Íslendingar geta ekki bundið gengi gjaldmiðilsins síns niður með trúverðugum hætti, nema því aðeins að afsala sér sjálfstæði í peningamálum með því að ganga í myntbandalag eða taka upp myntráð – eða binda gjaldmiðilinn niður með höftum.“

Þetta segja hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson í bók sinni Áhættudreifing eða einangrun? Hún kom út 2014.

Andstæð sjónarmið

Þeir sem tala fyrir því að binda krónuna við aðra mynt eða ganga í myntbandalag, reisa tillögur sínar á kenningum af þessu tagi. Í því felst að ekki verði hjá því komist að velja og hafna þegar markmið eru ósamrýmanleg.

Að því gefnu er það svo pólitískt mat að frelsi í viðskiptum sé mikilvægara fyrir efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar en sjálfstæð stjórn peningamála.

Pólitík þeirra sem tala fyrir sjálfstæðri krónu er flóknari. Meginlína þeirra er sú að Íslendingar þurfi ekki að velja og hafna í þessum efnum eins og aðrar þjóðir.

Röksemd þeirra er að nauðsynlegt sé að hafa gjaldmiðil, sem geti hækkað og lækkað eftir sveiflum í efnahagsstjórn og breytingum á ytri aðstæðum þjóðarbúsins. Um leið telja þeir að þennan sveigjanleika þurfi ekki að nota, ef rétt fólk er við stjórnvölinn.

Talsmenn beggja sjónarmiða eru þannig í orði kveðnu sammála markmiðunum um stöðugleika og frjáls viðskipti. En reynslan sýnir þó að þau hafa jafnan verið víkjandi, en sveiflur eða höft ráðandi.

Flæðir undan kenningunni um sveigjanleika myntar

Samkeppnisstaða ferðaþjónustunnar var orðin mjög þröng áður en kórónaveirufaraldurinn leiddi til algjörrar stöðvunar. Samkvæmt kenningunni um mikilvægi þess að hafa gjaldmiðil, sem breytist með breyttum aðstæðum hefði krónan átt að falla svo um munar.

Það hefur hins vegar ekki gerst. Krónan hefur að sönnu veikst. Það er þó mjög lítið í íslenskum samanburði. Breytingin er líka óveruleg, miðað við það mikla fall í gjaldeyristekjum, sem orðið hefur.

Greinilegt er að stjórnvöld stefna að því að halda verðgildi krónunnar sem stöðugustu þrátt fyrir þetta feiknarlega áfall. Það er stefnubreyting. Hún er vissulega fagnaðarefni. Um leið eru stjórnvöld að viðurkenna að flætt hefur undan kenningu þeirra um nauðsyn sveigjanlegs gjaldmiðils þegar svo stendur á.

Kenningin um að ekki þurfi að velja og hafna er líka fallin

Pólitísku tíðindin eru meiri. Kenningin um að Ísland eitt allra landa í heiminum þurfi ekki að velja á milli stærri gjaldmiðils og hafta til að tryggja stöðugleika, er líka fallin.

Við eigum orðið öflugan gjaldeyrisvarasjóð. Hann varð til á undra skömmum tíma þegar saman fór að sprenging varð í gjaldeyristekjum af ferðamönnum og erlendir kröfuhafar gáfu ríkinu stóran hluta af eignum sínum hér.

Þessi mikli gjaldeyrisvarasjóður dugði ekki. Til þess að koma í veg fyrir gengishrun var allur innlendur sparnaður launamanna í lífeyrissjóðum hnepptur í höft.

Ísland er eina Evrópulandið, sem gripið hefur til slíkra ráða. Og í fyrsta sinn ná höft bara til launafólks, en ekki kapítalista.

Allar haftareglur hafa í byrjun verið settar sem skammtímaráðstöfun. Þær hafa svo orðið misjafnlega varanlegar. Engin gögn hafa verið birt, sem benda til að nýju höftin séu annarrar náttúru.

Þjóðhagsvarúð snúið á hvolf

Í bók sinni Áhættudreifing eða einangrun? komast höfundar að þeirri niðurstöðu að lífeyrissjóðirnir þurfi að lágmarki að hafa fjörutíu til fimmtíu hundraðshluta eigna sinna erlendis. Þetta viðmið er enn fjarri.

Annars staðar þar sem lífeyrissjóðir eða þjóðarsjóðir eru, eins og hér, til muna stærri en hagkerfið, er erlend áhættudreifing miklu meiri.

Hagfræðingarnir færa sannfærandi rök fyrir því að það sé þjóðhagsvarúðarráðstöfun að tryggja þessa lágmarks áhættudreifingu, jafnvel þótt óhjákvæmilegt sé að setja höft á aðra. Allra síðast eigi að setja höft á lífeyrissjóði.

Stjórnvöld hafa nú snúið þessu rökstudda ráði hagfræðinganna á hvolf. Þjóðhagsvarúðin felst í því að setja höft á félagsmenn lífeyrissjóða en ekki aðra.