Svona segir maður ekki Ásgeir!

Benedikt Jóhannesson

Seðlabankastjóri hóf upp raust sína svo eftir var tekið. Í þetta sinn síður en svo um gjaldeyri, banka eða peningamál. Nei, bankastjórinn sagði orðrétt, að sögn vefmiðla: „Mér finnst alveg stórundarlegt og ámælisvert að Sundabraut hafi ekki verið byggð miðað við þá umferð sem er í bænum.“

Þegar ég heyrði þetta greip ég um andlitið og hugsaði: „Ásgeir, Ásgeir, Ásgeir. Svona segir maður ekki. Allra síst mikils metinn borgari í þinni stöðu.“

Ég sá að þingmaður Pírata var líka ósáttur við ummæli bankastjórans og taldi þau „galin“. Hann tekur því mun dýpra í árinni en ég.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég tel að Sundabraut sé hið besta mál og hefði fyrir löngu átt að leggja hana.

Það er nefnilega mergurinn málsins. Vegir eru lagðir og jafnvel gerðir (samanber vegagerð) en hús eru byggð. Um þetta eru málvöndunamenn sammála, allt frá móður minni heitinni að tungugæsluþætti Morgunblaðsins.

Víkjum nú að efnisþætti málsins. Sundabraut var eitt af kosningamálunum fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2006. Væntanlegir borgarfulltrúar deildu um fjármögnun, staðsetningu og áfangaskiptingu verksins. Einn frambjóðandi, Dagur B. Eggertsson, setti fram þá málamiðlun að helminga brautina, hún yrði sem sé einbreið alla leið. Sú lausn féll í grýttan jarðveg.

Brautin umþrætta á byrja einhvers staðar á bilinu frá Gelgjutanga að Kleppsvík í Reykjavík. Hún á svo að liggja um Gufunes, Mosfellsbæ og alla leið upp á Kjalarnes. Enginn hefur tekið af skarið og byrjað á verkinu, en árið 2006 var áætlun Vegagerðarinnar að verkinu yrði lokið árið 2011. Síðan eru liðin mörg ár og verkið hefur lítið nálgast byrjunarreit.

Margar snjallar hugmyndir hafa komið fram gegnum tíðina. Árið 1983 keypti Reykjavíkurborg Viðey og borgarstjóri gat þess að þar gæti orðið framtíðarbyggð. Í blaðinu sem hann stýrir nú sagði þá: „Frá Gufunesi væru aðeins 650 metrar út í eyjuna og talið væri að gera mætti akstursleið mestan hluta leiðarinnar.“ Skýringin á því að ekki hafi orðið af þeim framkvæmdum kann að vera sú að slíkur vegarhluti, áleiðis út í Viðey, myndi jafnvel nýtast verr en einbreiði vegurinn upp á Kjalarnes sem núverandi borgarstjóri lagði til.

Stjórnmálamenn líta margir á vegagerð sem atvinnubót í kreppu. Þeir gætu því talið báða kostina, Viðeyjar- og Sundabraut, býsna álitlega. En atvinnusköpun er slæm ástæða til fjárfestinga. Í Viðey eru íbúar vandfundnir, en fimm tugir þúsunda búa í norðurbyggðum Reykjavíkur og Mosfellsbæ. Hjá þessum hópi eru einn til tveir tímar á viku, sem sparast við greiðari umferð, milljarða verðmæti fyrir samfélagið og auka lífsgæði íbúanna.

Þess vegna er ekki galið að leggja Sundabraut og skynsamlegt hjá Ásgeiri að vekja máls á henni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. september 2020