Sprengiefni

Þorsteinn Pálsson

Umsögn Samkeppniseftirlitsins um sölu Íslandsbanka er pólitískt sprengiefni fyrir þá sök að hún endurspeglar skýra mynd af hnappheldu peningakerfisins og fjármálamarkaðarins. Jafnframt varpar hún ljósi á ófullnægjandi undirbúning málsins.

Samkeppniseftirlitið telur núverandi eignarhald á viðskiptabönkunum gallað. Það er í prins­ippinu fylgjandi sölu á hlutum ríkisins. En það setur aftur á móti fram leiðbeinandi viðmið til að tryggja samkeppni. Þau skilja ríkisstjórnina eftir í blindgötu.

Augum lokað fyrir hindrunum

Í forsendum ríkisstjórnarinnar segir að ógerlegt sé að fá erlenda kaupendur. Það rýrir verðgildi bankans og stuðlar ekki að aukinni samkeppni.

Samkeppniseftirlitið dregur fram að hindranir á erlenda fjárfestingu eru miklu meiri hér en á öðrum Norðurlöndum. Það gagnrýnir ríkisstjórnina maklega fyrir að ræða ekki hvernig ryðja megi hindrunum úr vegi.

Þetta er til marks um óvandaðan undirbúning.

Satt best að segja er krónan stærsta samkeppnishindrunin á fjármálamarkaði. Þann grundvallarvanda má hins vegar ekki ræða. Það er veikleiki.

Augum lokað fyrir samkeppni

Ámælisverðast er að salan er undirbúin og ákveðin án þess að gæta að mikilvægasta þættinum, sem er krafan um virka samkeppni.

Samkeppniseftirlitið leiðir rök að því að öðrum kaupendum en lífeyrissjóðum verði ekki til að dreifa, nema í takmörkuðum mæli. Þeir eru nú helstu eigendur Arion banka. Að auki eiga þeir flest stærstu fyrirtækin, sem bankarnir skipta við. Loks eru þeir bæði stórir viðskiptavinir og helstu keppinautar bankanna.

Svo má ekki gleyma því að sala til lífeyrissjóða er ekki einkavæðing. Lífeyrisiðgjöld eru jafngildi skatta. Fjármunir sjóðanna eru velferðarpeningar eins og krónurnar í ríkissjóði og lúta sömu lögmálum.

Það er enginn eðlismunur á eignarhaldi ríkissjóðs og lífeyrissjóða á bönkum og fyrirtækjum. Þessi hluti velferðarkerfisins er rekinn í nokkrum einingum, en ákvarðanir þeirra allra byggja á sömu lögbundnu forsendunum.

Ef ekki er unnt að sýna fram á að sala efli samkeppni vantar helstu rökin fyrir henni. Augunum má ekki loka fyrir þessu kjarnaatriði.

Tvöfalt siðgæði

Við höfum innleitt nýja löggjöf Evrópusambandsins um fjármálamarkaðinn. Það er því rétt hjá ríkisstjórninni að lagaumhverfið er að því leyti annað en þegar bankarnir voru seldir í byrjun aldarinnar.

En hvers vegna dugar það ekki til að skapa traust? Vera má að það stafi af því að stjórnvöld hafa látið við það sitja að innleiða Evrópulöggjöfina um fjármálamarkaðinn.

Dæmi: Í skilningi laga um fjármálamarkaðinn er Samherji nú ráðandi eigandi Síldarvinnslunnar. Aftur á móti er Síldarvinnslan Samherja enn með öllu óviðkomandi, í skilningi laga um stjórn fiskveiða.

Um leið og sala ríkisbanka til náinna samherja var ákveðin á sínum tíma, var fellt úr lögum ákvæði um dreifða eignaraðild að stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum. Núverandi ríkisstjórn hefur komið í veg fyrir að það verði sett í lög á ný.

Sérhagsmunagæslan afhjúpar þannig tvöfalt siðgæði. Meðan það blasir við með svo áberandi hætti byggist traustið hægt upp.

Réttur tími en vanhugsuð byrjun

Taka verður undir með ríkisstjórninni að á næstu árum er æskilegt að nýta þá fjármuni, sem bundnir eru í bankakerfinu, með skynsamlegri hætti í þágu velferðarkerfisins. Að því leyti er þetta góður tími til að hefjast handa.

En á meðan ríkisstjórnin hefur ekki byggt upp nægjanlega mikið og almennt siðferðilegt traust verður erfitt að troða sölunni niður í kokið á kjósendum. Þeirra traust skiptir máli.

Aðalatriðið er þó hitt að það er óðslegt að fara af stað í þennan leiðangur fyrr en unnt er að sýna fram á að hann skili markvissari og heilbrigðari samkeppni. En til þess að það sé unnt verða menn að horfast í augu við veikleika peningakerfisins.

Erlendir fjárfestar líta á krónuhagkerfið sem hindrun. Og lífeyrissjóðirnir hafa sprengt krónuhagkerfið utan af sér. Ríkisstjórn, sem lokar augunum fyrir þessari hnappheldu, nær ekki tökum á viðfangsefninu.

Segja má að tími sé til kominn. En eins og í skák er velhugsuð byrjun forsenda fyrir árangursríku endatafli.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. janúar 2021