Ákall um áræðna áætlun

Árangur Íslands í baráttunni við COVID-19 heimsfaraldurinn hefur verið góður í alþjóðlegu samhengi. Skynsamleg ráð sérfræðinga, góð eftirfylgni og vilji þjóðarinnar hafa þar ráðið mestu. Aðgerðirnar hafa borið þess merki að vegnir eru saman hagsmunir samfélagsins af því að ná tökum á smiti og neikvæðar afleiðingar þess að loka samfélaginu. Slík jafnvægislist er afar erfið þegar tekist er á við fordæmalausar aðstæður.

Ný bylgja, ný staða

Núna tökumst við á við aðra bylgju faraldursins hér á landi. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur undanfarið ítrekað sagt að nú sé komið að stjórnvöldum að taka afstöðu til þess hvernig vega skuli saman hagsmuni samfélagsins af því að halda smiti í lágmarki og af að halda samfélaginu opnu. Getan til að velja aðgerðir, vega saman ólíka hagsmuni og komast að málamiðlunum hefur aukist því fyrir liggur reynslan frá fyrstu bylgju. Þetta eru orð í tíma töluð. Fyrir liggur að heimurinn mun þurfa að lifa með COVID þar til bóluefni finnst. Nákvæmlega hvenær bóluefni mun verða aðgengilegt liggur ekki fyrir, en ólíklegt er að það verði fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári.

Reynsla þeirra landa sem ekki hafa gripið til aðgerða sýnir að COVID verður að taka alvarlega. Kostnaðurinn af því að gera ekkert er mjög mikill. Hins vegar liggur einnig fyrir að mjög harkalegar sóttvarnaaðgerðir hafa neikvæð áhrif á efnahag, skerða verulega frelsi einstaklinga, leiða til atvinnuleysis, einangrunar og þjáninga. Hér er því úr vöndu að ráða.

Reynslan af aðgerðum í fyrstu bylgju faraldursins bendir til þess að mikilvægt sé að takast á við bylgjurnar af krafti en velja aðgerðir sem viðhalda eins og kostur er eðlilegu samfélagi. Og mikið var hléið milli fyrstu og annarrar bylgju ljúft!

Hin pólitíska spurning er fyrst og fremst hvort eigi að opna landamærin þannig að ferðaþjónustan, þessi burðarás í hagkerfi Íslands, lamist ekki alveg. Þessi spurning er erfið. Reynslan af opnun landamæra í sumar var að fjöldi erlendra ferðamanna var ekki nema brot af því sem verið hefur. Margir aðilar innan ferðaþjónustunnar hafa þó sagt að þessi aðgerð hafi skipt sköpum.

Forgangsmál er að leggja mat á áhrifin svo mögulegt sé að undirbyggja vandlega ákvarðanir um aðgerðir þegar annarri bylgju lýkur. Reynsla sumarsins bendir til mikilla erfiðleika í ferðaþjónustu þar til bóluefni finnst. Umtalsverð aukning atvinnuleysis virðist því óumflýjanleg, óháð opnun landamæra.

Þetta þurfa stjórnvöld að taka alvarlega. Neikvæðar af leiðingar atvinnuleysis eru vel þekktar. Þjáningar þess sem missir vinnuna og aðstandenda hans, fjárhagslegar af leiðingar fyrir hann sem og þau glötuðu verðmæti sem einstaklingurinn hefði skapað, sér og samfélaginu til hagsbóta.

Staða ríkissjóðs er sterk, skuldir eru litlar bæði í sögulegu og alþjóðlegu samhengi. Staða krónunnar er trygg í skjóli gjaldeyrisvaraforða og fjárfestingahafta á lífeyrissjóði. Því eru til staðar forsendur til að stjórnvöld geti dregið úr þessum vanda. Á stjórnvöldum hvílir sú ábyrgð að velja til hvaða aðgerða skuli grípa.

Atvinnuleysi verður að taka alvarlega

Aðgerðirnar þurfa að skapa tækifæri fyrir þá sem nú þegar hafa misst vinnuna og munu missa vinnu á komandi misserum. Þær þurfa jafnframt að vera tímabundnar. Ríkið getur ekki lifað um efni fram nema í stuttan tíma. Helst af öllu þurfa þær að vera hagkvæmar til lengri tíma. Aðgerðirnar skili sér í minni kostnaði eða meiri tekjum þegar fram líða stundir. Dæmi um slíkar aðgerðir eru menntunarúrræði, fjárfesting í innviðum, svo sem samgöngukerfi, fjarskiptakerfum og raforkukerfi, að flýta opinberum framkvæmdum og stuðningur við nýsköpun.

Undirbúningur allra þessara aðgerða krefst tíma. Tími hefur gefist í sumar til að ígrunda stöðuna, meta áhrif aðgerða í fyrstu bylgju faraldursins og gera áætlanir um viðbrögð. Stjórnvöld þurfa að leggja fram sína sýn um aðgerðir sem allra fyrst þannig að umræða um þau geti átt sér stað. Mikið liggur við að forða eins mörgum frá atvinnuleysi og kostur er.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. ágúst 2020