Láttu sporin hræða

Áferð um landið í sumar heimsótti ég garðyrkjustöð á Norðurlandi sem framleiðir grænmeti. Aðspurður sagði bóndinn að hann gæti framleitt mun meira ef verð á rafmagni væri lægra og verslanir myndu bjóða honum meira pláss í hillum. Stuttu síðar fór ég í verslun sem er stutt frá garðyrkjustöðinni. Þar voru að vísu tómatar frá bóndanum en annað grænmeti þar hafði ferðast allt að 3.000 kílómetra. Nýleg könnun í Þýskalandi leiddi í ljós að um 85% neytenda vilja kaupa matvæli úr nærumhverfinu. Bent hefur verið á að kolefnisspor matvæla stækkar með lengri aðflutningum, en allt að 10% af kolefnisspori grænmetis kemur frá flutningi þess. Ég er fylgjandi valfrelsi neytenda og verkaskiptingu þjóða. En við þurfum að mínu mati að kunna betur að meta grænmeti úr næsta nágrenni okkar.

Nýlega kom fram að um 7,5 prósent af rafmagni sem er framleitt í landinu er ekki notað. Er ekki þjóðráð að lækka verð á rafmagni til grænmetisbænda til að minnka kolefnisspor þjóðarinnar sem er eitt það mesta í heiminum mælt á hvern íbúa landsins?

Einnig var í fréttum fjallað um kolefnisspor í farþegaflutningum. Þar kom fram að flugmiði frá París til London kostaði aðeins um 20 prósent af lestarmiða en væri með 20-falt kolefnisspor lestarferðarinnar. Að mínu mati er kolefniskostnaður vöru vanmetinn og ætti að taka hann með í ákvörðun okkar neytenda við innkaup, alveg eins og við skoðum bensíneyðslu bíla eða sykurmagn í matvælum.

Fyrir nokkrum árum tókst að bjarga ósonlaginu með alþjóðlegum aðgerðum.

Í dag þurfum við átak í að minnka kolefnissporið okkar. Látum því (kolefnis-) spor vörunnar hræða okkur!

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. október 2020