Stjórn á óvissutímum

Það ríkir óvissa og margt fólk hefur miklar áhyggjur af eigin fram­tíð og vel­ferð. Á­lagið er víða. Það er mikið hjá þeim sem eru í póli­tísku for­svari í umboð­i ­þjóð­ar­innar og þeim sem reka stofn­anir sam­fé­lags­ins. Ekki síður gildir það um þau sem stjórna atvinnu­rekstri í land­inu eða gæta hags­muna vinn­andi fólks. Þá má ekki gleyma þeim sem bera ábyrgð á heim­il­is­rekstri og fram­færslu og vel­ferð ­fjöl­skyldu sinn­ar.

Rík­is­stjórn hvers tíma er í lyk­il­hlut­verki þegar kemur að því að tryggja að ­gang­verk sam­fé­lags­ins starfi hnökra­laust og sam­fé­lag­legir inn­viðir og stjórn­kerf­i ­séu í stakk búin til að takast á við marg­vís­leg verk­efni og mæta áföllum af ýmsu tagi – líka þeim sem eru ófyr­ir­séð.

Marg­vís­legar aðferð­ir, tól og tæki, eru til­tæk úr heimi stjórn­un­ar­fræða og verk­efna­stjórn­ar. Má þar nefna hluti eins og áhættu­stjórn­un, krísu­stjórn­un, ­kostn­að­ar- ábata­grein­ingar og sviðs­mynda­grein­ing­ar. Árangur næst hins veg­ar ekki nema þeim sé beitt mark­visst og með opnum hætti þannig að hvert skref sé öllum ljóst og hvaða afleið­ingar það hef­ur. Þeir sem verða fyrir nei­kvæð­u­m af­leið­ingum viti hvort og hvernig verður brugð­ist við þeim. Hve lengi ráð­staf­an­ir eiga að gilda og hvaða árangri á að ná. Það þarf líka að vera ljóst hvað ger­ist ef til­tek­inn árangur næst ekki – hvað skref verða þá tek­in, verða reglur hert­ar? Hvað ef betri árangur næst, verður þá slak­að?

Upp­lýs­ing­ar, sam­ráð og vönduð grein­inga­vinna er for­senda árang­urs. Allir þurfa að skilja hvað er verið að gera og af hverju. Aðeins með þessum hætti er unnt að ­draga úr óvissu og skapa traust og trú á því að árangur náist. Tak­ist það ekki er hætt við því að staðan versni og sundr­ung auk­ist og þannig glutrist niður sú ­mikla sam­staða sem hér varð þegar við urðum öll almanna­varn­ir. Það má ekki ­ger­ast.

Því miður eru sterk teikn á lofti um að rík­is­stjórnin rísi ekki undir því hlut­verki ­sem er bráð­nauð­syn­legt að hún axli.

Höf­undur er þing­maður Við­reisnar

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 19. ágúst 2020