Stjórnarskrá Samherja eða þjóðarinnar?

Benedikt Jóhannesson

Ranglætið blasir við. Örfáum vildarvinum er veittur aðgangur að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar gegn málamyndagjaldi og öðrum haldið frá. Forréttindin haldast innan lokaðs klúbbs og erfast.

Þann 11. október 2017 sagði okkar ágæti verðandi forsætisráðherra í Forystusætinu á RÚV: „Ég tel bara að þessi [veiði]gjöld hafi verið lækkuð alltof skarpt og ég held að þau geti skilað sér betur án þess að það ógni hagsmunum útgerðarinnar í landinu. Ég meina, horfum bara á þær arðgreiðslur sem hafa verið að fara út úr stórum útgerðarfyrirtækjum á undanförnum árum upp á hundruð milljóna. Finnst okkur þetta eðlilegt? Ég held að það sé hægt að hækka þau með sanngjörnum hætti án þess að það bitni á útgerðinni í landinu.“

Ekkert lát varð á arðgreiðslum hjá útgerðinni eftir kosningarnar 2017, þær eru enn á annan tug milljarða eins og öll ár frá 2013. Samt voru veiðigjöld lækkuð undir forystu VG árið 2018. Forsætisráðherrann sagði þá: „[Þ]að er eðlilegt að afkomutengja gjöldin“.

Orð forsætisráðherrans sýna grundvallarmisskilning á veiðigjöldum. Þau eiga ekki að vera skattar sem byggja á afkomu heldur aðgöngumiði að auðlindinni. Allir skulu vera jafnir að lögum og mega kaupa slíkan miða, ekki bara vinir sérréttindaflokkanna. Höldum úthlutun og verði frá borði stjórnmálamanna og nýtum kosti markaðsins. Þá meta útgerðirnar sjálfar hve mikið þær treysta sér til að borga. Þær sem bjóða best fá veiðiréttinn – rétt eins og á hlutabréfamarkaði.

Margir vonuðust til að ákvæði í stjórnarskrá gæti bundið hendur stjórnmálamanna og hnekkt óréttlætinu. Réttsýnn forsætisráðherra tæki af skarið. Stefnuræða Katrínar vakti líka vonir: „Ég vona sannarlega að þingið standist þetta próf og taki hina efnislegu umræðu um málið. Ég vil ekki að þetta mál festist í hjólförum liðinna ára og áratuga. Við höfum nú tækifæri til að horfa til framtíðar og taka góðar ákvarðanir fyrir komandi kynslóðir.“

En niðurstaðan er orðagjálfur, tillaga þar sem hvorki er talað um tímabundin afnot né eðlilegt gjald. Ráðherrann er fastur í hjólförunum og ríkisstjórnin fellur á prófinu. Engu á að breyta efnislega. Útgerðin verður hæstánægð með óbreytt ástand, svo ánægð að tillagan gæti heitið Samherjaákvæði stjórnarskrárinnar.

Alltaf þegar stjórnmálamenn úthluta takmörkuðum gæðum býður það spillingu heim. Því er ekkert réttlátt kerfi til þess að verðleggja kvótann nema markaðsleið.

Stefna Viðreisnar er einföld:

„Náttúruauðlindir eru sameign þjóðarinnar og þær ber að nýta á sjálfbæran og skynsamlegan hátt. Greiða skal markaðsverð fyrir aðgang að þeim.“

Aðalskerfið var víðast lagt af á 19. öld. Engum nema sérhagsmunaflokkunum fjórum á Alþingi dettur í hug að búa til og festa í sessi nýtt kerfi útgerðaraðals á 21. öldinni.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. nóvember 2020