Skrefi lengra

Þorsteinn Pálsson

Á síðustu áratugum hefur norrænt samstarf ekki verið jafn metnaðarfullt og það var fram eftir síðustu öld. Fjölþætt tengsl landanna hafa eigi að síður dafnað ágætlega.

Á öllum Norðurlöndum er góð pólitísk eining um að viðhalda tengslanetinu þótt þunginn og metnaðurinn í fjölþjóðasamstarfi þeirra liggi að mestu í Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu.

Vönduð og hnitmiðuð skýrsla

Fyrir skömmu var birt skýrsla, sem Björn Bjarnason fyrrum dómsmálaráðherra vann, um aukið samstarf Norðurlanda á sviði utanríkis- og öryggismála. Hún er eins og vænta mátti hnitmiðuð og markviss með ábendingum um tiltekin verkefni.

Sum málefni geta löndin leyst í innbyrðis samstarfi. Önnur, einkum stærri pólitísk og efnahagsleg viðfangsefni, ráðast í samvinnu fleiri þjóða.

Í þessu ljósi er vert að virða frumkvæði Norðurlanda að margvíslegu samstarfi, sem síðar hefur þróast í stærra samhengi.

Norrænt myntbandalag verður evrópskt

Norræna myntbandalagið, sem stofnað var 1873, er trúlega metnaðarfyllsta og áhrifaríkasta samstarfsverkefni landanna. Þá urðu til norrænar jafngildar krónur. Bandalagið stóð í nær hálfa öld og var ein helsta forsenda atvinnulífsbyltingarinnar á Íslandi í byrjun síðustu aldar.

Áratugum síðar tók Evrópusambandið upp þráðinn með mynteiningu, sem í framhaldi leiddi til stofnunar myntbandalags um evruna. Hún er nú ein af þremur öflugustu og stöðugustu myntum heimsins.

Norræn lagasamræming verður evrópsk

Fram eftir síðustu öld fór einnig fram mikil og metnaðarfull vinna til að ná fram samræmingu norrænna laga á fjölmörgum sviðum. Í dag taka öll Norðurlönd þátt í miklu víðtækari og markvissari lagasamræmingu, með aðild að innri markaði Evrópusambandsins og þrjú þeirra með fullri aðild.

Norðurlönd gerðu einnig með sér samkomulag um gerðardóma til að útkljá deilumál sín á milli. Segja má að með Evrópudómstólnum og EES-dómstólnum hafi það verkefni verið sett í stærra samhengi, þar sem einstaklingar og fyrirtæki fá skorið úr ágreiningsefnum, sem snerta regluverk Evrópusambandsins.

Norrænt vegabréfasamband verður evrópskt

Norræna vegabréfasambandið, sem stofnað var um miðja síðustu öld, var brautryðjendaverkefni til að tryggja frjálsa för fólks milli landa.

Hálfri öld síðar var það beinlínis flutt inn í Schengen-samstarf Evrópusambandsins. Sama hugsjón er nú tryggð í miklu víðtækara samstarfi innan Schengen og með reglum innri markaðar Evrópusambandsins um frjálsa för fólks.

Tvær hliðar á sama peningi

Það metnaðarfulla fjölþjóðasamstarf, sem hófst á norrænum vettvangi, hefur smám saman þróast yfir í evrópskt samstarf. Höfuðsvið þeirrar samvinnu eru þau sömu og áður. En í samræmi við breytta tíma og nýjar áskoranir eru verkefnin fjölþættari.

Helstu málum, sem Norðurlönd þurfa að vinna með öðrum þjóðum, er nú ráðið til lykta innan Evrópusambandsins og á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, sem í raun eru sín hvor hliðin á sama peningnum.

Þrjú Norðurlanda eiga nú fulla aðild að Evrópusambandinu en önnur tvö að kjarna þess, innri markaðnum. Síðan eiga þrjú landanna fulla aðild að Atlantshafsbandalaginu en önnur tvö, sem lengi voru hlutlaus, eiga nú náið og virkt samstarf við bandalagið.

Lokaskrefið minna en þau sem tekin hafa verið

Viðbótarskrefin til fullrar aðildar eru tiltölulega lítil. Þau eru sannarlega pólitískt viðkvæm í hverju landi. En það breytir ekki hinu að þau skref, sem þegar hafa verið stigin, voru stærri en það sem eftir er í báðum tilvikum.

Þegar litið er á þau verkefni, sem tilgreind eru í skýrslu Björns Bjarnasonar, er engum vafa undirorpið að samstaða Norðurlanda um mörg þeirra yrði sterkari og markvissari, ef löndin ættu öll sæti við borðið í þeim tveimur fjölþjóðasamtökum, sem úrslitum ráða um þau.

Vilji menn ríkan metnað í norrænt samstarf, gæti næsta skref verið umræða um möguleika á fullri aðild allra landanna að þessum tveimur höfuð fjölþjóðasamtökum Evrópuríkja.

Er ekki kominn tími til að taka norræna samvinnu skrefi lengra?

Greinin birtist í Fréttablaðinu 30. júlí 2020