Vatnaskil í varnarmálum

Þorsteinn Pálsson

Morgunblaðið greindi frá því á dögunum að utanríkisráðherra hefði óskað eftir heimild ríkisstjórnarinnar til þess að leyfa umfangsmiklar nýjar varnarframkvæmdir suður með sjó. Forsætisráðherra á að hafa hafnað beiðninni.

Andstæðingum varnarsamvinnunnar hefur ekki áður tekist að stöðva varnarframkvæmdir þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt aðild að ríkisstjórn. Í því ljósi var þetta frétt um pólitísk vatnaskil í varnarmálum.

Neitunarvald getur haft víðtæk áhrif

Fram til þessa hafa flestir litið svo á að andstaða VG við varnarsamstarfið væri fyrst og fremst táknræn. Í stjórnarsáttmálanum er ekki minnst á neiturnarvald. En nú benda frásagnir til þess að neitunarvaldið sé virkt.

Standi þessir málavextir óbreyttir geta aðrar þjóðir með réttu litið svo á að VG hafi einnig neitunarvald, ef til þess kæmi að virkja þyrfti ákvæði varnarsamningsins vegna yfirvofandi ógnar. Það myndi setja strik í reikninginn um stöðu Íslands.

Óhjákvæmilega vaknar einnig sú spurning hvaða pólitíska umboð utanríkisráðherra hefur eftir þetta í samtölum við Bandaríkin og aðrar bandalagsþjóðir um áframhaldandi þróun varnarsamstarfsins.

Aldrei fyrr náð sínu fram

Þegar hervernd Bandaríkjanna lauk 1946 fóru þau fram á að fá aðstöðu á Keflavíkurflugvelli þótt herinn færi. Þáverandi utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins vissi um andstöðu ráðherra sósíalista. Hann samdi eigi að síður og lagði niðurstöðuna fyrir Alþingi, sem samþykkti samninginn.

Sósíalistar rufu þá stjórnarsamstarfið. Í framhaldinu var mynduð stjórn þeirra flokka, sem samþykktu samninginn.

Alþýðubandalagið samdi 1956 og 1971 um brottför varnarliðsins. Framsókn, Alþýðuflokkur og Samtök frjálslyndra og vinstrimanna, sem sátu í þeim stjórnum, komu í bæði skiptin í veg fyrir að við þau loforð yrði staðið án þess að það hreyfði við ráðherrum Alþýðubandalagsins.

Við ríkisstjórnarmyndun Gunnars Thoroddsen 1980 náði Ólafur Ragnar Grímsson því fram að nýja flugstöðin fyrir borgaralegt flug, sem Bandaríkjamenn kostuðu, var minnkuð lítið eitt. Það er eini árangurinn fram til þessa.

VG vill taka valdið frá utanríkisráðherra

Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hefði tekið á málinu nú með sömu festu og 1946 er mjög ólíklegt að VG hefði rofið stjórnarsamstarfið. En með því móti hefði hann hins vegar sýnt að andstæðingar varnarsamstarfsins hafi ekki neitunarvald um þróun þess.

Þessu geta kjósendur ekki lengur treyst. Þó að Sjálfstæðisflokkurinn eigi vísan stuðning meirihluta Alþingis í þessu máli kýs hann að láta VG ráða för. Það er mikil ábyrgð þegar teflt er um mál, sem snerta öryggi landsins. Til þessa hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki litið á varnarmálin sem skiptimynt.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp frá öllum þingmönnum VG um að taka valdið um varnarliðsframkvæmdir frá utanríkisráðherra. Flutningur þess lýsir fádæmalausri ögrun í stjórnarsamstarfi, en virðist þegar hafa haft veruleg óbein áhrif.

Varnarhagsmunir ráða en ekki atvinnuhagsmunir

Forsætisráðherra segir réttilega að ekki megi blanda saman ákvörðunum um varnarmannvirki og erfiðu atvinnuástandi. Því verður hins vegar trauðla trúað að utanríkisráðherra hafi lagt málið fyrir án samtala við bandamenn og eingöngu á þeirri forsendu að erfitt væri um atvinnu.

Formaður utanríkisnefndar hefur talað um málið eins og undirbúningur þess hafi verið fullnægjandi og gildi framkvæmdanna fyrir varnarhagsmuni Íslands ótvírætt.

Forsætisráðherra segir hins vegar að Atlantshafsbandalagið hafi ekki rætt við íslensk stjórnvöld um málið. Í því felst býsna þung ásökun um að utanríkisráðherra hafi borið það fram án málefnalegs undirbúnings.

Hafi varnarmálum og atvinnumálum verið hrært saman á einhverju stigi eru það mistök. Þau ættu þó ekki að hafa áhrif á efnislega niðurstöðu snúist málið í raun og veru um varnarhagsmuni Íslands.

Ábyrgð þjóðaröryggisráðs

Lögum samkvæmt á þjóðaröryggisráð að meta ástand og horfur í þjóðaröryggismálum. Utanríkisráðuneytinu er skylt að upplýsa ráðið og það getur sjálft kallað eftir öllum nauðsynlegum gögnum.

Forsætisráðherra á ekki að ýta málinu út af borðinu nema þjóðaröryggisráð hafi komist að þeirri niðurstöðu að það sé óháð varnarhagsmunum.

Það mat liggur ekki fyrir.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. maí 2020