26 maí Góðu hugmyndirnar búnar
Ríkisstjórnin þarf ekki frekari hvatningu. Þegar ríkið er farið að borga fyrirtækjum fyrir að reka fólk hljóta allar góðu hugmyndirnar að vera búnar.
Með hlutabóta-leiðinni átti að borga fyrirtækjum fyrir að reka ekki fólk. En skömmu síðar ákvað ríkisstjórnin að borga laun starfsfólks einkafyrirtækja… í uppsagnarfresti. Sem sagt: að borga fyrirtækjum fyrir að reka fólk.
Hlutafé bjargað
Ef fyrirtæki geta ekki greitt laun í uppsagnarfresti eru þau í reynd gjaldþrota og þá er þegar til sjóður, Ábyrgðasjóður launa, sem gerir upp vangoldin laun við slíkar aðstæður.
Þegar ríkið ákveður að greiða laun í uppsagnarfresti án kröfu um gjaldþrot er það því varla að verja atvinnu eða tekjur launafólks. Það er að verja hlutafé.
Hlutafélög með takmarkaða ábyrgð eru stórkostleg uppfinning. Þau gera fólki mögulegt að fara út í rekstur án þess að hætta á að tapa aleigunni ef reksturinn gengur ekki vel. En þeir sem leggja til eða kaupa hlutafé vita líka að þetta er alltaf áhættufjárfesting sem getur auðveldlega glatast öll. Það gerist líka oft.
Ef þeir sem fyrirtækið skuldar hafa trú á því að það geti starfað áfram og greitt til baka þá geta þeir samið um af borganir og haldið fyrirtækinu lifandi. En ef kröfuhafarnir hafa sjálfir ekki slíka trú er ekki sjálfgefið að ríkið eigi að leysa þá af hólmi og gefa fyrirtækinu peninga til að það geti haldið sér á f loti. Raunar ætti það helst aldrei að gera það.
Markaðslögmálin skekkt
Mörgum aðgerðum ríkisins er ætlað hvort tveggja: að a) bjarga stöndugum fyrirtækjum og b) ekki gefa pening til fyrirtækja sem þurfa hann ekki (sem sagt: stöndugra fyrirtækja). Þetta er augljós innbyrðis mótsögn sem skapar furðulegar leikreglur á markaði.
Ímyndum okkur tvö fyrirtæki: Vel rekið ehf. og Illa rekið ehf. sem eru í samkeppni hvort við annað. Vel rekið ehf. hefur safnað í sjóði til að bregðast við breyttum aðstæðum en Illa rekið ehf. ekki. Nú kemur kreppa og ríkið hleður í aðgerðapakka sem fyrirtækin ráða hvort þau þiggja.
Við vitum að:
Illa rekið ehf. fer á hausinn án ríkisaðstoðar en tórir með því að nýta sér hana.
Vel rekið ehf. tórir án ríkisaðstoðar en dafnar með því að nýta sér hana.
Stjórnendur Illa rekins ehf. sækja augljóslega um ríkisaðstoð. Enginn segir neitt við því. En stjórnendur Vel rekins ehf. eru í vanda. Stjórnendurnir átta sig á því að það kunni að vekja neikvætt umtal ef sótt er um ríkisaðstoð sem fyrirtækið þarf strangt til tekið ekki.
Niðurstaðan er að bæði fyrirtækin tóra. Ríkið hefur því tekið að sér að auka jöfnuð milli þeirra. En þótt maður geti hafa þá skoðun að ríkið eigi að tryggja ákveðinn jöfnuð milli fólks af holdi og blóði hefur ríkið einfaldlega ekkert að gera með að auka jöfnuð milli fyrirtækja á frjálsum markaði. Þar á samkeppnin ein að ríkja. Almenn lækkun opinberra gjalda er sanngjarnari leið en einhverjar matargjafir til bágstaddra hlutafélaga.
Nóg af þessu í bili
Auðvitað er rétt að reyna að halda uppi atvinnustigi og tryggja að velferðarkerfið geti tekið á móti þeim sem nú missa vinnuna. En aðgerðir ríkisvaldsins eru þegar orðnar mjög dýrar. Það sem kynnt hefur verið kostar 350 milljarða. Stór hluti þeirra aðgerða miðar að því að breyta leikreglum frjáls markaðar og að lágmarka tap vegna áhættufjárfestinga. Það má spyrja sig hvort það sé til lengdar skynsamlegt.