Trygg­ing stöðug­leika í gjald­eyr­is­mál­um yrði stórt fram­fara­skref sem mundi hafa víðtæk áhrif.

— Málamiðlun í gjaldeyrismálum – Daði Már Kristófersson og Stefán Már Stefánsson

Málamiðlun í gjaldeyrismálum

Ný­verið kynnti Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra frum­varp til fjár­laga árs­ins 2021 og fjár­mála­áætl­un til ár­anna 2021-2025. Í kynn­ing­unni fjallaði Bjarni um áætl­un stjórn­valda um út­gjalda­aukn­ingu til þess að mæta því mikla áfalli sem hag­kerfið hef­ur orðið fyr­ir. Jafn­framt ræddi Bjarni um mik­il­vægi þess að jafn­vægi yrði aft­ur skapað í tekj­um og út­gjöld­um hins op­in­bera. Í áætl­un­inni eru kynnt­ar hug­mynd­ir um hvernig því mark­miði verði náð. Bjarni benti einnig á að af­leiðing­ar þess að ná jafn­vægi í rekstri rík­is­sjóðs væru mjög háðar hagþróun kom­andi ára. Því meiri hag­vöxt­ur sem verður í kjöl­far þess að nú­ver­andi sam­drætti lýk­ur því minna sárs­auka­full­ar verða aðgerðir til að ná jafn­vægi að nýju. Taka verður und­ir þessi orð Bjarna.

Til hvaða aðgerða gætu stjórn­völd gripið til þess að styðja við hag­vöxt þegar sam­drátt­ar­skeiðinu lýk­ur? Mikið hef­ur verið ritað um for­send­ur hag­vaxt­ar. Frum­for­senda er fram­leiðniaukn­ing. Fram­leiðni má auka með fjár­fest­ingu í tækni, mennt­un og innviðum og hvöt­um til ný­sköp­un­ar. Ábyrg hag­stjórn og stöðug­leiki skipta einnig miklu máli.

Rík­is­stjórn­in hef­ur lagt áherslu á fjár­fest­ingu í innviðum og mennt­un í nú­ver­andi sam­drætti. Það er vel. Hag­stjórn á Íslandi und­an­far­inn ára­tug hef­ur verið ábyrg. Fjár­mála­áætl­un ger­ir ráð fyr­ir að áfram­hald verði á því.

Krón­an er ennþá vanda­mál

Þrátt fyr­ir ábyrga hag­stjórn búa Íslend­ing­ar við óstöðug­leika á einu sviði. Krón­an er ennþá óstöðug sam­an­borið við gjald­miðla ná­granna­land­anna. Nær­tæk­ast er að benda á veru­lega lækk­un henn­ar á þessu ári þrátt fyr­ir mjög stór­an gjald­eyr­is­vara­forða og tak­mark­an­ir á er­lenda fjár­fest­ingu líf­eyr­is­sjóða. Fyr­ir lítið opið hag­kerfi, sem er eins háð milli­ríkjaviðskipt­um og Ísland, eru slík­ar sveifl­ur dýr­keypt­ar.

Geng­is­sveifl­ur leiða til óvissu og ófyr­ir­séðra sveiflna í tekj­um og kostnaði. Þær gera áætlana­gerð erfiða og tor­velda sam­keppn­is­stöðu út­flutn­ings­at­vinnu­vega. Þær leiða til verðlags­sveiflna og ýta und­ir verðbólgu. Óviss­an, sveifl­urn­ar og smæð mynt­ar­inn­ar leiða til viðvar­andi hærra vaxta­stigs, sem eyk­ur kostnað og fækk­ar arðbær­um fjár­fest­ing­um fyr­ir­tækja og ein­stak­linga, hækk­ar verðlag og skerðir hag heim­ila. Stöðugur gjald­miðill er því afar mik­il­væg­ur fyr­ir framtíðar­horf­ur í efna­hags­mál­um á Íslandi.

Val­kost­ir í gjald­eyr­is­mál­um

Mikið hef­ur verið rætt og ritað um fyr­ir­komu­lag gjald­eyr­is­mála á Íslandi. Ísland hef­ur reynt marg­ar leiðir til að ná mark­miðum stöðug­leika, án þess að það hafi tek­ist nema tíma­bundið. Í ágætri skýrslu Seðlabanka Íslands, Val­kost­ir Íslands í gjald­miðils- og geng­is­mál­um, frá 2012 er farið yfir þá val­kosti sem standa Íslandi til boða í gjald­eyr­is­mál­um. Niðurstaða henn­ar er að all­ar leiðir hafi sína kosti og galla.

Í fyrr­nefndri skýrslu Seðlabank­ans er fjallað um mögu­leik­ana á upp­töku evru. Tvær leiðir eru þar nefnd­ar, ein­hliða upp­taka og þátt­taka í myntsam­starfi Evr­ópu­sam­bands­ins, ERM II. Ein­hliða upp­töku fylgja veru­leg­ir gall­ar sem rakt­ir eru í skýrsl­unni og gera þann kost ófýsi­leg­an. Þátt­taka í ERM II mundi krefjast inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið, sem er stórt og um­deilt mál. Þar með virðist upp­taka evru fjar­læg­ari kost­ur.

Til­laga að mála­miðlun

En bíðum við. Það er til önn­ur leið, sem ít­rekað hef­ur verið bent á, m.a. í eft­ir­far­andi grein­um eft­ir Guðmund Magnús­son og Stefán Má Stef­áns­son: Aukaaðild Íslands að Mynt­banda­lagi Evr­ópu? (Morg­un­blaðið, 7. októ­ber 2001), greinaröðin Einmana króna (Vís­bend­ing, 2007) og EES og krón­an (Morg­un­blaðið 23. mars 2008). Þar er bent á að þrátt fyr­ir að þátt­taka í ERM II krefj­ist aðild­ar að Evr­ópu­sam­band­inu sé ekk­ert því til fyr­ir­stöðu að Ísland geri tví­hliða samn­ing við Evr­ópu­sam­bandið um sam­starf í gjald­eyr­is­mál­um í tengsl­um við samn­ing­inn um Evr­ópska efna­hags­svæðið. Í fyrr­nefnd­um grein­um er bent á að ekk­ert í lög­um Evr­ópu­sam­band­is banni slíkt sam­starf. Bent er á að fyr­ir­mynd mætti sækja í fyr­ir­renn­ara ERM II, Pen­inga­kerf­is Evr­ópu (e. Europe­an Mo­net­ary System, EMS), og Evr­ópska geng­is­sam­starfs­ins (e. Europe­an Exchange Rate Mechan­ism, ERM). Sam­starf þetta hófst árið 1979 og lauk þegar ERM II tók yfir hlut­verk þess. Því var ætlað að tryggja inn­byrðis stöðug­leika á gjald­miðlum Evr­ópuþjóðanna.

Tví­hliða samn­ing­ur við Evr­ópu­sam­bandið gæti orðið grunn­ur að fyr­ir­komu­lagi sem væri hliðstætt gjald­eyr­is­fyr­ir­komu­lagi Dana. Í slíku fyr­ir­komu­lagi væri krón­unni ein­ung­is leyft að sveifl­ast á mjög þröngu bili gagn­vart evru og yrði gengið sam­eig­in­lega varið af Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evr­ópu. Ísland mundi vænt­an­lega þurfa að und­ir­gang­ast kröf­ur um ábyrga hag­stjórn, en það hafa ís­lensk stjórn­völd þegar gert með lög­um um op­in­ber fjár­mál. Á móti væri geng­is­sveifl­um gagn­vart okk­ar stærsta viðskipta­svæði var­an­lega eytt.

Er mála­miðlun raun­hæf?

Er slík­ur samn­ing­ur póli­tískt raun­hæf­ur? Fyr­ir­fram er ekk­ert því til fyr­ir­stöðu að láta á það reyna. Bent skal á að öll rök sem studdu gerð EES-samn­ings­ins sem og ERM á sín­um tíma mundu einnig styðja þetta skref. Hvoru tveggja var ætlað að auðvelda viðskipti inn­an Evr­ópu. Mark­mið EES-samn­ings­ins er einkum að tryggja fjór­frelsi og eðli­lega sam­keppni inn­an Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins. Aðilar samn­ings­ins ættu því að styðja heils­hug­ar skref sem styrkja samn­ing­inn og auka virkni hans. Við blas­ir að stöðugt gengi krón­unn­ar gagn­vart evru auðveld­ar gríðarlega að mark­mið samn­ings­ins ná­ist.

Trú­verðug­leiki Íslands sem viðsemj­anda hef­ur aldrei verið meiri. Hag­stjórn á Íslandi hef­ur verið mun betri en margra aðild­ar­ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins und­an­far­inn ára­tug. Hinn gríðarlegi gjald­eyr­is­vara­forði Íslands mundi einnig auka mjög trú­verðug­leika Íslands í samn­ingaviðræðunum og styrkja fyr­ir­komu­lagið, yrði það tekið upp.

Til mik­ils að vinna

Trygg­ing stöðug­leika í gjald­eyr­is­mál­um yrði stórt fram­fara­skref sem mundi hafa víðtæk áhrif. Það mundi styrkja sam­keppn­is­stöðu ís­lenskra út­flutn­ings­fyr­ir­tækja. Það mundi opna landið fyr­ir er­lendri fjár­fest­ingu. Það mundi lækka vexti. Það mundi auðvelda sam­keppni á mörkuðum þar sem sam­keppni er nú erfið, s.s. um bankaþjón­ustu og trygg­ing­ar. Það mundi auðvelda fjár­fest­um, t.d. líf­eyr­is­sjóðum, að dreifa áhættu sinni án þess að taka um leið gjald­eyr­isáhættu. Síðast en ekki síst mundi það bæta hag al­mennra Íslend­inga með minni verðbólgu, auk­inni sam­keppni um fram­boð á vöru og þjón­ustu og lægri vöxt­um.

Full ástæða er til þess að ís­lensk stjórn­völd kanni hvort raun­hæft sé að gera slík­an samn­ing. Til mik­ils er að vinna.

Eftir Daða Má Kristófersson og Stefán Má Stefánsson

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2020