CBD frelsi

Í dag brosum við góðlátlega að gamalli forsjárhyggju íslenskra stjórnvalda. Sjónvarpslaus fimmtudagskvöld voru tilskipun ríkisins svo fólk myndi nýta þau til þess að njóta samverunnar á heimilum sínum. Óljósari var tilgangurinn með því að banna veitingastöðum að reiða fram vín með mat á miðvikudögum. Óskiljanlegt var síðan að banna bjór á Íslandi á meðan vín og vodka var selt ómælt í áfengisverslun ríkisins. Í öllum þessum tilvikum vorum við árum og jafnvel áratugum saman á skjön við flestar nágrannaþjóðir okkar.

Óskandi er að frelsi til löglegra kaupa á CBD fæðubótarefni verði fljótlega samþykkt á Alþingi. Dragist það enn á langinn gæti nýtt hjákátlegt mál verið í uppsiglingu. Svona „skammast sín seinna“-mál.

Náttúruleg CBD fæðubótarefni, einkum unnin úr iðnaðarhampi, hafa reynst fólki um allan heim happafengur gegn alls kyns kvillum. Íslendingar, ekki síst eldra fólk, hefur keypt CBD í útlöndum eða orðið sér úti um það eftir krókaleiðum í langan tíma. Það yrði mikið framfaraskref ef hægt verður að nálgast fæðubótarefnin eftir löglegum leiðum, til dæmis í næsta apóteki, heilsubúð eða netverslun. Þar sem fólk getur fengið viðurkenndar vörur sem seldar eru undir eftirliti en ekki í undirheimum.

Evrópudómstóllinn hefur nýlega úrskurðað að CBD sé matvara, ekki vímugjafi. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gerði það sama fyrir tveimur árum og Sameinuðu þjóðirnar taka undir. CBD er náttúruleg vara sem er hvorki vímugefandi né skaðleg fólki. Ákvörðun dómstólsins er einföld: Það er bannað að hindra viðskipti með CBD í ríkjum Evrópusambandsins. Kjósi eitthvert þeirra að streitast á móti þarf viðkomandi að færa sönnur á skaðsemi CBD. Það verður vafalaust þrautin þyngri.

Sem betur fer höfum við loksins leyft ræktun iðnaðarhamps á Íslandi og sölu á CBD húð- og snyrtivörum. Núna þurfum við að stíga skrefið til fulls og leyfa viðskipti með fæðubótarefnin, hvort sem er í formi olíu, hylkja eða matvöru sem inniheldur CBD. Málið er brýnt lýðheilsumál. Setjum frelsi fólks í forgang en ekki úrelta forsjárhyggju.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. febrúar 2021