Ályktun um grunnstefnu samþykkt á sveitarstjórnarþingi

Fjölmennt sveitarstjórnarþing Viðreisnar var haldið laugardaginn 30. janúar. Voru þar mætt kjörnir fulltrúar flokksins, nefndarfólk Viðreisnar í sveitarstjórnum og aðrir áhugasamir flokksmenn um sveitarstjórnarmál. Er þetta í annað sinn sem sveitarstjórnarþing Viðreisnar er haldið en fyrsta þingið var haldið í janúar 2019. Viðreisn bauð fyrst fram til sveitarstjórna, bæði í eigin nafni og með öðrum, í kosningum 2018.  Stofnað var sveitarstjórnarráð kjörinna fulltrúa og er formaður sveitarstjórnarráðs Lovísa Jónsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi Viðreisnar í Mosfellsbæ.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar setti þingið. Í ræðu sinni hvatti hún sveitarstjórnarfólk til að gæta að orðræðu sinni, ekki síst í ljósi frétta um skotárásir á bifreið borgarstjóra og húsnæði stjórnmálasamtaka og benti sérstaklega á að strax við stofnun flokksins hafi orðfæri Viðreisnar verið samþykkt. „Þetta er vissulega öðruvísi nálgun en hjá eldri flokkum. Þó að við tökum oft sterkt til orða þegar við gætum lýðræðislegs aðhalds, þá verðum við einnig að gæta hófs og sýna sanngirni. Þetta er risamál, sem snertir lýðræðið. Því í ógninni og hatursorðræðunni felst tilraun til þöggunar og það er undir okkur komið að spyrna við fótum til að gæta að fjölbreytileika og lýðræði. “

Hún minnti á að í ár er kosningaár og að góður árangur Viðreisnar í þingkosningum muni hafa jákvæð áhrif á sveitarstjórnarstigið. „Íslensk pólitík er undir þeim gæfufána að vera nálægt fólkinu í landinu. Þið, í sveitarstjórnum, eruð enn nær fólkinu okkar þar. Við eigum að nýta öll tækifæri til að sýna hvernig við vinnum og setjum fram lausnamiðaðar nálganir í þjónustu við einstaklinga, heimili og fyrirtæki. Við erum lið sem stendur fyrir frjálslyndi, jafnrétti, samstarf og mennsku og verðum að vera óhrædd við að sýna mennskuna. Við skulum hafa gaman og ætlum að vaxa og dafna saman á grunni okkar hugsjóna.“  

Á þinginu ræddi Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar um skipulag innra starfs þegar kemur að sveitarstjórnarstiginu og mikilvægi þess að tengja þar starf málefnanefnda Viðreisnar. Lovísa Jónsdóttir, formaður sveitarstjórnarráðs fór einnig yfir niðurstöður síðasta sveitarstjórnarþings og þann lærdóm sem sveitarstjórnarráð hafði tekið með sér eftir kosningarnar 2018.

Að síðustu samþykkti sveitarstjórnarráð ályktun um Grunnstefnu Viðreisnar í sveitarstjórnum. Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi í Reykjavík sem situr í stjórn sveitarstjórnarráðs kynnti tillöguna og sagði hana hugsaða sem fyrsta skref í að móta sameiginlega stefnu, sem öll framboð Viðreisnar á sveitarstjórnarstigi ættu að geta sammælst um, óháð svæðisbundnum áherslum. Eftir miklar umræður var tillagan samþykkt einróma af öllum félögum sveitarstjórnarráðs.  

Grunnstefna Viðreisnar í sveitarstjórnum

Öflug sveitarfélög

Styrkja þarf sveitarstjórnarstigið með sameiningu og samvinnu sveitarfélaga. Öflug sveitarfélög eru betur í stakk búin til að takast á við lögbundin verkefni og færa þannig þjónustu og ákvarðanatöku nær íbúum. Auka þarf aðkomu sveitarfélaga að lykilákvörðunum um uppbyggingu í heimabyggð. 

Fjármál og rekstur

Við viljum sjálfbæran rekstur sveitarfélaga. Við viljum hóflegar álögur á íbúa og fyrirtæki og tölum fyrir skattalækkunum þegar við á. Sveitarfélög eiga ekki að standa í samkeppnisrekstri. Við tölum fyrir opnu bókhaldi sveitarfélaga.

Fagleg stjórnun

Við viljum gagnsæi í stjórnsýslu og ákvarðanatöku. Aðskilnaður milli stjórnmála og faglegrar stjórnsýslu þarf að vera skýr. Stjórnsýslan þarf að vera einföld og að fullu stafræn. Við sækjum innblástur í alþjóðlegar fyrirmyndir og stefnur. Sveitarfélög taki mið af heimsmarkmiðum og Barnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við setjum fram mælanleg markmið til að tryggja yfirsýn og auðvelda faglega ákvarðanatöku.

Fræðslumál

Við styðjum fjölbreytt rekstrarform í menntakerfinu. Við viljum að börnum sé tryggð dagvistun frá 12 mánaða aldri. Nám- og kennsluhættir skulu vera fjölbreyttir og gera skal skapandi- og starfstengdu námi hærra undir höfði. Styðja skal sérstaklega við börn með ólíka færni og börn sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.

Velferð

Velferð allra íbúa er grunnur að góðu samfélagi. Við styðjum sjálfstæði og sjálfsvirðingu einstaklinga og styðjum þá til virkni. Gera þarf fólki kleift að búa á eigin heimili eins og hægt er. Í samstarfi við ríkið þarf að fjölga hjúkrunarrýmum. Öll sveitarfélög taki þátt í lausn húsnæðisvanda þeirra sem aðstoð þurfa. Við leggjum áherslu á forvarnir og barnvæn sveitarfélög. Fræðslu- og velferðaryfirvöld eiga að starfa saman með þarfir barna að leiðarljósi. 

 Umhverfi

Við styðjum vistvænar samgöngur og eflingu almenningssamgangna og tölum fyrir kolefnishlutleysi. Við styðjum við markmið Parísarsáttmálans í loftslagsmálum og hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Einfalda þarf ferla í skipulagsmálum til að flýta uppbyggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis. Við hönnun og skipulag skal unnið eftir hugmyndafræði algildrar hönnunar og tryggja að ný hverfi og mannvirki séu aðgengileg öllum.

Menning og íþróttir

Sveitarfélög styðji við heilsueflingu og lýðheilsu í sinni víðustu mynd. Við styðjum að börn geti valið sér frístund við sitt hæfi í gegnum frístundastyrki. Huga þarf sérstaklega að stöðu barna af erlendum uppruna. Við viljum öflugt og faglegt samstarf við íþróttahreyfinguna. Við styðjum við sjálfstæða listamenn og sjálfstæð menningarfélög. Við viljum öfluga samkeppnissjóði á sviði menningar og lista. Við vinnum saman með hagaðilum til að tryggja jafnrétti á sviði menningar og íþrótta.

Fjölbreytni og alþjóðasamstarf

Við vinnum að jafnrétti og gegn hvers kyns fordómum og ofbeldi. Við styðjum fjölbreytni mannlífs, vinnum að því að móta jákvæð viðhorf til fjölmenningar og til þess byggja brýr milli menningarheima. Þjónusta sveitarfélaga taki mið af fjölbreyttum bakgrunni íbúa. Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á ensku og fleiri tungumálum. Stutt er við móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna. Störf á vegum sveitarfélaga skulu standa öllum til boða og unnið gegn óeðlilegum hindrunum á vinnumarkaði. Við styðjum virka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi sveitarfélaga og sveitarstjórnarfólks.

Gildi og samstarf

Við erum málefnaleg, hófstillt og traust. Við erum vakandi fyrir þörfum íbúa á hverjum stað. Við látum málefnastöðu ráða samstarfi og höfum almannahagsmuni ávallt að leiðarljósi.

 Samþykkt á sveitarstjórnarþingi Viðreisnar þann 30.01.2020