Nútímavæðing innviða, í þágu samfélags, umhverfis og öryggis þarf að verða forgangsmál nú og í náinni framtíð. Þá ber að fjárfesta vel í samgöngukerfinu öllu, þ.m.t. höfnum og flugvöllum. Horfa ber til aðkomu einkaframtaksins í slíkum fjárfestingum og útgáfu grænna skuldabréfa í verkefnum sem stuðla að vistvænum samgöngum. Meta skal þjóðhagslega hagkvæmni innviðafjárfestinga og skulu allar stórar innviðaframkvæmdir ráðast af félagshagfræðilegu mati.
Einfalda þarf og straumlínulaga stjórnsýslu í málefnum innviða. Taka skal upp beina gjaldtöku af vegamannvirkjum í stað núverandi gjaldstofna og láta slíka gjaldtöku taka mið, m.a. af umhverfisáhrifum og álagi á vegakerfið. Hraða þarf orkuskiptum í samgöngum og ekki einskorða þau við bíla, heldur einnig skipa- og flugvélaflota landsins.
Ákveða þarf og ráðast í framkvæmdir vegna nýrra lausna á flugsamgöngum til og frá höfuðborgarsvæðinu.
Borgarlína og þjóðvegastokkar á höfuðborgarsvæðinu, ásamt aðskilnaði akstursstefna á þjóðvegum við höfuðborgarsvæðið verði sett í forgang.
Lestu innanríksistefnu Viðreisnar hér
Til að orkuskipti geti orðið þarf að tryggja nægt framboð endurnýjanlegrar orku og öfluga innviði. Samhliða orkuskiptum er nauðsynlegt að auka fjölbreytni í samgöngum og nýta hagræna hvata til að styðja við virka ferðamáta og almenningssamgöngur.
Viðreisn vill að Ísland verði kolefnishlutlaust og laust við jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Því ætti að banna leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis í íslenskri lögsögu. Nýskráningu á bensín- og díselbílum verið hætt árið 2025. Þá verði áhersla lögð á að draga úr umhverfisáhrifum byggingariðnaðarins og að auka hlutfall umhverfisvottaðra bygginga. Þá verði hugað að minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og fiskeldi, m.a. með því að efla starfsemi í lægri þrepum fæðukeðjunnar. Sett verði markmið um að ná 50% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í skipum fyrir 2030.
Lestu umhverfis- og auðlindastefnu Viðreisnar hér
Virðum réttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra. Fjarlægja á þær hindranir sem standa í vegi þess að tryggja mannréttindi og samfélagsþátttöku fatlaðs fólks. Í því skyni verður að gera ríkar kröfur um aðgengi að mannvirkjum, samgöngum og upplýsingum.
Lestu heilbrigðis- og velferðarstefnu Viðreisnar hér
Tryggja þarf góðar samgöngur, öfluga nettengingu og öruggt rafmagn um allt land. Það er forsenda fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar og fjölgunar tækifæra á Íslandi.
Bæta þarf samgöngur til að stækka atvinnusvæði og draga þannig úr áhrifum breyttra atvinnuhátta.
Lestu atvinnustefnu Viðreisnar hér
Við styðjum vistvænar samgöngur og eflingu almenningssamgangna og tölum fyrir kolefnishlutleysi. Við styðjum við markmið Parísarsáttmálans í loftslagsmálum og hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Einfalda þarf ferla í skipulagsmálum til að flýta uppbyggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis. Við hönnun og skipulag skal unnið eftir hugmyndafræði algildrar hönnunar og tryggja að ný hverfi og mannvirki séu aðgengileg öllum.