Mældu rétt!

Umræður um tolla, nauð­syn þeirra og áhrif er klass­ískt umræðu­efni og þrætu­epli í sam­skiptum þjóða og í umræðum um ein­stakar atvinnu­grein­ar, ekki síst í tengslum við land­búnað og sam­keppn­is­stöðu hans og jafnan er þá talað um toll­vernd í því sam­hengi.

Hér takast á hags­munir neyt­enda um það að vöru­verð sé lágt og vöru­úr­val gott ann­ars vegar og hins vegar hags­munir þeirra sem fram­leiða inn­lendar vör­ur. Alþjóð­leg þróun hefur lengi verið í þá átt að draga úr tollum og öðrum sam­skipta­hindr­un­um. Mín skoðun er ein­dregið sú að það sé rétt stefna. Sam­tímis verður að gæta þess að starfs­um­hverfi og umgjörð inn­lendrar fram­leiðslu sé með því móti að unnt sé að mæta erlendri sam­keppni. Um það held ég að flestir séu sam­mála, ekki síst þegar íslenskur land­bún­aður á í hlut. Rétta leiðin til þess er hins vegar ekki sú að slá um hann skjald­borg með inn­flutn­ings­hindr­unum og tollum sem leiða til hækk­aðs verðs til neyt­enda og minna vöru­úr­vals. Aðrar leiðir eru skyn­sam­legri en þá þarf að hafa hug­rekki til þess til þess að styðja og styrkja bænd­ur, með öðrum hætti en nú er gert, til að sinna þeim búskap, nýsköpun og land­nýt­ingu sem þeir kjósa sjálf­ir.

Það breytir ekki því að Ísland á aðild að marg­vís­legum alþjóð­legum samn­ingum um við­skipti, þar á meðal um tolla í við­skipt­um. Þá samn­inga eins og aðra á að virða að fullu og fram­fylgja eftir efni þeirra án und­an­bragða. Það eru þjóð­rétt­ar­legar skyldur samn­ings­að­ila sem við­kom­andi ríki verða að gæta fyrir sitt leyti. Inn- og útflytj­endur verða að fara að settum reglum og yfir­völd að stað­reyna að það sé gert.

Í fjöl­miðlum hefur und­an­farið verið fjallað nokkuð um tolla­samn­ing Íslands og ESB um land­bún­að­ar­vör­ur. Þar hefur komið fram að sterkur grunur er um að farið sé á svig við þær reglur sem gilda með þeim afleið­ingum að meira er flutt inn af land­bún­að­ar­af­urðum með lægri tollum en samið var um og það valdið íslenskum land­bún­aði búsifj­um.

For­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins hefur lýst þeirri skoðun sinni á opin­berum vett­vangi að rétt við­bragð við þess­ari stöðu sé að segja upp tolla­samn­ingnum við Evr­ópu­sam­band­ið. Í umræðu um málið vilja sumir stilla mál­inu þannig upp að Evr­ópu­sam­bandið sé að svindla á Íslandi. Það er auð­vitað fjarri öllu lagi. Ef farið er á svig við regl­urnar með rangri toll­flokk­un, t.d. að hreint kjöt sé flokkað sem kjöt á beini, þá er við inn­flytj­and­ann að sakast sem ber ábyrgð á réttri toll­flokk­un. Svo má í fram­hald­inu spyrja sig að því hvort eft­ir­lit íslenskra yfir­valda sé ábóta­vant með þessum inn­flutn­ingi.

Þetta er því íslenskt vanda­mál sem verður leyst á inn­lendum vett­vangi. Það er frá­leitt að nota það sem skálka­skjól til þess að segja upp tolla­samn­ingnum við Evr­ópu­sam­band­ið.

Höf­undur er þing­maður Við­reisn­ar.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 17. október