stjórnvalda til þess eru hagrænir hvatar á borð við kolefnisgjald sem leggist á alla losun og græn áhersla í skipulagsmálum. Viðreisn leggur áherslu á tekjuhlutleysi í stað aukinnar skattheimtu þannig að kolefnisgjöldum verði mætt með samsvarandi lækkun á öðrum sköttum og gjöldum. Þannig verði hægt að ná mikilvægri sátt um loftslagsaðgerðir og tryggja að þeir borgi sem mengi.

 

Stærstu áskoranir samtímans eru á sviði umhverfismála. Ísland á að vera í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og því neyðarástandi sem vofir yfir heimsbyggðinni. Við verðum að taka stór skref strax og koma á hvötum þannig að þeir borgi sem menga. Sjálfbær og ábyrg umgengni við náttúruauðlindir, þar sem náttúruvernd helst í hendur við nýtingu, er lykillinn að grænni framtíð. Öll mál eru umhverfismál.

 

Tengja þarf loftslagsmálin þvert á fagráðuneyti svo þau endurspeglist í ákvörðunum í öllum málaflokkum. Áhersla verði lögð á að laga stjórnsýsluna að mikilvægi málaflokksins með því að meta loftslagsáhrif frumvarpa og samþætta og bæta samráð stjórnsýslu í loftslagsmálum með auknu samstarfi jafnt innanlands og erlendis. Þá þarf að auka framboð loftslagsvænni matvæla innan opinberra stofnana enda hið opinbera vel til þess fallið að vera neytendum fyrirmynd í umhverfisvænni neyslu.

 

Til að orkuskipti geti orðið þarf að tryggja nægt framboð endurnýjanlegrar orku og öfluga innviði. Samhliða orkuskiptum er nauðsynlegt að auka fjölbreytni í samgöngum og nýta hagræna hvata til að styðja við virka ferðamáta og almenningssamgöngur.

 

Komum á skilvirku og sjálfbæru hringrásarhagkerfi

Auðlindir eru takmarkaðar og Viðreisn telur það frumskyldu stjórnvalda að tryggja sjálfbærni við nýtingu þeirra. Urðun úrgangs á ekki að eiga sér stað á 21. öld heldur á allur efniviður að vera hluti af stöðugri hringrás, þar sem vörum og efni er haldið í notkun með endurnýtingu, endurvinnslu, viðgerðum og endursölu. Draga þarf markvisst úr myndun úrgangs jafnframt því að líta á hann sem verðmætt hráefni fyrir nýja vöru. Bann við urðun lífræns úrgangs skapar tækifæri til nýsköpunar og grænna starfa þar sem stjórnvöld styðja framleiðsluferla sem halda efni og orku inn í hringrásarhagkerfinu t.a.m. með bættum skilakerfum og úrvinnslugjöldum. Til þess að draga úr úrgangsmyndun verði stefnt að því að draga úr matarsóun um 60% árið 2030 miðað við 2021 með aukinni fræðslu og skilvirkari söfnun úrgangs. Það er hlutverk stjórnvalda að bæta eftirfylgni með endurvinnslu við innleiðingu á árangursríku flokkunarkerfi sem er samræmt yfir allt landið.

 

Leggja þarf áherslu á að flokkaður úrgangur verði að nýjum vörum og styðja við græna nýsköpun í endurvinnslu. Samhliða því þarf efnahagslega hvata sem styðja við deilihagkerfið. Stefnt verði að því að vinna aðgerðaáætlun um hringrásarhagkerfið með árangursvísum til þess að tryggja framgang hugmyndafræðinnar. Stefnt verði að því að meta árangurinn og styðja fjárlagagerð með alþjóðlega viðurkenndum velsældarvísum sem taka mið af öllum stólpum sjálfbærrar þróunar. Áhersla verði lögð á gagnsæa miðlun upplýsinga samhliða auknu samráði við almenning í umhverfismálum.  Stórefla þarf fræðslu um hugmyndafræði hringrásarsamfélagsins, úrgangsforvarnir og bætta framleiðsluhætti. Koma þarf á kerfi, með efnahagslegum hvötum og merkingum, sem hvetur til framleiðslu á endingargóðum vörum, þar sem viðgerðir verði að hagkvæmum og raunhæfum valmöguleika.

 

Með rekjanlegu kolefnisspori vöru geta neytendur tekið upplýstari ákvarðanir um val á vöru m.t.t. loftslagsáhrifa hennar. Þar með verði hægt að draga úr neysludrifinni losun. Mengunarbótareglan er grunnstefið, þ.e. að þeir sem menga axli ábyrgð og greiði gjald í samræmi við umfang og eðli losunar sem þeir valda. Styrkja þarf ábyrgð framleiðenda með því að setja fleiri efnisflokka þar undir, svo að tryggja megi að greitt sé fyrir endanlegan frágang úrgangs og þar sé miðað við hringrásarhugsunina, með skynsemi og hagsýni að leiðarljósi.

 

Sjálfbær nýting auðlinda

Stöðugleiki næst aðeins með samþættingu umhverfislegra, hagrænna og félagslegra þátta við allar ákvarðanir tengdar auðlindanýtingu. Hagkerfið þarf að hvíla í auknum mæli á stoðum sem rýra ekki gæði umhverfisins. Nútímalegt velsældar samfélag þarf að vera samkeppnishæft og kolefnishlutlaust þar sem neikvæð áhrif á umhverfið og rýrnun náttúrugæða verði síður forsenda hagvaxtar. Þetta verði m.a. gert með áherslu á nýsköpunarstyrki í loftslagstengdum verkefnum og að raforkuvinnsla stuðli að grænni atvinnuuppbyggingu.

 

Viðreisn vill að öll ríkisfyrirtæki og stofnanir hafi metnaðarfull markmið um ábyrgð og hlutverk á sviði umhverfis- og auðlindamála sem komi fram í eigendastefnu þeirra.

 

Grænir hvatar í landbúnaði

Endurskoða þarf styrkjakerfi landbúnaðar og auðvelda bændum framleiðslu heilnæmra og fjölbreyttra landbúnaðarafurða, í sátt við umhverfið. Að endurskoðuninni þurfa allir að koma sem á einhvern hátt tengjast landbúnaði og annarri landnýtingu. Beit á mjög viðkvæmum gróðursvæðum verði stöðvuð sem fyrst og skynsamleg takmörk sett á lausagöngu búfjár. Styrkjakerfi landbúnaðar verði umhverfismiðað fremur en framleiðslutengt, t.d. þannig að bændur geti gerst vistbændur og hafi ávinning af því. Því ætti sérstaklega að styðja við rekstur sem stuðlar að bindingu kolefnis og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landi, t.d. með skógrækt, endurheimt votlendis og hnignaðs mólendis. Kerfið styðji fjölbreytta og umhverfisvæna framleiðslu með áherslu á aukið frelsi, taki tillit til breyttra neysluvenja, stuðli að bættum hag bænda og neytanda og ýti undir nýliðun í röðum bænda.

 

Lestu umhverfis- og auðlindastefnu Viðreisnar hér

 

Stórátak í innviðafjárfestingum

Nútímavæðing innviða, í þágu samfélags, umhverfis og öryggis þarf að verða forgangsmál nú og í náinni framtíð. Horfa ber til aðkomu einkaframtaksins í slíkum fjárfestingum og útgáfu grænna skuldabréfa í verkefnum sem stuðla að vistvænum samgöngum.

 

Einfalda þarf og straumlínulaga stjórnsýslu í málefnum innviða. Taka skal upp beina gjaldtöku af vegamannvirkjum í stað núverandi gjaldstofna og láta slíka gjaldtöku taka mið, m.a. af umhverfisáhrifum og álagi á vegakerfið. Hraða þarf orkuskiptum í samgöngum og ekki einskorða þau við bíla, heldur einnig skipa- og flugvélaflota landsins.

Lestu innanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

Öflugri og sjálfbærari landbúnaður

Viðreisn leggur áherslu á að endurskoða styrkjakerfi landbúnaðarins til að að efla greinina og gera hana sjálfbærari. Mikilvægt er að ýta undir aukna fjölbreytni og nýsköpun með stuðningi við verkefni á borð við skógrækt, lífrænan landbúnað, landgræðslu, vöruþróun, endurheimt votlendis, smávirkjanir og ferðaþjónustu. Styrkjakerfi landbúnaðar verði umhverfismiðað fremur en framleiðslutengt, t.d. þannig að bændur geti gerst vistbændur og hafi ávinning af því.

 

Nýsköpun er forsenda framfara

Mikilvægt er að nýta krafta nýsköpunar til þess að finna lausnir til að draga úr loftslagsvanda og öðrum umhverfisvanda. Nota skal hagræna hvata til að umbuna þeim fyrirtækjum sem eru græn í sínum rekstri.

Lestu atvinnustefnu Viðreisnar hér