Dauðans alvara

Benedikt Jóhannesson

Í dag verður nýjum áfanga náð. Áfanga sem enginn heldur upp á. Hálf milljón Bandaríkjamanna hefur þá dáið úr Covid-19. Seinna í vikunni verður tilkynnt um að tvær og hálf milljón manna í heiminum öllum hafi þurft að lúta í lægra haldi fyrir veirunni skæðu. Reyndar hafa líklega ennþá fleiri dáið úr þessum illræmda sjúkdómi, en opinberar tölur eru svona.

Bakvið kaldar tölurnar eru sorgir ættingja, vina, vinnufélaga. Fólks sem veit að ástvinir koma aldrei aftur, munu aldrei aftur sitja við morgunverðarborðið, bjóða góðan daginn á heilsugöngunni eða hringja í barnabörnin.

Tölur hætta að hafa merkingu fyrir okkur þegar þær eru þuldar upp á hverjum degi. Við kippum okkur ekki upp við milljón látna til eða frá, nú þegar faraldurinn er kominn á annað ár, þótt það séu ekki nema örfáir mánuðir síðan það fór hrollur um okkur þegar tilkynnt var um nítján ný smit á Íslandi.

Sumum finnst of mikið að gert í sóttvörnum meðan aðrir eru á nálum yfir eftirgjöf allt of snemma. Bóluefni var þróað á mettíma, sem er auðvitað gleðiefni, en vegna þess að það er til er stór hópur æfur yfir að ekki skuli vera búið að bólusetja alla (eða að minnsta kosti þá sjálfa).

Við vonum að ósköpunum fari að linna og við getum bráðum litið um öxl og spurt hvað getum við lært?

Drepsótt er ekkert grín. Forsætisráðherra Bretlands sagði glaðhlakkalega frá því að hann gæti glatt umheiminn með því að hann hefði tekið í höndina á öllum þegar hann kom á spítala og hitti fólk sem lagt hafði verið inn vegna sjúkdómsins. Nokkrum vikum seinna var hann við dauðans dyr. Hann hefur væntanlega hætt við að kalla aðgerðaáætlun sína Síðasta andvarpið, eins og hann hafði í flimtingum, áður en hann komst nærri sínum síðasta andardrætti.

Veiruvarnir eru ekki pólitík. Í Bandaríkjunum hélt fyrrverandi forseti fjölmargar samkomur þar sem lítt var skeytt um fjarlægð eða grímur. Ættmenn hans tóku af sér grímuna á sjónvarpsfundi, nokkrum dögum áður en í ljós kom að forsetinn, kona hans og sonur voru öll smituð.

Þöggun er heimskuleg og hættuleg. Ríkisstjóri New York fylkis vakti athygli fyrir skörulega framgöngu á upplýsingafundum og margir sáu í honum forsetaefni. Nú kemur í ljós að hann sagði ósatt og stakk tölum um dauðsföll undir stól.

Forseti Bandaríkjanna vissi strax í upphafi að veiran væri stórhættuleg og gæti borist milli manna án snertingar, en þagði yfir þeirri vitneskju sinni við almenning og gerði lítið úr hættunni.

Svíar fóru sína leið og leyfðu öllum að hittast eins og ekkert hefði í skorist og tryggðu sér þannig Norðurlandametið í dauðsföllum og smitum.

Það er leiðinlegt að hitta ekki alla vini sína og komast ekki á allar samkomur, en hörkum af okkur nokkra mánuði enn. Við erum vonandi komin langleiðina í markið.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. febrúar 2021