Vinnum meira saman

Í síðustu viku fréttum við af mikilvægi alþjóðasamstarfs í baráttunni við COVID-veiruna.BioNtech og Pfizer hafa með samstarfi náð að þróa bóluefni gegn veirunni en BioNtech er afrakstur samstarfs þýsku hjónanna Ugur Sahin og Özlem Tureci við austurrískan krabbameinslækni að nafni Christoph Huber.

Þegar að er gáð eru flest framfaramál heimsins komin til vegna samstarfs milli þjóða. Öflugt alþjóðasamstarf er nú um að stöðva aukningu gróðurhúsalofttegunda þar sem flest lönd og bandalög ríkja stefna á að verða kolefnishlutlaus á næstu 30 árum. Þá er alþjóðasamstarf sérstaklega mikilvægt litlum þjóðum eins og okkar Íslandi. Loftmengun fer kringum heiminn á sex dögum og geislavirk mengun í sjónum kringum Ísland gæti eyðilagt öll okkar fiskimið.

Við Íslendingar getum lært um kosti samstarfs af frændum okkar á Norðurlöndum. Þar er algengt að minnihlutaflokkar stýri landinu í samstarfi við aðra flokka. Samstarf launþega og atvinnurekenda er öflugra en hér eins og SA hefur bent á, en launahækkanir þar skila sér betur í varanlegum kaupmætti.

Hér á landi er víða unnið í samstarfi. Á Akureyri er bæjarstjórn allra flokka í samstarfi. Á höfuðborgarsvæðinu er víðtækt samstarf um samgöngur og sorpmál. Fyrirtæki og sveitarfélög á Suðurnesjum eru í öflugu samstarfi um innleiðingu hringrásarhagkerfis og samstarf háskólanna á Íslandi við stofnanir Evrópusambandsins hefur skilað milljarða króna rannsóknastyrkjum á síðustu árum.

Í síðustu viku kom svo frétt um að við Íslendingar munum fá BioNtech-Pfizer bóluefnið á grundvelli samstarfs ESB við Pfizer. Þetta er mögulegt vegna aukaaðildar Íslands að ESB, sem sýnir enn betur kosti alþjóðasamstarfs hjá lítilli þjóð.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. nóvember 2020