Kröftug sveitarfélög með þjónustu nær íbúum

Í frjálslyndu samfélagi þarf fólk að hafa raunhæfa valkosti um hvar það býr sér heimili. Blómleg og öflug byggð landið um kring er forsenda velsældar. Með því að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu er stuðlað að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Efling allra landsbyggðarkjarna með öflugum innviðum gerir sveitarfélögum kleift að laða til sín íbúa og atvinnuskapandi fyrirtæki.

 

Viðreisn styður sameiningu og stækkun sveitarfélaga með það fyrir augum að draga úr yfirbyggingu og efla nærþjónustu á hagkvæman hátt. Það er forsenda þess að unnt sé að fela þeim fleiri verkefni sem nú er sinnt af ríkisvaldinu, enda séu það hagsmunir íbúa. Tryggja þarf að fjármagn fylgi tilfærslu verkefna og styrkja almennt tekjugrunn sveitarfélaganna. Auka á aðkomu þeirra að lykilákvörðunum um uppbyggingu í heimabyggð ásamt því að veita stærri styrki til nýsköpunar, menningarstarfs og þróunar á landsbyggðinni. Fólk á að hafa raunhæft val um hvar það býr sér heimili án þess að vera mismunað eftir búsetu. Með aukinni hlutdeild sveitarfélaga í þjónustu við íbúa er valdi hins opinbera dreift enn frekar um landið og það fært nær íbúum.

 

Hvítbók í byggðamálum gerir góða grein fyrir hvað þarf að gera til að snúa við neikvæðri byggðaþróun á Íslandi. Við styðjum að verkefnum sem þar eru sett fram sé forgangsraðað,  þau fjármögnuð og framkvæmd í nánu samstarfi við hagsmunaaðila.

Lestu innanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

Samhæfa stuðning ríkis- og sveitarfélaga fyrir eldra fólk

Búum eldra fólki áhyggjulaust ævikvöld. Framboð af hjúkrunarheimilum og öðrum úrræðum verður að vera í samræmi við fyrirsjáanlega þörf. Koma þarf á millistigi milli heimilis og hjúkrunarheimila og tryggja fjölbreytt búsetuúrræði fyrir eldra fólk. Viðreisn leggur áherslu á að starfslok miðist við færni fremur en aldur. Samhæfa þarf stuðning ríkis- og sveitarfélaga.

Lestu heilbrigðis- og velferðarstefnu Viðreisnar hér

 

Samstarf ríkis og sveitarfélaga við að skapa ný tækifæri

Viðreisn vill að litið sé til nýrra og nútímalegra lausna við að skapa ný störf og tækifæri. Uppbygging fjarvinnukjarna víða um land leikur þar lykilhlutverk. Hið opinbera á að styðja við þá um allt land og tryggja að þeir skili störfum til byggðanna en verði ekki til þess að þau glatist. Samstarf ríkis og sveitarfélaga ásamt öflugri grunnþjónusta í heimabyggð skipta þar höfuðmáli. Síðast en ekki síst þarf að huga sérstaklega að stuðningi við menningartengda starfsemi um allt land.

Lestu atvinnustefnu Viðreisnar hér

 

Náttúruvernd í öndvegi

Náttúra Íslands, með sína líffræðilegu og jarðfræðilegu fjölbreytni, er ein okkar dýrmætasta auðlind. Okkur ber því skylda til að vernda villta íslenskra náttúru og fjölbreytni landslagsins fyrir komandi kynslóðir. Besta leiðin til að halda utan um vernd og nýtingu villtrar náttúru er markviss auðlindastjórnun. Því þarf að halda áfram að friðlýsa svæði í samræmi við gildandi framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár og efla og stækka þjóðgarða landsins. Sérstaklega þarf að vernda miðhálendið í þágu almannahagsmuna. Tryggja þarf fjármuni til rekstrar, verndar og landvörslu friðaðra svæða þannig að ágangur rýri ekki gildi svæðanna og að kynslóðir framtíðar fái notið heillandi fegurðar og heilnæmrar útivistar. Möguleg gjaldtaka verður að vera í góðri sátt við almenning og sveitarfélög. Jafnframt verði leitast við að styrkja byggð í nágrenni þjóðgarða og skapa atvinnu og aðstæður, í náinni samvinnu við sveitarfélög, fyrir fjölbreyttar rannsóknir. Nauðsynlegt er að koma umsjón með náttúruvernd, þjóðgörðum og friðlýstum svæðum undir eina stofnun til að samþætta ákvarðanatöku, auka skilvirkni og bæta nýtingu fjármagns.

Lestu umhverfis- og auðlindastefnu Viðreisnar hér

Öflug sveitarfélög

Styrkja þarf sveitarstjórnarstigið með sameiningu og samvinnu sveitarfélaga. Öflug sveitarfélög eru betur í stakk búin til að takast á við lögbundin verkefni og færa þannig þjónustu og ákvarðanatöku nær íbúum. Auka þarf aðkomu sveitarfélaga að lykilákvörðunum um uppbyggingu í heimabyggð.

 

Fjármál og rekstur

Við viljum sjálfbæran rekstur sveitarfélaga. Við viljum hóflegar álögur á íbúa og fyrirtæki og tölum fyrir skattalækkunum þegar við á. Sveitarfélög eiga ekki að standa í samkeppnisrekstri. Við tölum fyrir opnu bókhaldi sveitarfélaga.

 

Fagleg stjórnun

Við viljum gagnsæi í stjórnsýslu og ákvarðanatöku. Aðskilnaður milli stjórmálanna og faglegrar stjórnsýslu þarf að vera skýr. Stjórnsýslan þarf að vera einföld og að fullu stafræn. Við sækjum innblástur í alþjóðlegar fyrirmyndir og stefnur. Sveitarfélög taki mið af heimsmarkmiðum og Barnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við setjum fram mælanleg markmið til að tryggja yfirsýn og auðvelda faglega ákvarðanatöku.

 

Fræðslumál

Við styðjum fjölbreytt rekstrarform í menntakerfinu. Við viljum að börnum sé tryggð dagvistun frá 12 mánaða aldri. Nám- og kennsluhættir skulu vera fjölbreyttir og gera skal skapandi- og starfstengdu námi hærra undir höfði. Styðja skal sérstaklega við börn með ólíka færni og börn sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.

 

Velferð

Velferð allra íbúa er grunnur að góðu samfélagi. Við styðjum sjálfstæði og sjálfsvirðingu einstaklinga og styðjum þá til virkni. Gera þarf fólki kleift að búa á eigin heimili eins og hægt er. Í samstarfi við ríkið þarf að fjölga hjúkrunarrýmum. Öll sveitarfélög taki þátt í lausn húsnæðisvanda þeirra sem aðstoð þurfa. Við leggjum áherslu á forvarnir og barnvæn sveitarfélög. Fræðslu- og velferðaryfirvöld eiga að starfa saman með þarfir barna að leiðarljósi.

 

Umhverfi

Við styðjum vistvænar samgöngur og eflingu almenningssamgangna og tölum fyrir kolefnishlutleysi. Við styðjum við markmið Parísarsáttmálans í loftslagsmálum og hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Einfalda þarf ferla í skipulagsmálum til að flýta uppbyggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis. Við hönnun og skipulag skal unnið eftir hugmyndafræði algildrar hönnunar og tryggja að ný hverfi og mannvirki séu aðgengileg öllum.

 

Menning og íþróttir

Sveitarfélög styðji við heilsueflingu og lýðheilsu í sinni víðustu mynd. Við styðjum að börn geti valið sér frístund við sitt hæfi í gegnum frístundastyrki. Huga þarf sérstaklega að stöðu barna af erlendum uppruna. Við viljum öflugt og faglegt samstarf við íþróttahreyfinguna. Við styðjum við sjálfstæða listamenn og sjálfstæð menningarfélög. Við viljum öfluga samkeppnissjóði á sviði menningar og lista. Við vinnum saman með hagaðilum til að tryggja jafnrétti á sviði menningar og íþrótta.

 

Fjölbreytni og alþjóðasamstarf

Við vinnum að jafnrétti og gegn hvers kyns fordómum og ofbeldi. Við styðjum fjölbreytni mannlífs, vinnum að því að móta jákvæð viðhorf til fjölmenningar og til þess byggja brýr milli menningarheima. Þjónusta sveitarfélaga taki mið af fjölbreyttum bakgrunni íbúa. Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á ensku og fleiri tungumálum. Stutt er við móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna. Störf á vegum sveitarfélaga skulu standa öllum til boða og unnið gegn óeðlilegum hindrunum á vinnumarkaði. Við styðjum virka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi sveitarfélaga og sveitarstjórnarfólks.

 

Gildi og samstarf

Við erum málefnaleg, hófstillt og traust. Við erum vakandi fyrir þörfum íbúa á hverjum stað. Við látum málefnastöðu ráða samstarfi og höfum almannahagsmuni ávallt að leiðarljósi.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar í sveitarstjórnarmálum hér

 

Rekstur ríkissjóðs og sveitarfélaga verði að jafnaði hallalaus og skuldir hóflegar.

Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér