Fjölgum kjölfestugreinum útflutningstekna

Uppbygging alþjóðlegs þekkingariðnaðar og atvinnulífs er leiðin að aukinni hagsæld. Móta þarf atvinnu- og iðnaðarstefnu til lengri tíma þar sem skýrt kemur fram í hvaða atvinnu og grænum iðnaði sækja skal fram og hvernig verður stutt við þá sókn af hinu opinbera. Við getum ekki verið með öll eggin áfram í sömu körfu. Þær kjölfestugreinar sem við höfum treyst hvað mest á eiga það allar sammerkt að vera háðar ytri áhrifum og því áhætta fólgin í því að leggja allt okkar traust á þær. Þekking og hugvit eru vannýttar auðlindir sem þarf að virkja betur til framtíðar. Nýsköpun á ekki, og má ekki, eingöngu vera kreppuviðbragð sem er vanrækt þegar uppsveifla hefst á ný. Uppbygging þekkingar- og hugvitsgreina þarf að vera stöðugt viðfangsefni með það fyrir augum að búa til umhverfi þar sem þær geta blómstrað til frambúðar.

Lestu atvinnustefnu Viðreisnar hér

 

Grænn iðnaður

Viðreisn vill að Ísland helmingi heildarlosun ríkisins (með landnotkun) á áratugs fresti og verði þannig við ákalli vísindasamfélagsins um að halda hlýnun innan 1,5C°. Við viljum sýna gott fordæmi til forystu og setja markmið sem endurspegla sanngjarna hlutdeild Íslendinga af samdrætti gróðurhúsalofttegunda. Sett verði sjálfstæð loftslagsmarkmið á Íslandi fyrir losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands, losun frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir  og losun sem fellur undir landnotkun.

  • Losun á beinni ábyrgð Íslands: -60% árið 2030 m.v. 2005.
  • Losun frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir: -43% árið 2030 m.v. 2005.
  • Losun vegna landnotkunar: -50% árið 2030 m.v. 2020.
  • Stefnt verði að kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

Lestu umhverfis- og auðlindastefnu Viðreisnar hér

 

Menntun og iðnaður

Menntun er undirstaða jafnréttis, tækifæra og velferðar í samfélagi okkar og er um leið forsenda framþróunar. Við viljum tryggja einstaklingum nám við hæfi með tilliti til ólíkrar færni, fötlunar, trúarbragða, kynhneigðar, búsetu eða annarrar stöðu. Nám fer fram alla ævi og er því mikilvægt að byggja brýr milli allra skólastiga og tryggja frelsi einstaklinga til að fara á sinn hátt í gegnum menntakerfið. Viðreisn leggur jafnt vægi á bók-, verk-, iðn- og listnám á öllum skólastigum með fjölbreyttu rekstrarformi og sveigjanlegu þrepaskiptu námi sem leiðir til viðurkenningar á vinnumarkaði þar sem þörfum einstaklinga er mætt.

 

Menntastefna allra skólastiga þarf að endurspegla mikilvægi stafrænnar færni og þekkingu til að búa og starfa í nútímasamfélagi. Aðgengi að stafrænni tækni er brýnt jafnréttismál og grunnur þess að öll hafi jafnt aðgengi að þjónustu. Stafræn færni í sí- og endurmenntun er lykill umbreytingar starfa með fjórðu iðnbyltingunni.

 

Viðreisn leggur áherslu á að efla raunfærnimat á framhalds- og háskólastigi, á móti viðmiðum atvinnulífsins. Skilgreina þarf námslok innan framhaldsfræðslunnar líkt og á öðrum skólastigum og efla enn frekar framhaldsfræðslu til að koma til móts við einstaklinga sem hafa ekki lokið formlegu námi.

Lestu mennta-, menningar-, félags- og tómstundastefnu Viðreisnar hér