Til varnar málamiðlun í gjaldeyrismálum

Jóhann Páll Jóhanns­son birti grein í Kjarn­anum undir titl­inum „Ósann­fær­andi mála­miðl­un­ar­til­laga”. Í grein­inni gagn­rýnir Jóhann til­lögu okkar Stef­áns Más Stef­áns­sonar um fram­tíð­ar­fyr­ir­komu­lag gjald­eyr­is­mála á Íslandi. Hér er farið yfir athuga­semdir Jóhanns.

Því ber mjög að fagna að mál­efna­leg umræða eigi sér stað um gjald­eyr­is­mál Íslands. Um mjög stórt hags­muna­mál er að ræða fyrir þjóð­ina. Ég fagna því grein Jóhanns. Í grein­inni setur Jóhann fram efa­semdir um til­lög­una. Er þeim svarað hér:

„Krónan er nauð­syn­leg“

Jóhann setur fram þá skoðun sveigj­an­leiki gengis sé mik­il­vægur og að teng­ing við evru henti íslensku efna­hags­lífi illa. Færa má rök fyrir því að sveigj­an­legt gengi geti betur end­ur­speglað sam­keppn­is­stöðu hag­kerf­is­ins á hverjum tíma og sér­tæk skil­yrði í hag­kerf­inu. Þessi skil­yrði séu síbreyti­leg gagn­vart okkar helstu við­skipta­lönd­um, s.s. evru ríkj­un­um. Þetta rök­styðji sjálfsæða mynt.

Ef sveigj­an­leiki er svona mik­il­vægur hvers vegna völdu evr­ópu­þjóð­irnar að taka upp sam­eig­in­lega mynt? Staða hag­kerfa ein­stakra landa og lands­svæða innan evru­svæð­is­ins getur vikið veru­lega frá stöðu svæð­is­ins í heild. Væri þá ekki nær að hafa mun fleiri gjald­miðla, fyrir hvert land og jafn­vel land­svæði eða borgir? Þessu virð­ist heim­ur­inn hafa hafn­að. Skýr­ingin er sú að þó sveigj­an­leiki hafi kosti hefur hann líka kostn­að­ar­sama galla. Þeir eru hærri við­skipta­kostn­að­ur, óvissa um geng­is­þróun og minni virk sam­keppn­i.

Um þetta hefur mikið verið fjallað í hag­fræði m.a. kenn­ingar Mundells um hag­kvæm mynt­svæði (sjá t.d. skýrslu Seðla­banka Íslands, Val­kostir Íslands í gjald­mið­ils- og geng­is­mál­u­m). Sam­kvæmt kenn­ingu Mundells eru fær­an­legir fram­leiðslu­þættir skil­yrði þess að hag­kvæmt sé að tvö svæði til­heyri sama mynt­svæði. Til við­bótar styður umfang við­skipta milli svæð­anna og sam­leitni hag­sveiflna slíkt fyr­ir­komu­lag.

Með þátt­töku Íslands í evr­ópska efna­hags­svæð­inu hefur Ísland einmitt stuðlað að slíkum fær­an­leika fram­leiðslu­þátta. Íslenska hag­kerfið er mjög opið, þ.e. umfang utan­rík­is­við­skipta er mjög mikið og stærsta við­skipta­blokkin er evru­svæð­ið. Sam­an­tekið mat Seðla­bank­ans í fyrr­nefndri skýrslu var að OAE (Optimal Cur­rency Area) vísi­tala Ísland gagn­vart evru­svæð­inu væri svipur vísi­tölu Spánar og Ítalíu og betri en Írlands.

Fjölmörg lítil ríki eru til í heim­inum og fjöl­margar litlar mynnt­ir. Af þeim um 70 ríkjum sem hafa færri en milljón íbúa eru ein­ungis tvö með fljót­andi gjald­mið­il, Seychelles-eyjar og Ísland. Hin skipt­ast í mis­mun­andi fyr­ir­komu­lag geng­isteng­ingar við stærri mynnt­ir. Rúmur þriðj­ungur notar gjald­miðil ann­ars rík­is, tæpur helm­ingur tengir gjald­mið­il­inn beint við stærri mynnt og restin tengir gengi við mynt­körfu. Þessi ríki hafa sem­sagt valið að afsala sér sveigj­an­leika í gjald­eyr­is­málum – vænt­an­lega vegna þess að ábat­inn af því er meiri en kostn­að­ur­inn.

„Ekki er hægt að tryggja var­an­leika gjald­eyr­is­sam­starfs“

Jóhann telur að ekki sé hægt að tryggja var­an­leika sam­starfs við Evr­ópu­sam­bandið í gjald­eyr­is­mál­um. Hann nefnir þessu til stuðn­ings dæmi um sam­starfs sem hefur brost­ið. Þetta er þörf ábend­ing hjá Jóhanni. Engin mann­anna verk eru í eðlinu var­an­leg. Tvennt skal þó nefnt í þessu sam­hengi. Frumástæða þess að slíkt sam­starf getur brostið eru meiri­háttar atburð­ir, eins og sam­ein­ing þýsku ríkj­anna reynd­ist fyrir ERM fyr­ir­komu­lag­ið, eða að for­sendur sam­starfs­ins hafi verið byggðar á of veikum grunni. Ljóst er að hvorki ég né nokkur annar getur lofað því að nokk­urt fyr­ir­komu­lag verði alveg var­an­legt. Verði alvar­legur brestur á for­sendum gæti það leitt til þess að aðilar slíti sam­starf­inu. Auð­vitað er mögu­legt að slík skil­yrði gætu komið upp. Það hefur þó ekki gerst enn í sam­starfi Dana við Evr­ópu­sam­bandið í gjald­eyr­is­mál­um. Bent skal á að skil­yrði Íslands til að tryggja stöð­ug­leika í sam­starfi í gjald­eyr­ismálum með þann veru­lega gjald­eyr­is­vara­forða sem Ísland á eru mög góð.

„Veru­leg aðhalds­krafa yrði á íslenskum stjórn­völd­um“

Jóhann bendir einnig á að sam­starfi gæti fylgt krafa um harð­ari aðhald í fjár­málum hins opin­bera. Það er mögu­legt. Ólík­legt er hins vegar að sú krafa yrði mikið harð­ari en Evr­ópu­sam­bandið beitir evru­lönd­in, sem öll hafa fengið svig­rúm til mót­væg­is­að­gerða sem eru hlið­stæð því sem Íslensk stjórn­völd hafa sett fram í fjár­mála­á­ætl­un, að teknu til­liti til góðrar skulda­stöðu Íslands.

Ábend­ing um annan ágalla

Jóhann nefnir hins vegar ekki þann ágalla sem ég per­sónu­lega hef mestar áhyggjur af. Fast gengi gagn­vart evru mundi setja mjög stífan ramma fyrir kjara­samn­inga sem aðilar vinnu­mark­að­ar­ins yrðu að virða. Ef farið yrði í að skoða betur til­lögu okkar Stef­áns Más yrði einnig að end­ur­vekja vinnu um sam­hæfða aðferða­fræði og ramma fyrir kjara­við­ræður því ekki yrði lengur mögu­legt að leið­rétta mis­tök á þeim vet­vangi með því að leyfa krón­unni að gefa eftir og leið­rétta raun­laun. Afleið­ingar mis­taka í kjara­samn­ings­gerð í fram­tíð­inni mundu því leiða til atvinnu­leys­is. Slíkt þarf að forð­ast. Á hinn bóg­inn má færa rök fyrir því að slíkar end­ur­bætur á aðferða­fræði við gerð kjara­samn­inga séu bæði tíma­bærar og nauð­syn­leg­ar.

Höf­undur er vara­for­maður Við­reisn­ar.

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum 22. október 2020