Ný íþróttastefna fyrir alla

Nú eru sannarlega óvenjulegir tíma í íþróttum um allan heim. Risamótum hefur frestað, margir Íslandsmeistaratitlar verða ekki veittir og skipulagðar æfingar liggja niðri. Vonandi mun góður árangur okkar í sóttvörnum hér á landi þó skila sér og við getum horft fram á ágætt íþróttasumar, eftir allt saman.

Við vitum þó að öll él birtir um síðir og því mikilvægt að horfa fram á við. Í dag er til umræðu í borgarstjórn ný íþróttastefna Reykjavíkur til ársins 2030. Stefnan er afrakstur ársvinnu Reykjavíkurborgar og Íþróttabandalags Reykjavíkur.

Framtíðarsýn stefnunnar er að árið 2030 stundi 70% Reykvíkinga reglulega íþróttir, líkamsrækt eða aðra hreyfingu. Með stefnunni eru sett mælanleg markmið sem stuðla eigi framgangi hennar. Markmiðin eru:

Að 70% Reykvíkinga hreyfi sig rösklega í 30 mín þrisvar í viku, að 70% barna og unglinga stundi íþróttir og hreyfingu í skipulegu starfi, að meirihluti íslenskra þátttakenda á stórmótum komi frá reykvískum félögum og að 40% félaga í efstu deildum hópíþrótta verði reykvísk, að tímanýting íþróttahúsa á tímanum 8-22 á virkum dögum verði 70%, að 90% íþróttafélaga sem eru með barna- og unglingastarf verði fyrirmyndarfélög ÍSÍ.

Með stefnunni er sleginn sá tónn að íþróttir eigi að vera fyrir alla, að öll börn hafi tækifæri til að þroskast og eflast í fjölbreyttu og aðgengilegu íþróttastarfi. Í því samhengi þurfum við að rýna vel þá hópa sem ekki hafa hingað til nýtt sér skipulagt íþróttastarf í jafnmiklum mæli, má þar til dæmis nefna börn með annað móðurmál en íslensku og börn í ákveðnum hverfum borgarinnar. Stefnan kallast þannig á við mannréttindaáherslur borgarinnar. Með stefnunni er líka mælt með nýrri aðferð við forgangsröðun nýrra íþróttamannvirkja. Með aðferðinni verður val á framkvæmdum skýrara. Forgangsröðunin á einnig að leiða til þess að þau íþróttamannvirki sem Reykjavíkurborg fjárfestir í nýtist sem flestum, sem stærstan hluta ársins, stuðli að fjölbreytni en geti jafnframt borið sig fjárhagslega til lengri tíma. Að setja slíka forgangsröðun í skýrari farveg er nauðsynlegt enda eru aðstöðumálin ávallt mjög ofarlega í umræðunni innan íþróttahreyfingarinnar, hugmyndirnar margar en fjármagnið eins og venjulega, takmarkað.

Það er gaman er að sjá hve margir hafa nýtt tímann í samkomubanninu til að stunda hreyfingu með öllum tiltækum ráðum. Þegar fjölskyldan fór að kaupa hjól urðum við frá að hverfa því röðin í hjólabúðina náði út fyrir hornið. Það er því ljóst að áhuginn á að stunda hvers kyns hreyfingu er svo sannarlega til staðar, og það eina sem þarf að gera er að tryggja innviðina til að allir sem vilji það geti það.

Höfundur er borgarfulltrúi Viðreisnar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. apríl 2020