Liðleskjur lýðræðisins

Benedikt Jóhannesson

Lík­lega hef ég verið óvenju­leg­ur ung­ling­ur. Á þeim árum skipuðu flest­ir sér í skoðana­fylk­ing­ar og fylgdu svo sínu liði gegn­um þykkt og þunnt. Fyr­ir tví­tugt hafði ég aft­ur á móti mót­mælt við sendi­ráð þriggja ríkja, Sov­ét­ríkj­anna, Banda­ríkj­anna og Bret­lands.
Sov­ét­rík­in drottnuðu yfir Aust­ur-Evr­ópu og heftu skoðana­frelsi, mál­frelsi og önn­ur mann­rétt­indi. Á Vest­ur­lönd­um báru stjórn­völd virðingu fyr­ir rétti ein­stak­ling­anna sem höfðu frelsi til orða og at­hafna. Meira frelsi fylgdu betri lífs­kjör. Valið var auðvelt um hvar maður skipaði sér í sveit. Þegar Sov­ét­rík­in réðust inn í Tékkó­slóvakíu ásamt lepp­ríkj­um sín­um tók ég, fjór­tán ára gam­all, þátt í mót­mæl­um gegn of­beld­inu.

En ekki var allt með felldu í Para­dís. Banda­ríkja­menn voru í blóðugu stríði í Indókína og sendu hundruð þúsunda ungra manna til þess að berj­ast við komm­ún­ista í Víet­nam. Ég hélt að Banda­ríkja­menn hlytu að vera „góðu gæj­arn­ir“. Svo kom í ljós að banda­menn þeirra í Saigon voru ger­spillt­ir eig­in­hags­muna­segg­ir. Frétt­ir bár­ust af fjölda­morðum og ódæðis­verk­um Banda­ríkja­manna. Ég spurði mig: „Hvers vegna eig­um við að velja á milli glæpa­gengja?“ og mætti á mót­mæla­fund við sendi­ráð Banda­ríkj­anna. Ég gerði meiri kröf­ur til „minna manna“ en hinna. Mér varð ljóst að það er málstaður­inn, ekki liðið, sem öllu skipt­ir.

Guðni Th. Jó­hann­es­son seg­ir frá mót­mæl­um árið 1973 í kjöl­far þess að Bret­ar sendu her­skipa­flota á Íslands­mið: „Tveim­ur dög­um fyrr hafði skríll ruðst inn að sendi­ráði Bret­lands í Reykja­vík, valdið þar stór­skemmd­um og verið að því kom­inn að brenna það til grunna þegar lög­regluþjón­um tókst að taka í taum­ana.“ Frá­sögn­in er drama­tísk; þúsund­ir manna höfðu komið gang­andi af mót­mæla­fundi á Lækj­ar­torgi en skríl­menni fá. Ég var á staðnum með Vig­dísi, kær­ustu minni. For­eldr­ar mín­ir voru meira að segja með í för. Við stóðum flest þegj­andi álengd­ar og munduðum hvorki grjót­hnull­unga né veifuðum log­andi kyndl­um, ekki einu sinni mamma.

Öllum mót­mæl­un­um var sam­eig­in­legt að lít­ill hóp­ur mætti klyfjaður eggj­um, grjóti og máln­ingu, með það í huga að skemma. Ég hef alltaf haft skömm á slíku. Maður andæf­ir yf­ir­gangi best með friði. Gandí og Mandela unnu sín stríð hvorki með brugðnum brandi né byss­um held­ur orðum og friðsam­legri mót­spyrnu.

Nú reyna for­seti Banda­ríkj­anna og fylg­is­menn hans að halda völd­um með falsi og bola­brögðum. Í lýðræðis­ríki ræður vilji kjós­enda því hverj­ir velj­ast til for­ystu og leik­regl­urn­ar vernda rétt al­menn­ings. Þegar ann­ar stóru flokk­anna virðir hvorki niður­stöðu dóm­stóla né vilja kjós­enda er ástæða til þess að hafa áhyggj­ur. Helsta ógn við lýðræðið er stjórn­mála­menn sem virða ekki lög og þeir nyt­sömu sak­leys­ingj­ar sem láta sér vel líka eða þegja af ótta við reiði ruglaðs leiðtoga.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. desember 2020