Gríman er fallin

„Skammist ykkar.“

Svona hefst pistill Gísla Páls Pálssonar, forstjóra Grundar og formanns Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, á heimasíðu Grundar núna í vikunni. Hvern er forstjórinn að ávarpa? Jú, oddvita ríkisstjórnarinnar. Hann veltir fyrir sér, líkt og margir hafa gert síðustu ár, á hvaða forsendum fjármagn til þessa mikilvæga hluta heilbrigðisþjónustunnar er ítrekað skorið niður á sama tíma og bætt er í víða annars staðar. Þvert á gefin fyrirheit, því í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar stendur svart á hvítu innan um fallegu teikningarnar; „Einnig verður hugað að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila.“

Staðreyndin er sú að í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur rekstrarfjármagn til hjúkrunarheimila verið markvisst skert og engin teikn eru á lofti um breytingar þar á. Staðan var því orðin slæm, en lengi getur vont versnað. Hjúkrunarheimilin takast nú á við þriðju bylgju Covid faraldursins, löskuð og sum jafnvel komin fjárhagslega að fótum fram. Stjórnendur og starfsfólk hafa unnið þrekvirki í erfiðum aðstæðum. Fyrir utan mikið álag hafa heimilin eðlilega staðið frammi fyrir auknum kostnaði vegna ýmissa nauðsynlegra ráðstafana. Þann viðbótarkostnað hafa stjórnvöld neitað að greiða. Þar á bæ kviknaði reyndar sú snilldarhugmynd að spara á aðstæðunum með því að halda eftir greiðslum til hjúkrunarheimilanna sem nemur þeim rúmum sem haldið var auðum vegna sóttvarnarráðstafana og til að geta brugðist við með hraði þyrfti að opna sérstakar Covid einingar inni á heimilunum.

Þessi sveltistefna veldur því að hjúkrunarheimilin neyðast til að draga úr þjónustu við heimilisfólk. Það er einfaldlega þyngra en tárum tekur. Og fyrir þá sem hafa áhuga því hvernig stjórnvöld fara með skattfé almennings, má minna á að dvöl einstaklings sem ekki er hægt að útskrifa af Landspítala vegna skorts á úrræðum kostar að minnsta kosti um 70.000 kr. á sólarhring. Landspítalinn rekur svo biðdeild á Vífilsstöðum þar sem ríkið greiðir sjálfu sér 52.000 kr. á sólarhring fyrir þjónustu og aðstæður sem eru mun lakari en þær sem fólki býðst á hjúkrunarheimilum. Fyrir sólarhring á hjúkrunarheimilum greiðir ríkið hins vegar 38.000 kr. samkvæmt þjónustusamningi við rekstraraðila.

„Skammist ykkar,“ segir formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og skyldi engan undra.

Óhreinu börnin

Þetta stríð ríkisstjórnarinnar við hjúkrunarheimili landsins á sér sögu. Þráðurinn birtist að einhverju leyti í heilbrigðisstefnu stjórnvalda sem samþykkt var vorið 2019. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, sem hafa flest hjúkrunarheimili landsins innan sinna raða, gagnrýndu samráðsleysi við gerð stefnunnar. Þeirri gagnrýni var svarað af hálfu stjórnvalda á þann hátt að það kæmi að þeim síðar. Hvenær? Hvenær kemur að hjúkrunarheimilunum? Hvenær kemur að öldrunarmálunum? Af hverju er ekki leitað til Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu um ráð og hugmyndir að lausnum varðandi öldrunarmál, t.d. samspil hjúkrunarheimila, heimaþjónustu og sjúkrahúsþjónustu?

Þessi fjölmörgu félög, stofnanir og fyrirtæki innan Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu eiga það sameiginlegt að vera ekki ríkisrekin, heldur starfa samkvæmt þjónustusamningi við ríkið. Allt aðilar sem hafa um áratugaskeið verið mikilvægur hlekkur í íslenskri heilbrigðisþjónustu. En þetta eru hin óhreinu börn ríkisstjórnarinnar. Í einkarekstri.

Niðurstaða forstjóra Grundar í fyrrnefndum pistli að stjórnvöld séu með vilja að svelta öldrunarheimilin svo þau gefist upp og skili rekstrinum til ríkisins. Slíkt sé þegar farið að gerast. Grímulaus ríkisvæðing öldrunarþjónustunnar er lýsingin sem forstjórinn notar. Þar hittir hann naglann sennilega beint á höfuðið.

Gríman er fallin.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. október 2020