Hver er stefnan?

Að mörgu leyti var COVID-tímabilið í vor ekki slæmt. Krakkarnir voru passlega mikið í skólanum, sluppu úr hinni grimmu rútínu hversdagsins og fjarvinna er ágæt. Ekki sakaði að við tók nánast veirufrítt sumar og veðrið með skásta móti, þótt minni fjölskyldu hafi tekist að elta vonda veðrið í sumarfríinu, þótt það hafi alls ekki verið markmiðið. Ég bý við viss forréttindi. Vinn hjá opinberum aðilum, sveitarfélagi og ríkinu, og er á þeim aldri að flest er á auðum sjó. Þá er ég á neytendahlið ferðaþjónustunnar og enginn myndi greiða mér fyrir söng eða leik.

Þannig er það ekki með stóran hluta þjóðarinnar. Fólk í ölduróti má ekki við miklu. Hvort sem það er í hinum harða heimi rekstrar eða lista – eða býr við félags- eða efnahagslega óvissu. Fyrirtæki lifa ekki lengi tekjulaus og flestar fjölskyldur lifa frá visa-reikningi til visa-reiknings.

Önnur bylgja COVID (fell ekki í þann bjartsýnispytt að kalla hana seinni bylgjuna) kom flatt upp á Íslendinga. Jafnt almenning og stjórnvöld. Viðbrögð stjórnvalda voru í það minnsta fálmkennd. Landinu var lokað og strangar reglur settar með stífum sektarákvæðum. Frá upphafi hefur verið ljóst að veiran skæða myndi ekki fara í sumarfrí eða yfirgefa landið með farfuglunum. Í upphafi var stefnan að „fletja kúrfuna“ til að heilbrigðiskerfið réði við álagið. Þegar þetta er skrifað er einn á sjúkrahúsi, svo að ekki er það vandamálið. Hver er stefnan núna?

Hvert er planið sem ríkisstjórnin og starfsmenn ráðuneyta hljóta að hafa unnið að í allt sumar? Hvert er markmiðið? Á hvaða gögnum er núverandi stefna byggð? Má maður fara að sjá Gróttu spila í haust? Verður hægt að halda fermingarveislu? Munu ferðamenn geta komið til landsins og getur GusGus spilað í Hörpu í nóvember? Og ef ekki, hvers vegna?

Meðan markmiðin eru óljós og stefnan óviss eru engar líkur á að fólkið í landinu taki á veirunni skæðu með nægilega afgerandi hætti. Óvissan sem þetta skapar kemur illa við fólk, verst þó við þá sem þessa dagana kveðja vinnufélaga og horfa fram á atvinnuleysi í vetur.

Höfundur er bæjarfulltrúi Viðreisnar á Seltjarnarnesi

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. ágúst 2020