Flytjum störf en ekki stofnanir út á land

Það er of algengt að ráðherrar taki það upp hjá sjálfum sér að flytja heilu stofnanirnar í kjördæmin sín með öllu því raski sem því fylgir á starfseminni. Niðurstaðan er oft sú að mikilvæg þekking, reynsla og mannauður tapast með þeim afleiðingum að mörg ár getur tekið að gera brottfluttar stofnanir öflugar og skilvirkar á ný.

Við erum fámenn þjóð og mikilvægt að stofnanir okkar séu eins sterkar og öflugar eins og frekast er kostur. Það að lama þær til lengri eða skemmri tíma með þessum hætti er óboðlegt. Aftur á móti er mikilvægt að fjölga markvisst atvinnutækifærum úti á landsbyggðinni. Lífsgæði þar eru mikil og mikilvægt að stuðla að sem fjölbreyttustu atvinnulífi sem víðast. Því þarf ríkisvaldið að móta sér stefnu varðandi rekstur stofnana með það að markmiði að færa einstök störf stofnanna þangað sem hæft starfsfólk býr.

Kófið hefur sýnt okkur fram á að hægt er að sinna margvíslegum sérfræðistörfum hvar sem er, við erum ekki bundinn skrifstofunni átthagafjötrum. Stórfyrirtæki víða um heim hafa áttað sig á þessum nýja veruleika starfa án staðsetningar og farin að nýta sér með góðum árangri. Það eru tækifæri í því að nýta húsnæði úti á landi fyrir sérfræðinga stofnana á Höfuðborgarsvæðinu. Nýlegt dæmi frá Flateyri sýnir okkur að möguleikar okkar til að glæða fámennari byggðarlög lífi felast í því að leyfa fólki að velja sér búsetu og færa störfin til þeirra. Gamla símstöðin er að öðlast nýtt líf þar sem nýsköpun og frumkvöðlakraftur fær að ríkja. Ríkið getur vel komið inn í slík verkefni með því að setja sér markmið um að ákveðið hlutfall sérfræðistarfa færist á staði eins og Flateyri. Þannig náum við að viðhalda og efla stofnanir okkar og efla og tengja betur byggðina um allt land.

Leggjum af þá óværu að flytja heilu stofnanirnar í heilu lagi með öllu því raski sem því fylgir. Þessi, „allt eða ekkert“, hugsunarháttur er óþarfur ósiður. Verum heldur markviss í aðgerðum okkar öllum til heilla.

Höfundur er bæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði.

Greinin birtist fyrst á Vísi 16. desember 2020