Betri Hafnarfjörður með betri Hafnarfirði

Á dögunum lagði Hafnarfjarðarbær drög að nýrri miðbæjarstefnu fram til umsagnar á heimasíðuna „Betri Hafnarfjörður“. Það er fagnaðarefni að bærinn sé að bæta samtal sitt við bæjarbúa og nýta þetta skemmtilega lýðræðisverkfæri sem Betri Hafnarfjörður er.

Betri Hafnarfjörður var sett í loftið fyrir nokkrum árum síðan að fyrirmynd síðunnar Betra Ísland og Betri Reykjavík. Þetta var mjög gott framtak en langtímaverkefni á borð við þetta þarf að hafa skýrt heimili og viðurkennt vægi innan stjórnsýslunnar. Hvorugt atriðið var til staðar þegar síðan var sett á laggirnar, tillögur lágu þar óhreyfðar og smám saman hættu nýjar hugmyndir að berast.

Nú í sumar, lagði Þórey, fulltrúi Viðreisnar í Umhverfis og framkvæmdarráði, fram þá tillögu að Hafnarfjarðarbær myndi efla og bæta samtalið milli sín og bæjarbúa í gegnum þessa síðu. Tillögur Viðreisnar gengu út á að skýra hvar þetta verkefni ætti heima í skipuriti bæjarins, tryggja því fjármagn og leggja áherslu á að góðar hugmyndir myndu fá skýran farveg að renna í.

Tillögur Viðreisnar voru:

  1. Setja Betri Hafnarfjörð á ábyrgð nýs sviðs Þjónustu og Þróunar.
  2. Sett verði fjármagn í að kynna vefinn.
  3. Samþykkt verði sú verklagsregla að hæsta tillaga í lok hvers mánaðar verði tekin til formlegrar afgreiðslu hjá viðkomandi ráði.
  4. Settir verði á fót hverfapottar fyrir hverfi bæjarins þar sem íbúar geti forgangsraðað fjárfestingum bæjarins innan síns hverfis að fyrirmynd Reykjavíkur og Garðabæjar.

Viðreisn mun halda áfram að þrýsta á að ákvörðunarvald verði í auknum mæli fært í hendur almennings og haldið verði áfram að innleiða þær tillögur sem voru hér taldar fram.

Með því að brýna verkfærið Betri Hafnarfjörð með skýrum boðleiðum, fjármagni og áhrifum fáum við öll enn betri Hafnarfjörð!

Auðbjörg Ólafsdóttir og Þórey Þórisdóttir

Greinin birtist í Fjarðarpóstinum 29. ágúst 2019