Blómstrandi Breiðholt

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Hverfisskipulag, sem verið er að innleiða fyrir öll hverfi Reykjavíkur, miðar að því að gera fólki það einfaldara að byggja við húsnæðið sitt, bæta við svölum eða kvistum og fara í einfaldar breytingar. Hugmyndin er að fólk fái því betur stjórnað hvernig það nýtir húsnæðið sitt og lóðir. Reykvíkingar munu taka eftir einföldun kerfisins og gagnsæinu sem fylgir þegar skýrt er hvaða breytingar eru leyfilegar.

Þegar hefur hverfisskipulag tekið gildi fyrir Árbæ og verið er að kynna hverfisskipulag fyrir Breiðholt, eftir mikið samráð við íbúa á öllum aldri. Tillögurnar byggja á óskum íbúa hverfisins sem fram komu í samráðsferlinu. Áfram verður unnið og munu öll hverfi borgarinnar fá sitt hverfisskipulag, unnið í samráði við íbúa.

Við þurfum að fara inn með úthverfin. Það þýðir að meirihlutinn í Reykjavík vill styrkja öll hverfi borgarinnar til að hægt sé að sækja þjónustu við hæfi í nærsamfélaginu. Nýtt hverfisskipulag fyrir Breiðholt gerir ráð fyrir töluverðri uppbyggingu þar sem eigendum fjölbýlishúsa verður heimilt að bæta við hæð ofan á hús og fjármagna þannig lyftuhús eða útbúa íbúðir í bílskúrum og í viðbyggingum. Engum er gert skylt að fara í framkvæmdir en þau sem vilja munu upplifa einfaldara viðmót við leyfisveitingar.

Í hverfisskipulaginu fyrir Breiðholt má finna tillögur að spennandi uppbyggingu, svo sem að styrkja hverfiskjarna í Arnarbakka, í Fellunum og í Rangárseli. Þá er verið að leggja til uppbyggingu á vetrargarði í skíðabrekkunni í Seljahverfi og að heimila matjurtagarða og gróðurhús víðs vegar í borgarlandinu. Samhliða vinnu við hverfisskipulag hefur borgarráð samþykkt að finna nýju fimleika- og danshúsi stað í Efra-Breiðholti.

Breiðhyltingar eru hvattir til að taka þátt í léttum göngutúrum í dag, miðvikudag og fimmtudag um hverfið, þar sem sagt verður frá uppbyggingarhugmyndum og spurningum svarað. Starfsmenn borgarinnar verða einnig þessa vikuna í Mjódd til að kynna hverfisskipulagið.

Höfundur er oddviti Viðreisnar og formaður borgarráðs

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. ágúst 2020