Hvers vegna óskaði Viðreisn eftir umræðu um sótt­varnar­að­gerðir í þinginu?

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Ekkert mál er stærra sem stendur en heimsfaraldurinn. Þingflokkur Viðreisnar óskaði fyrir helgi eftir því að heilbrigðisráðherra gefi þinginu hálfsmánaðarlega skýrslu um sóttvarnaraðgerðir, forsendur þeirra og sviðsmyndir. Upp á þetta hefur vantað.

Í dag fór fram umræða þar sem heilbrigðisráðherra gaf þinginu skýrslu og þingmenn tóku í kjölfarið til orða. Þessi umræða var ekki bara gagnleg heldur nauðsynleg.

Stærstu verkefnin í kjölfar heimsfaraldursins eru þrjú. Að verja líf og heilbrigði þjóðar og að verja heilbrigðiskerfið. Við erum að horfa á dýpstu kreppu í hundrað ár. Þriðja verkefnið lýtur svo að líðan þjóðar. Afleiðingar þar er annarsvegar til skemmri tíma en um leið lengri. Öll eru þessi verkefni gríðarstór og aðgerðir til að verja þessa hagsmuni verða að ganga hönd í hönd. Upp á það hefur vantað.

Hvers vegna bað Viðreisn um þessa umræðu? Í ástandi sem þessu er það ekki aðeins réttur þings að eiga samtal við ráðherra hér í þingsal, um forsendur og sviðsmyndir. Það er skylda þingsins að rækja eftirlitshlutverk gagnvart stjórnvöldum. Þetta er grundvallatriði og þessi skylda er enn ríkari nú þegar ljóst er að erfitt ástand er langvarandi.

Felst í því einhver afstaða okkar flokks til tiltekinna sóttvarnaraðgerða? Að við teljum þær of harðar eða mildar? Nei, samtalið snýst ekki um það, heldur um upplýsingar og forsendur. Skoðanir um sóttvarnir eru skiptar innan þings eins og annars staðar, eins og raunar kristallaðist í umræðu inni í þingsal áðan.

Umræða hefur mikið snúist um samspil sóttvarnarlæknis og heilbrigðisráðherra. Lagaleg og pólitísk álitaefni eru fleiri en sóttvarnarlög, heimildir og valdmörk þar. Önnur grundvallarspurning er um samspil þings og ráðherra. Og það er ástæða þess að Viðreisn lagði fram þessa ósk. Þegar þessi kafli sögunnar verður rýndur af sagnfræðingum má það ekki verða niðurstaðan að þingið hafi verið vængstýft í umræðunni, heldur að þingið hafi sinnt grundvallarhlutverki sínu og fengið forsendur til þess að geta gert það. Það er því mikilvægt að ráðherra hafi tekið vel í þessa ósk Viðreisnar.

Forsenda þess að Alþingi geti sinnt skyldu sinni um eftirlit er upplýsingagjöf. Ég held því ekki fram að engin umræða hafi átt sér stað en við vitum þó að það hefur fyrst og fremst verið um efnahagsaðgerðir. Það hefur vantað að þingið hafi fengið upplýsingar um forsendur og sviðsmyndir að baki sóttvarnaraðgerðum, en slíkar forsendur hafa áhrif á efnahagsaðgerðirnar.

Kraftmiklum sóttvarnaraðgerðum verða að fylgja kraftmiklar efnahagsaðgerðir. Þær verða að vera jafnar að þunga og kynntar til leiks samhliða. Þegar bið eftir efnahagsaðgerðum er löng, eins og verið hefur, þá framkallar það þreytu og jafnvel vonleysi. Löng bið eftir efnahagsaðgerðum er líka til þess fallin að draga úr skilningi og stuðningi við sóttvarnaraðgerðir. Viðreisn beindi því til heilbrigðisráðherra í dag að hún myndi fyrir hönd stjórnarinnar bregðast við þessum athugasemdum. Það getur ekki gengið til lengri tíma að efnahagsaðgerðir dragist né að þær séu ekki í samræmi við þunga sóttvarnaraðgerða.

Greinin birtist fyrst á Vísi 5. nóvember 2020