Hroki og hleypidómar

Benedikt Jóhannesson

Fyrir fámenna þjóð eins og Íslendinga er fátt mikilvægara en traust alþjóðasamstarf sem hefur í heiðri þau gildi sem okkur eru kærust. Umræðan um að best sé að einangra okkur frá þeim þjóðum sem við eigum mest sameiginlegt með er skaðleg.

Breska ríkisstjórnin er svo heillum horfin að hún margneitaði að taka þátt í innkaupum Evrópuríkjanna á búnaði vegna kórónuveirunnar. Litið var til leiðtogans vestan Atlantsála sem taldi veiruna vera skæða flensu. Guð má vita hve mörg mannslíf þetta blinda ofstæki hefur kostað.

Þó að utanríkisráðherra Íslands hafi enn ekki skýrt það í hverju hin miklu tækifæri Íslands í Brexit eru fólgin, verður að hrósa honum fyrir það hve staðfastlega hann styður aukaðild Íslendinga að sambandinu í gegnum EES-samninginn. Í Reykjavíkurbréfi Moggans er talað er um hinar „beinlausu undirtyllur búrókrata í Brussel“ í utanríkisráðuneytinu, þannig að ráðherrann hlýtur að vera á réttri leið.

Ríkisstjórnin afþakkaði í liðinni viku þátttöku Íslands í uppbyggingu frá Atlantshafsbandalaginu með vísan í það að einn ríkisstjórnarflokkurinn sé á móti stríði. Einleikur eins flokks er á ábyrgð hinna.

Eru þeir flokkar fylgjandi stríði sem vilja taka þátt í virku varnarbandalagi? Auðvitað ekki. Danir, Norðmenn, Eistar, Lettar og Litháar fengu allir að kenna á því þegar til kastanna kemur er einhliða yfirlýsing um hlutleysi einskis virði. Allar þjóðirnar eru nú reynslunni ríkari í NATO, sem ásamt Evrópusambandinu er áhrifamesta friðarbandalag sögunnar.

Evrópuandstæðingar eiga auðvelt með að finna sér ástæður fyrir einangrunarstefnunni. Einn daginn er það vegna þess hve ofursterkt sambandið sé, næsta dag hæðast þeir að veikleikum þess. Reglulega er spáð upplausn sambandsins eins og hún yrði heillaspor fyrir alla.

Morgunblaðið spyr í fyrrnefndu bréfi: „Springur myntbandalagið með hvelli? Liðast ESB í sundur? Eða verður þessi krísa notuð til að þröngva aðildarþjóðunum síðasta skrefið inn í formlegt sambandsríki með seðlabanka sem sætir engum takmörkunum þjóðríkjanna og fær að beina fjármunum úr sameiginlegum sjóðum frá ríkari löndum til þeirra sem höllum fæti standa? Hagfræðingar … verða að svara því hvort slíkar aðgerðir eru til þess fallnar að leysa hin undirliggjandi vandamál.“

Einn helsti leiðtogi frjálslyndra í Evrópu, Guy Verhofstadt, hefur barist fyrir því að sambandið styðji þau ríki sem verst hafa komið út úr kórónuveirunni með sameiginlegri ábyrgð á 500 milljarða evru sjóði. Merkel og Marcron hafa nú tekið undir þessa tillögu og gert að sinni og hagfræðingar styðja hana. Vonandi tekst með samtakamætti að koma efnahag allra þessara þjóða á réttan kjöl. Við græðum nefnilega líka á því að aðrir geti  ferðast til Íslands og keypt íslenskan fisk.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. maí 2020