Tímabært að taka skref til baka í jafnréttismálum?

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Ísland trón­ir efst á lista Alþjóðaefna­hags­ráðsins, World Economic For­um, um kynja­jafn­rétti. Það höf­um við gert í rúm­an ára­tug og af því get­um við verið stolt. Sú staða get­ur hins veg­ar leitt til að ein­hverj­ir trúi því að við séum kom­in í höfn, að jafn­rétti kynj­anna sé náð. Ég var í hópi þeirra sem glödd­ust þegar ljóst varð að Kamala Harris yrði vænt­an­leg­ur vara­for­seti Banda­ríkj­anna. Íslensk­ir heims­meist­ar­ar í kynja­jafn­rétti hafa samt sem áður bara upp­lifað konu sem for­seta einu sinni og for­sæt­is­ráðherra tvisvar. Enn hef­ur það aldrei gerst að hlut­fall kynja sé jafnt á þingi. Er það til­vilj­un ein sem veld­ur því að karl­ar hafa alltaf í sögu Alþing­is verið í meiri­hluta? Kynja­hlut­fall í Hæsta­rétti hef­ur líka alltaf verið kon­um í óhag og þess vegna skipti ný­leg skip­un tveggja kvenna í Hæsta­rétt miklu. Kyn­bund­inn launamun­ur hef­ur verið vanda­mál á Íslandi eins og ann­ars staðar í heim­in­um. For­stjór­ar í fyr­ir­tækj­um eru í meiri­hluta karl­menn, þrátt fyr­ir laga­setn­ingu um kynja­kvóta í stjórn­um. Staðan á Íslandi í jafn­rétt­is­mál­um er vissu­lega góð og góð í sam­an­b­urði við önn­ur ríki, en þegar við rýn­um sviðið sést hins veg­ar því miður að kynja­jafn­rétti hef­ur ekki náðst að fullu.

Rétt­ur for­eldra til fæðing­ar­or­lofs

Því má ekki gleyma að hinn góði ár­ang­ur sem Ísland stát­ar af náðist ekki bara með tím­an­um. Tím­inn leiddi okk­ur ekki hingað og biðin ekki held­ur. Þess­um breyt­ing­um var náð í gegn með bar­áttu og fram­sæk­inni laga­setn­ingu. Ísland setti fram­sæk­in fæðing­ar­or­lofs­lög, fram­sæk­in lög um jafn­launa­vott­un sem og lög um kynja­kvóta í stjórn­um. Við erum meðvituð um þýðingu þess að dag­vist­un sé aðgengi­leg. Stjórn­mála­flokk­ar sem vilja láta taka sig al­var­lega gæta að kynja­hlut­föll­um. Ég lít sömu­leiðis á samþykk­is­regl­una í nauðgun­ar­mál­um sem grund­vall­ar­skila­boð um kyn­frelsi kvenna.

Í þessu ljósi ætt­um við að sjá frum­varp um fæðing­ar­or­lof sem Alþingi hef­ur nú til meðferðar. Þar er um að ræða lög­gjöf sem leng­ir fæðing­ar­lof for­eldra og trygg­ir báðum for­eldr­um sjálf­stæðan rétt til or­lofs, í þeim til­vik­um þar sem tveir for­eldr­ar eru til staðar. Nú eru 20 ár frá því að gild­andi lög um fæðing­ar- og for­eldra­or­lof voru sett. Með þeirri laga­setn­ingu var feðrum í fyrsta sinn tryggður sjálf­stæður rétt­ur til fæð ing­ar­or­lofs. Lög­in voru þýðing­ar­mik­il rétt­ar­bót og fólu í sér viður­kenn­ingu á hlut­verki feðra. Á þess­um tíma tók lög­gjöf­in hins veg­ar ekki til­lit til fjöl­skyldna þar sem for­eld­ar voru af sama kyni, sem er ótrú­leg til­hugs­un í dag.

Öll Norður­landa­rík­in hafa fært for­eldr­um 12 mánaða fæðing­ar­or­lof en Ísland rek­ur lest­ina með tíu mánuði. Í Svíþjóð er fæðing­ar­or­lof 16 mánuðir og í mín­um huga ætti mark­miðið að vera að þeir for­eldr­ar sem vilja geti fengið lengra fæðing­ar­or­lof en 12 mánuði. Í því felst stuðning­ur við barna­fólk og heil­brigð fjöl­skyldupóli­tík.

Nú skipt­ir miklu að tekju­há­mark verði hækkað, því ef fjöl­skyld­ur fengju betri stuðning myndu fleiri for­eldr­ar vilja nýta sér fæðing­ar­or­lof. Það er mik­il­vægt að hækka tekju­há­markið svo fjöl­skyld­ur verði ekki fyr­ir miklu tekju­falli við það að nýta þenn­an rétt. Há­marks­greiðsla er nú t.d. um 65% af meðal­heild­ar­laun­um karl­kyns sér­fræðinga með há­skóla­mennt­un en 80% af meðal­heild­ar­laun­um kvenna í sama flokki. Get­ur verið að þau sem tala fyr­ir því að fæðing­ar­or­lofs­rétt­ur eigi að vera fram­selj­an­leg­ur geri það vegna þess að það kost­ar fjöl­skyld­ur meira að tekju­hærra for­eldrið taki fæðing­ar­or­lof? Til að lög­gjöf um sjálf­stæðan rétt for­eldra nái fram mark­miði sínu þurfa fjöl­skyld­ur að geta séð sér fært að taka fæðing­ar­or­lof. Það er vita­skuld í þágu barna að for­eldr­ar þurfi ekki að láta hluta fæðing­ar­or­lofs niður falla. Þess vegna er það bæði eðli­legt að styðja bet­ur við barna­fólk með hærra tekju­há­marki og þá myndi það styðja við jafn­rétt­is­mark­mið frum­varps­ins. Að þessu leyti er frum­varpið von­brigði.

Hærra tekju­há­mark nauðsyn­legt

For­senda fæðing­ar­or­lofslag­anna var og er að rétt­ur til launa í fæðing­ar­or­lofi er ein­stak­lings­bund­inn rétt­ur. Að barn, sem á tvo for­eldra, eigi rétt til sam­vista við þá báða á fyrstu mánuðum lífs. Það er um leið grund­vall­ar­atriði að frum­varpið kem­ur til móts við ein­stæða for­eldra þannig að for­sjár­for­eldri geti fengið 12 mánaða fæðing­ar­or­lof. Þá er það síðast en ekki síst grund­vall­ar­atriði um jafn­rétti á vinnu­markaði að gert séð ráð fyr­ir því að kon­ur jafnt sem karl­ar hverfi um tíma af vinnu­markaði vegna fæðing­ar­or­lofs. Þegar lög um fæðing­ar­or­lof voru sett fyr­ir 20 árum var litið til Íslands fyr­ir fram­sækna lög­gjöf. Mik­il­vægt er að hafa þetta í huga núna og að ár­ang­ur Íslands í jafn­rétt­is­mál­um náðist fram með mark­viss­um aðgerðum og laga­setn­ingu til að stuðla að og tryggja jafn­rétti. Að 20 árum liðnum er staða Íslands í jafn­rétt­is­mál­um ekki orðin þannig að tíma­bært sé að af­nema sjálf­stæðan rétt for­eldra til fæðing­ar­or­lofs. Það mun lík­lega fram­kalla þau nei­kvæðu áhrif að feður taki fæðing­ar­or­lof í minna mæli, veikja hlut mæðra á at­vinnu­markaði og síðast en ekki síst skerða rétt barna til sam­vista við báða for­eldra á fyrstu mánuðum æv­inn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. desember 2020