Kvótakerfið og Covid-kerfið

Benedikt Jóhannesson

Hún var athyglisverð yfirlýsing framkvæmdastjóra útgerðarinnar sem skipaði sjómönnum að hætta að væla og halda áfram að vinna, þó að þeir væru nær allir smitaðir af kórónuveirunni:

„Þetta er nýtt. Það þekkti enginn þetta COVID. Við vissum ekki hvað það var. Og þetta er eins og ég segi, fyrsta COVID-ið sem kemur í fyrirtækið hjá okkur. Við höfum blessunarlega verið laus við þetta og ekki þekkt þetta.“

Fréttir eru auðvitað lengi að berast í afskekktar byggðir. Útgerðarmenn hafa líka um annað þarfara að hugsa en flensuskömm frá Kína.

Upplýsingar um veiruna komu hraðar til samtaka sjávarútvegsfyrirtækja í Reykjavík. Þann 24. mars óskuðu þau eftir því við Alþingi að veiðigjald yrði lækkað eða fellt niður á sjávarútvegsfyrirtækin vegna ástandsins. Þau vísuðu til þess að nú gæti „hvenær sem er komið til þess að fiskvinnslur og útgerðarfyrirtæki þurfi að loka vegna starfsfólks í sóttkví“.

Á sama tíma báðu sömu samtök ríkið um að styrkja markaðsátak útgerðarinnar í útlöndum. Beiðnin er skiljanleg í ljósi þess að á undanförnum áratug hefur staða félagsmanna Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi aðeins batnað um tæplega 400 milljarða króna. Ofan á það bætast aðeins rúmlega 100 milljarðar í arðgreiðslur, þannig að ljóst er að ekki er að neinum sjóðum að ganga á þeim bæ.

Nei, sjóinn þarf að sækja meðan einhver stendur uppi, svo útgerðarmenn eigi til hnífs og silfurskeiðar.

Skömmu áður skrifaði fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðismanna, dr. Gunnar I. Birgisson, í málgagn útgerðarmanna:

„Kvótakerfið er vinsælt deiluefni meðal þjóðarinnar og sitt sýnist hverjum. Ég hef verið dyggur stuðningsmaður þessa kerfis og stutt með ráðum og dáð. Nú eru hins vegar farnar að renna á mig tvær grímur. Veiðiheimildum er úthlutað af ríkinu til útgerðanna til mjög langs tíma, á ríflega 10 krónur fyrir hvert þorskígildiskíló. …

En þá kemur að merg málsins, leiguverðið á þessum vægast sagt skrítna markaði er í kringum 200 krónur á hvert þorskígildiskíló. Ég tel að þetta hafi aldrei verið meiningin með kvótakerfinu. Tökum dæmi; útgerð sem aðallega er með uppsjávarkvóta og einnig botnfiskkvóta getur leigt botnfiskkvótann frá sér. Tvö þúsund þorskígildistonn gefa 400 milljónir í leigutekjur á ári, en greiðsla til ríkisins er 20 milljónir, þannig að nettó-ávinningurinn fyrir útgerðina er 380 milljónir króna. Það er því augljóslega hagkvæmara að leigja frá sér kvóta en veiða. Breyta þarf tilhögun kvótakerfisins til að skiptingin verði sanngjarnari fyrir ríkissjóð í slíkum tilfellum. Þetta er því miður í boði míns flokks, Sjálfstæðisflokksins.“

Ekki orða ég kjarna málsins betur.

En meðal annarra orða: Hvað ætli margir ráðherrar hafi hringt í sjómennina sýktu og spurt hvernig þeim líður?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. október 2020