Bjargráð – ekki bólur

Síð­ast­liðna viku hafa borist afar jákvæðar fréttir sem varða fram­tíð­ar­horfur heims­ins. Tvö lyfja­fyr­ir­tæki, Pfizer og Moderna, hafa til­kynnt um árangur af þróun bólu­efna gegn kór­ónu­veirunni. Ísland hefur tryggt sér aðgang að báðum gegnum sam­starf við Evr­ópu­þjóð­ir. Ekki er hægt að und­ir­strika nægi­lega hve jákvæðar og mik­il­vægar þessar fréttir eru. Nú er í fyrsta skipti hægt að tímasetja hvenær yfir­stand­andi far­aldri líkur og lífið getur færst aftur í eðli­legt horf.

Íslensk stjórn­völd hafa getað gripið til umfangs­mik­illa mót­væg­is­að­gerða í skjóli sterkrar stöðu rík­is­sjóðs og umfangs­mik­ils gjald­eyr­is­vara­forða. Aðgerð­irnar hafa samt lit­ast af óvissu um hvort og hvenær bólu­efni fynd­ist. Aðgerð­irnar hafa verið fjölbreyttar og áætl­anir gert ráð fyrir að þær gætu staðið í nokkurn tíma. Nú þegar veru­lega hefur verið dregið úr þess­ari óvissu er mik­il­vægt að endur­meta þessar aðgerðir þannig að árangur þeirra verði sem mest­ur.

Fjár­mála­ráð hefur ítrekað bent á þá hættu sem getur fylgt stór­auknum umsvifum ríkisins. Séu slíkar aðgerðir til langs tíma er hætta á að þær nái yfir upp­gangs­tíma­bil í hag­kerf­inu og valdi þenslu. Fjár­mála­ráð hefur því lagt áherslu á að ríkið geri ráð fyrir reglu­legri end­ur­skoðun aðgerð­anna til að forð­ast það. Undir þetta verður að taka.

Hjarð­ó­næmi í okkar helstu við­skipta­löndum um og eftir mitt næsta ár mun opna að nýju fyrir þau við­skipti sem lok­uð­ust þegar far­ald­ur­inn skall á. Nær­tæk­ustu tæki­færin til að auka verðmætasköpun og skapa störf er að end­ur­vekja þau við­skipti. Því ætti að end­ur­skoða áætl­anir stjórn­valda með það að mark­miði að gera þessar atvinnugreinar í stakk búnar til þess að grípa aftur þau tæki­færi sem hurfu með faraldrinum.

Þrátt fyrir sam­drátt og mikla aukn­ingu í atvinnu­leysi hefur kaup­máttur hald­ist nokkuð stöð­ugur frá því far­ald­ur­inn hófst. Það þýðir að mörg fyr­ir­tæki og einstaklingar finna lítið fyrir nei­kvæðum efna­hags­legum afleið­ingum far­ald­urs­ins. Óþarfi er að grípa til aðgerða sem styðja þennan hóp. Almennar skatta­lækk­anir sem og innspýting fjár­magns inn í banka­kerfið eru dæmi um slíkar aðgerðir. Raunar virðist innspýting fjár­magns inn í banka­kerfið fyrst of fremst hafa leitt til upp­gangs og verð­hækk­ana á fast­eigna­mark­aði. Fjár­fest­ingar hins opin­bera sem ekki koma til framkvæmda fyrr en eftir mitt næsta ár eru einnig því marki brennd að skapa fremur hættu á þenslu en að leysa aðsteðj­andi vanda.

Sértækar aðgerð­ir, sem bein­ast að þeim fyr­ir­tækjum sem orðið hafa fyrir tjóni og þeim ein­stak­lingum sem misst hafa vinn­una eru lík­legri til að koma að gagni. Hlutabætur, tekju­teng­ing atvinnuleys­is­bóta, hækkun bóta, mennt­un­ar­úr­ræði og félagslegur stuðn­ingur við atvinnu­lausa eru dæmi um aðgerðir í þágu þeirra sem líklegar eru að draga úr nei­kvæðum áhrifum krepp­unn­ar. Gagn­vart sjálf­stætt starfandi ein­stak­lingum og fyr­ir­tækjum þarf að beita beinum stuðn­ingi. Nágrannalönd okk­ar, t.d. Dan­mörk og Þýska­land, hafa þegar hafið slíkar aðgerð­ir. Þeim er ætlað að viðhalda getu fyr­ir­tækja til að bregð­ast við þegar eft­ir­spurn eftir fram­leiðslu þeirra tekur aftur við sér upp úr miðju næsta ári. Vísir að þessu er þegar til stað­ar, t.d. gagnvart lista­mönn­um. Aðgerð af sam­bæri­legri stærð­argráðu gagn­vart ferða­þjón­ust­unni er lík­lega örugg­asta leiðin til þess að tryggja að kreppan verði stutt.

Þessar aðgerðir þarf að fjár­magna. Í því sam­hengi virð­ist aug­ljós­ast að stefnu Seðlabankans verði breytt þannig að hann auki áherslu á að kaupa skulda­bréf ríkis og sveit­ar­fé­laga til að auka rými þeirra til aðgerða, fremur en að fjár­magna upp­gang á fast­eigna­mark­aði. Slík útfærsla magn­bund­innar íhlut­unar mundi auð­velda ríki og sveit­ar­fé­lögum að grípa til nauð­syn­legra aðgerða, nú þegar enda­markið er í aug­sýn.

Höf­undur er vara­­for­­maður Við­reisn­­­ar

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum 18. nóvember 2020