Stærstu áskoranir samtímans eru á sviði umhverfismála. Ísland á að vera í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og því neyðarástandi sem vofir yfir heimsbyggðinni. Við verðum að taka stór skref strax og koma á hvötum þannig að þeir borgi sem menga. Sjálfbær og ábyrg umgengni við náttúruauðlindir, þar sem náttúruvernd helst í hendur við nýtingu, er lykillinn að grænni framtíð. Öll mál eru umhverfismál.

 

Loftslagsáherslur í forgrunni allrar ákvarðantöku

Loftslagsvá af mannavöldum og hnignun vistkerfa er raunverulegt neyðarástand. Það þarf að beita öllum tiltækum ráðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og koma í veg fyrir að meðalhitastig jarðar hækki ekki um meira en 1,5°C fyrir árið 2100.

 

Við eigum að uppfylla allar alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og setja okkur metnaðarfyllri mælanleg markmið. Stjórnvöld leggi árlega fram aðgerðaáætlun og uppfærð loftslagsmarkmið sem byggja á samþykktri loftslagsstefnu og alþjóðlegum skuldbindingum. Þar skulu sett fram tölu- og tímasett markmið. Aðgerðaáætlun skuli sett fram til næstu fimm ára hið skemmsta og skal umhverfisráðherra leggja hana fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar fyrir 1. nóvember ár hvert. Loftslagsráðs verði eflt, hlutverk þess skýrt og því falið að leggja hlutlægt mat á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

 

Tengja þarf loftslagsmálin þvert á fagráðuneyti svo þau endurspeglist í ákvörðunum í öllum málaflokkum. Áhersla verði lögð á að laga stjórnsýsluna að mikilvægi málaflokksins með því að meta loftslagsáhrif frumvarpa og samþætta og bæta samráð stjórnsýslu í loftslagsmálum með auknu samstarfi jafnt innanlands og erlendis. Þá þarf að auka framboð loftslagsvænni matvæla innan opinberra stofnana enda hið opinbera vel til þess fallið að vera neytendum fyrirmynd í umhverfisvænni neyslu.

 

Stuðlað verði að hröðum orkuskiptum á öllum sviðum. Öflugasta og skilvirkasta verkfæri stjórnvalda til þess eru hagrænir hvatar á borð við kolefnisgjald sem leggist á alla losun og græn áhersla í skipulagsmálum. Viðreisn leggur áherslu á tekjuhlutleysi í stað aukinnar skattheimtu þannig að kolefnisgjöldum verði mætt með samsvarandi lækkun á öðrum sköttum og gjöldum. Þannig verði hægt að ná mikilvægri sátt um loftslagsaðgerðir og tryggja að þeir borgi sem mengi.

 

Til að orkuskipti geti orðið þarf að tryggja nægt framboð endurnýjanlegrar orku og öfluga innviði. Samhliða orkuskiptum er nauðsynlegt að auka fjölbreytni í samgöngum og nýta hagræna hvata til að styðja við virka ferðamáta og almenningssamgöngur.

 

Viðreisn vill að Ísland verði kolefnishlutlaust og laust við jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Því ætti að banna leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis í íslenskri lögsögu. Nýskráningu á bensín- og díselbílum verið hætt árið 2025. Þá verði áhersla lögð á að draga úr umhverfisáhrifum byggingariðnaðarins og að auka hlutfall umhverfisvottaðra bygginga. Þá verði hugað að minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og fiskeldi, m.a. með því að efla starfsemi í lægri þrepum fæðukeðjunnar. Sett verði markmið um að ná 50% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í skipum fyrir 2030.

 

Viðreisn vill að Ísland helmingi heildarlosun ríkisins (með landnotkun) á áratugs fresti og verði þannig við ákalli vísindasamfélagsins um að halda hlýnun innan 1,5C°. Við viljum sýna gott fordæmi til forystu og setja markmið sem endurspegla sanngjarna hlutdeild Íslendinga af samdrætti gróðurhúsalofttegunda. Sett verði sjálfstæð loftslagsmarkmið á Íslandi fyrir losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands, losun frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir  og losun sem fellur undir landnotkun.

  • Losun á beinni ábyrgð Íslands: -60% árið 2030 m.v. 2005.
  • Losun frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir: -43% árið 2030 m.v. 2005.
  • Losun vegna landnotkunar: -50% árið 2030 m.v. 2020.
  • Stefnt verði að kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

 

Með þessum markmiðum um samdrátt verði leitast við að ná hið minnsta 7,6% árlegum samdrætti á heildarlosun. Ísland þarf að taka ábyrgð á afleiðingum loftslagsbreytinga. Þetta verði m.a. gert með því að auka rannsóknir á aðlögun og öryggi vegna hættu sem skapast vegna loftslagsbreytinga hérlendis. Afleiðingar loftslagsbreytinga víða um heim hafa skapað hörmulegar aðstæður. Fjöldi fólks er á flótta af þeim völdum. Ísland þarf að axla ábyrgð í þeim málum og ætti að taka á móti fleira kvótaflóttafólki sem er á flótta vegna loftslagsbreytinga og þeim sem leita eftir alþjóðlegri vernd á þeim forsendum

 

Komum á skilvirku og sjálfbæru hringrásarhagkerfi

Auðlindir eru takmarkaðar og Viðreisn telur það frumskyldu stjórnvalda að tryggja sjálfbærni við nýtingu þeirra. Urðun úrgangs á ekki að eiga sér stað á 21. öld heldur á allur efniviður að vera hluti af stöðugri hringrás, þar sem vörum og efni er haldið í notkun með endurnýtingu, endurvinnslu, viðgerðum og endursölu. Draga þarf markvisst úr myndun úrgangs jafnframt því að líta á hann sem verðmætt hráefni fyrir nýja vöru. Bann við urðun lífræns úrgangs skapar tækifæri til nýsköpunar og grænna starfa þar sem stjórnvöld styðja framleiðsluferla sem halda efni og orku inn í hringrásarhagkerfinu t.a.m. með bættum skilakerfum og úrvinnslugjöldum. Til þess að draga úr úrgangsmyndun verði stefnt að því að draga úr matarsóun um 60% árið 2030 miðað við 2021 með aukinni fræðslu og skilvirkari söfnun úrgangs. Það er hlutverk stjórnvalda að bæta eftirfylgni með endurvinnslu við innleiðingu á árangursríku flokkunarkerfi sem er samræmt yfir allt landið.

 

Leggja þarf áherslu á að flokkaður úrgangur verði að nýjum vörum og styðja við græna nýsköpun í endurvinnslu. Samhliða því þarf efnahagslega hvata sem styðja við deilihagkerfið. Stefnt verði að því að vinna aðgerðaáætlun um hringrásarhagkerfið með árangursvísum til þess að tryggja framgang hugmyndafræðinnar. Stefnt verði að því að meta árangurinn og styðja fjárlagagerð með alþjóðlega viðurkenndum velsældarvísum sem taka mið af öllum stólpum sjálfbærrar þróunar. Áhersla verði lögð á gagnsæa miðlun upplýsinga samhliða auknu samráði við almenning í umhverfismálum.  Stórefla þarf fræðslu um hugmyndafræði hringrásarsamfélagsins, úrgangsforvarnir og bætta framleiðsluhætti. Koma þarf á kerfi, með efnahagslegum hvötum og merkingum, sem hvetur til framleiðslu á endingargóðum vörum, þar sem viðgerðir verði að hagkvæmum og raunhæfum valmöguleika.

 

Með rekjanlegu kolefnisspori vöru geta neytendur tekið upplýstari ákvarðanir um val á vöru m.t.t. loftslagsáhrifa hennar. Þar með verði hægt að draga úr neysludrifinni losun. Mengunarbótareglan er grunnstefið, þ.e. að þeir sem menga axli ábyrgð og greiði gjald í samræmi við umfang og eðli losunar sem þeir valda. Styrkja þarf ábyrgð framleiðenda með því að setja fleiri efnisflokka þar undir, svo að tryggja megi að greitt sé fyrir endanlegan frágang úrgangs og þar sé miðað við hringrásarhugsunina, með skynsemi og hagsýni að leiðarljósi.

 

Sjálfbær nýting auðlinda

Stöðugleiki næst aðeins með samþættingu umhverfislegra, hagrænna og félagslegra þátta við allar ákvarðanir tengdar auðlindanýtingu. Hagkerfið þarf að hvíla í auknum mæli á stoðum sem rýra ekki gæði umhverfisins. Nútímalegt velsældar samfélag þarf að vera samkeppnishæft og kolefnishlutlaust þar sem neikvæð áhrif á umhverfið og rýrnun náttúrugæða verði síður forsenda hagvaxtar. Þetta verði m.a. gert með áherslu á nýsköpunarstyrki í loftslagstengdum verkefnum og að raforkuvinnsla stuðli að grænni atvinnuuppbyggingu.

 

Viðreisn telur að vernd og nýting náttúruauðlinda geti og verði að fara saman og mun leggja áherslu á að tryggja það til framtíðar. Stefna Viðreisnar er að nýta náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt. Nýtingin á að byggjast á heildstæðu mati á þjóðhagslegum ávinningi og afleiðingum og skerði ekki kosti komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum. Allar auðlindir lofts, lagar og sjávar, óháð eignarhaldi, verði nýttar á ábyrgan hátt og skili jákvæðum áhrifum til samfélagsins. Aðgangur að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar verði tímabundinn og upphæð gjalds fyrir nýtingu verði ákvörðuð af markaðnum þegar því verður við komið.

 

Nauðsynlegt er að öll framleiðsla og þjónusta verði kolefnishlutlaus og rýri ekki náttúrugæði til langframa. Mikilvægt er að taka ferli rammaáætlunar til gagngerrar endurskoðunar svo hún virki sem skyldi og eyða þarf óvissu um reglur og lög sem gilda um uppbyggingu vindorku. Áfram ættu orkukostir að vera flokkaðir með tilliti til áhrifa á náttúru; menningu og minjar; og samfélag og efnahag. Orkufyrirtæki skulu nýta sem best þá raforku sem framleiða má á núverandi virkjanasvæðum raforku áður en leyfi verða veitt til virkjana sem hafa umtalsverð umhverfisáhrif á nýjum svæðum.

 

Vernda og efla þarf fiskistofna við Íslandsstrendur og auka eftirlit og eftirfylgni með sjálfbærum fiskveiðum þar sem brottkast er ekki stundað og skemmdir á vistkerfum hafsins lágmarkaðar. Móta þarf heildarstefnu um málefni hafsins með umhverfis- og loftslagsmál að leiðarljósi. Leggja þarf áherslu á stuðning við verðmætaskapandi og umhverfisvæna nýsköpun í ræktun sjávarafurða og tryggja að fiskeldi á landi og í sjó uppfylli strangar kröfur til dýravelferðar ásamt verndar umhverfis og lífríkis. Þannig verði dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum framleiðslunnar og hámarks útflutningsverðmæti hennar tryggt.

 

Viðreisn vill að öll ríkisfyrirtæki og stofnanir hafi metnaðarfull markmið um ábyrgð og hlutverk á sviði umhverfis- og auðlindamála sem komi fram í eigendastefnu þeirra.

 

Vernd og endurheimt vistkerfa

Móta þarf heildstæða stefnu, í samráði við sérfræðinga, um sjálfbæra landnýtingu sem byggir á vernd vistkerfa- og jarðminja, tekur tillit til bættrar vatnsverndar, og rýrir ekki náttúrugæði landsins.

 

Draga þarf almennt úr losun frá landi og stórauka bindingu í jarðvegi og gróðri. Takmarka þarf rask á vistkerfum vegna ágengra tegunda og samhliða vernda og efla líffræðilega fjölbreytni með stóraukinni endurheimt raskaðra vistkerfa. Ásamt því að auka rannsóknir á áhrifum landgræðslu og skógræktar á líffræðilega fjölbreytni. Sérstök áhersla ætti að vera á að stöðva losun frá framræstu votlendi og hnignuðu mólendi og að auka útbreiðslu náttúruskóga (s.s. birkiskóga og víðikjarrs). Auk þess nytjaskóga í samræmi við almannahagsmuni. Markmið verði sett um að endurheimta yfir helming þess framræsta votlendis, sem ekki er í notkun, fyrir 2030 og að endurheimt verði hafin á að lágmarki 4000 km2 raskaðra þurrlendisvistkerfa, til viðbótar við það sem þegar hefur verið framkvæmt.

 

Endurskoða þarf styrkjakerfi landbúnaðar og auðvelda bændum framleiðslu heilnæmra og fjölbreyttra landbúnaðarafurða, í sátt við umhverfið. Að endurskoðuninni þurfa allir að koma sem á einhvern hátt tengjast landbúnaði og annarri landnýtingu. Beit á mjög viðkvæmum gróðursvæðum verði stöðvuð sem fyrst og skynsamleg takmörk sett á lausagöngu búfjár. Styrkjakerfi landbúnaðar verði umhverfismiðað fremur en framleiðslutengt, t.d. þannig að bændur geti gerst vistbændur og hafi ávinning af því. Því ætti sérstaklega að styðja við rekstur sem stuðlar að bindingu kolefnis og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landi, t.d. með skógrækt, endurheimt votlendis og hnignaðs mólendis. Kerfið styðji fjölbreytta og umhverfisvæna framleiðslu með áherslu á aukið frelsi, taki tillit til breyttra neysluvenja, stuðli að bættum hag bænda og neytanda og ýti undir nýliðun í röðum bænda.

 

Lestu umhverfis- og auðlindastefnu Viðreisnar hér

 

Ljúkum aðildarviðræðum við Evrópusambandið

Evrópuhugsjónin um frið, hagsæld og samvinnu þjóða er kjarni í stefnu Viðreisnar. Ísland á að taka þátt í því samstarfi af fullum krafti og ganga í Evrópusambandið. Við eigum landfræðilega, menningarlega og efnahagslega samleið með þeim sjálfstæðu og fullvalda ríkjum sem kjósa að taka þátt í þessu samstarfi. Verkefni nútímans og framtíðarinnar krefjast þess að við sitjum ekki hjá heldur setjumst til borðs með Evrópuþjóðum og vinnum þétt saman um umhverfis- og loftslagsmál, mannréttindamál, viðskiptafrelsi og  efnahagslegan stöðugleika. Þannig tryggjum við góð lífskjör á Íslandi til frambúðar. Á þeim forsendum leggur Viðreisn höfuðáherslu á að ljúka aðildarviðræðum í virku samstarfi við þjóðina. Samningur verði í kjölfarið lagður í dóm þjóðarinnar.

 

Ísland á að hafa sterka rödd í málefnum norðurslóða

Viðreisn leggur áherslu á að Ísland hafa sterka rödd í málefnum norðurslóða. Stuðla þarf að áframhaldandi  samtali um áskoranir sem áhrif loftslagsbreytinga munu hafa í för með sér. Beina þarf sjónum að heilbrigði hafsins og hvernig nýta megi tækifæri með sjálfbærni að leiðarljósi. Efla þarf Akureyri sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi og styðja rækilega við alþjóðlegt vísindasamstarf um málefni svæðisins. Með opnun siglingaleiða og auknum tækifærum til nýtingar náttúruauðlinda á norðurslóðum þarf að gæta að öryggismálum landsins og fylgjast með auknum umsvifum annarra ríkja á svæðinu.

Lestu utanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

Öflugri og sjálfbærari landbúnaður

Viðreisn leggur áherslu á að endurskoða styrkjakerfi landbúnaðarins til að að efla greinina og gera hana sjálfbærari. Mikilvægt er að ýta undir aukna fjölbreytni og nýsköpun með stuðningi við verkefni á borð við skógrækt, lífrænan landbúnað, landgræðslu, vöruþróun, endurheimt votlendis, smávirkjanir og ferðaþjónustu. Styrkjakerfi landbúnaðar verði umhverfismiðað fremur en framleiðslutengd, t.d. þannig að bændur geti gerst vistbændur og hafi ávinning af því.

 

Lestu atvinnustefnu Viðreisnar hér

 

 

Umhverfi

Við styðjum vistvænar samgöngur og eflingu almenningssamgangna og tölum fyrir kolefnishlutleysi. Við styðjum við markmið Parísarsáttmálans í loftslagsmálum og hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Einfalda þarf ferla í skipulagsmálum til að flýta uppbyggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis. Við hönnun og skipulag skal unnið eftir hugmyndafræði algildrar hönnunar og tryggja að ný hverfi og mannvirki séu aðgengileg öllum.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar í sveitarstjórnum hér

 

Mikilvægt er að Ísland taki loftslagsmál föstum tökum og sé virkt í alþjóðlegu samstarfi um lausnir á þeim vanda.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér