Bak­slag í jafn­réttis­málum?

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Ís­land trónir efst á lista Al­þjóða­efna­hags­ráðsins, World Economic Forum, um kynja­jafn­rétti. Sá góði árangur sem Ís­land státar af náðist ekki bara með tímanum. Við eigum fram­sækin fæðingar­or­lofs­lög, lög um jafn­launa­vottun sem og lög um kynja­kvóta í stjórnum. Við erum með­vituð um þýðingu þess að dag­vistun sé að­gengi­leg. Í þessu ljósi ættum við að sjá frum­varp um fæðingar­or­lof sem lengir fæðingar­or­lof for­eldra og tryggir báðum for­eldrum sjálf­stæðan rétt til or­lofs, í þeim til­vikum þar sem tveir for­eldrar eru til staðar.

Öll Norður­löndin hafa fært for­eldrum 12 mánaða fæðingar­or­lof og þessi breyting er þess vegna tíma­bær. Ís­land hefur rekið lestina. Það skiptir sömu­leiðis máli að tekju­há­mark verði hækkað svo for­eldrar verði ekki fyrir miklu tekju­falli við töku fæðingar­or­lofs. Vita­skuld er í þágu barna að for­eldrar þurfi ekki að láta hluta fæðingar­or­lofs niður falla. For­senda fæðingar­or­lofs­laganna er að réttur til launa í fæðingar­or­lofi sé ein­stak­lings­bundinn og nálgunin er að barn, sem á tvo for­eldra, eigi rétt til sam­vista við þá báða á fyrstu mánuðum lífsins. Jafn réttur tryggir hags­muni barns sem og for­eldra.

Þá er grund­vallar­at­riði fyrir jafn­rétti á vinnu­markaði að gert sé ráð fyrir að mæður jafnt sem feður hverfi um tíma af vinnu­markaði vegna fæðingar­or­lofs. Nú eru 20 ár frá því að gildandi lög um fæðingar- og for­eldra­or­lof voru sett. Með þeirri laga­setningu var feðrum í fyrsta sinn tryggður sjálf­stæður réttur til fæðingar­or­lofs. Lögin voru þýðingar­mikil réttar­bót fyrir karl­menn og fólu í sér viður­kenningu á hlut­verki þeirra.

Þegar fæðingar­or­lofs­lögin voru sett var litið til Ís­lands fyrir fram­sækna jafn­réttis­lög­gjöf. Verði sjálf­stæður réttur hvors for­eldris að­eins 4 mánuðir eins og virðist stefna í en af­gangur fram­seljan­legur er það til þess fallið að stuðla að bak­slagi í jafn­réttis­málum, fram­kalla þau nei­kvæðu á­hrif að karlar taki styttra fæðingar­or­lof, veikja hlut kvenna á at­vinnu­markaði og skerða rétt barna til sam­vista við báða for­eldra á fyrstu mánuðum ævinnar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. desember 2020