Undirstaðan er heima!

Ef orðið „undirstöðuatvinnugrein“ er sett inn á google koma upp 8320 síður þar sem hagsmunaaðilar keppast við að eigna sér þennan titil. Hér eru örfá dæmi:

ASÍ minnir á að ein undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar er sjávarútvegur. SVÞ segir á vef sínum að verslunin sé ein af undirstöðuatvinnugreinunum. Nýlega kom fram í ræðu að laxeldi sé að verða undirstöðuatvinnugrein á Íslandi. Rétt fyrir hrunið 2008 birtist grein þar sem segir: „Ég tel að Ísland hafi eignast nýja undirstöðuatvinnugrein. Hér á ég við fjármálageirann.“ Þetta er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Á heimasíðu kemur fram að matvælaframleiðsla sé undirstöðuatvinnugrein á Íslandi. Þingmaður segir í nýlegri grein að landbúnaðurinn sé ein af undirstöðuatvinnugreinum landsins.

Samkvæmt Hagstofunni er opinber þjónusta með um 20% hlut í landsframleiðslunni árið 2019. Verslun, samgöngur og gisting var með um 20%, iðnaður (þ.m.t. fiskiðnaður) um 15%, landbúnaður og fiskveiðar með um 5%. Flestar þessar greinar fullyrða að þær séu „undirstöðuatvinnugrein“.

Íslensk nútímaorðabók skilgreinir „undirstöðuatvinnugrein“ sem „atvinnugrein sem er undirstaða fyrir aðra atvinnuvegi“. Ég legg til að atvinnugreinar hætti að eigna sér þennan titil og átti sig á því að allar atvinnugreinar eru jafn mikilvægar.

Ef einhver geiri verðskuldar titilinn þá er það menntageirinn sem í raun leggur grunn að allri verðmætasköpun landsins. Ég vil ganga enn lengra og fullyrða að fjölskyldurnar og heimilin í landinu séu undirstaðan í hagkerfinu og að við eldhúsborðið fari fram mikilvægustu umræðurnar í landinu!

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. júní 2020