Við og þið

Það er manninum tamt að hugsa í tvenndum. Við eða þið, hitt eða þetta, svart eða hvítt, heitt eða kalt. Opinber umræða á að sama skapi til með að litast af tvíhyggju. Þar sem til eru tvær „réttar“ skoðanir og það er svo einstaklingsins að ákveða hvorum megin hann fellur.

Það er skiljanlegt viðbragð manneskjunnar í flóknum heimi að smætta veruleikann í tvo valkosti. En heimurinn er ekki svona einfaldur. Þetta er ekki alltaf spurning um annaðhvort eða. Lykilorðið er: „og“. Ég get til dæmis leyft mér að fagna því innilega að Dýrafjarðargöngin hafi verið opnuð; mikilvæg innviðaframkvæmd sem mun umbylta samskiptum Vestfirðinga, styrkja ferðaþjónustu og á sama tíma kallað eftir því að Borgarlínan verði kláruð.

Að ég vilji blómlega landsbyggð og öf luga höfuðborg. Ábyrga efnahagsstjórn og á sama tíma kalla eftir sterku velferðarkerfi. Að ég vilji öf lugan landbúnað sem og sjávarútveg og að þeir grundvallaratvinnuvegir verði uppfærðir í átt að auknu gegnsæi, réttlæti, frjálslyndi. Að ég vilji nýja stjórnarskrá og að hún sé á grunni þeirrar gömlu. Að ég vilji inngöngu í Evrópusambandið og öf luga hagsmunagæslu fyrir land mitt og þjóð. Að ég vilji sterkt opinbert kerfi og öflugt einkaframtak.

Að ég vilji að öryrkjar og eldri borgarar njóti sómasamlegrar framfærslu og að við stöndum okkur vel í því að taka á móti f lóttamönnum og fólki af erlendum uppruna, sem hingað vill koma og vinna. Eitt þarf ekki að útiloka annað líkt og margir rótgrónir flokkar virðast stóla á. Við stöndum frammi fyrir tækifæri til að byggja upp samfélag á gömlum og nýjum gildum.

Fara skapandi leiðir, ótroðnar slóðir og bera virðingu fyrir því sem á undan er gengið. Að við þorum að hugsa öðruvísi og breyta umræðuhefðinni. Þar sem umhyggjan er af lið sem knýr okkur áfram. Að við náum að hífa okkur upp úr skotgröfunum og áttum okkur á því að samvinna og samheldni kemur okkur lengra. Því saman gerum við samfélagið betra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. október 2020