Er eitthvað í fréttum?

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Það er engin óskastaða að einn fjölmiðill flytji allar innlendar sjónvarpsfréttir og að engin samkeppni ríki á þeim markaði. Sú verður staðan eftir að Stöð 2 tók þá ákvörðun að fréttatíminn standi áskrifendum einum til boða. Staða einkarekinna fjölmiðla hér á landi er þung og hefur verið lengi. Fjölmiðlaumhverfið hefur líka breyst í alþjóðlegu samhengi með risum á netinu, en hér er yfirburðastaða Ríkisútvarpsins lykilbreyta. Fréttastofa Stöðvar 2 fór auðvitað ekki þá leið að loka aðgengi að fréttatímanum vegna tækifærisins sem í því fólst heldur vegna þess að sá kostur var einn eftir í erfiðri stöðu.

Það hefur lengi verið aðkallandi að stjórnvöld bregðist við ástandi á fjölmiðlamarkaði. Þar eru ríkir almannahagsmunir að baki. Öflugir ríkisfjölmiðlar starfa í nágrannaríkjum okkar og þeir eru af hinu góða. Miðlarnir eru reknir af opinberu fé vegna mikilvægis þeirra fyrir fréttamiðlun, lýðræði og menningu. Umgjörðin og samkeppnisstaða verður hins vegar að vera heilbrigð og má ekki verða til þess að samkeppnisaðilar eigi sjálfkrafa erfitt uppdráttar.

Markvissa stefnu og aðgerðir stjórnvalda hefur vantað til að tryggja vandaðan, innlendan fréttaflutning og heilbrigt rekstrarumhverfi, þar sem ríkisrekinn fjölmiðill og einkareknir geta lifað saman. Leiðirnar eru í grunninn tvær, annars vegar styrkir til einkarekinna fjölmiðla sem vantar hér á landi þrátt fyrir að róður þyngist stöðugt og þá þarf ákvörðun stjórnvalda um hvort ríkisfjölmiðill eigi heima á auglýsingamarkaði eða hvernig takmarka má hlut hans þar. Sú ákvörðun liggur ekki heldur fyrir af hálfu stjórnvalda. Á meðan taka alþjóðlegir risar á netinu líka meira til sín.

Athygli ríkisstjórnarinnar á þessu verkefni hefur ekki verið í samræmi við mikilvægi. Það er almannahagsmunamál hvert aðgengi er að innlendri fréttaumfjöllun, sem skerðist nú í kjölfar ákvörðunar Stöðvar 2. Vonandi verður sú ákvörðun til að hreyfa við ríkisstjórninni. Markmiðið hlýtur að vera að almenningur geti gengið að vönduðum innlendum fréttaflutningi vísum.