Höfuðhögg í heimabyggð

Stelp­an sem hékk höfuðhögg í fót­bolta í Fella­bæ á Aust­ur­landi þurfti ekki að bíða lengi á biðstofu heilsu­gæsl­unn­ar á Eg­ils­stöðum. Hún kvartaði und­an höfuðverk og svima eft­ir leik­inn og þjálf­ar­inn skutlaði henni á heilsu­gæsl­una. Lækn­ir­inn þar taldi ástæðu til að kanna nán­ar hvort blætt hefði inn á heil­ann, en á heilsu­gæsl­unni í höfuðstað Aust­ur­lands er ekki aðstaða til bráðagrein­ing­ar. Fót­bolta­stelp­an unga þurfti því að fara á sjúkra­húsið í Nes­kaupstað til að kom­ast í sneiðmynda­töku. Þangað eru tæp­lega 70 km eða um 45 mín­útna akst­ur. Það á reynd­ar við þegar færð er í lagi. Fólk á Aust­ur­landi get­ur hins veg­ar fengið höfuðáverka all­an árs­ins hring, líka þegar það er erfið vetr­ar­færð og jafn­vel ófærð.

Fót­bolta­stelp­an var hepp­in. Sneiðmynda­tak­an leiddi ekki í ljós al­var­leg­an áverka á heila og sjúkra­húsið í Nes­kaupstað gat sinnt mál­inu. Hefði hins veg­ar komið í ljós að áverk­inn af höfuðhögg­inu væri slík­ur að hún þyrfti að kom­ast í sér­hæfða bráðaþjón­ustu þá hefði leiðin legið aft­ur til Eg­ilsstaða og þaðan með flugi til Reykja­vík­ur. Þetta ferðalag og tím­inn sem það tek­ur fer sann­ar­lega ekki vel sam­an við æski­lega meðhöndl­un bráðatil­vika. Og þá er ótal­in líðan sjúk­linga og aðstand­enda þeirra.

Það er ekki ein­falt mál í fá­mennu og dreif­býlu landi að tryggja lands­mönn­um öll­um aðgang að full­komn­ustu heil­brigðisþjón­ustu sem á hverj­um tíma eru tök á að veita, eins og stjórn­völd­um er skylt að gera sam­kvæmt lög­um um heil­brigðisþjón­ustu. Margt hef­ur verið gert mjög vel í þeirri viðleitni, annað má gera mun bet­ur.

Fram­an­greind lýs­ing er því miður langt frá því að vera eina dæmið um hvernig fólk er sett í þá stöðu að þurfa að af­sala sér aðgengi að heil­brigðisþjón­ustu ef það vel­ur sér bú­setu á lands­byggðinni. Sér í lagi í höfuðstað Aust­ur­lands. Sneiðmynda­tækið sem íbú­ar þar eru að kalla eft­ir kost­ar 70 m.kr. Í hinu stóra sam­hengi er illskilj­an­legt að sú fjár­fest­ing standi í yf­ir­völd­um þegar það myndi auka ör­yggi og lífs­gæði íbú­anna um­tals­vert.

Við vit­um öll að sam­göng­ur og aðgengi að grunnþjón­ustu ráða oft úr­slit­um þegar fólk vel­ur sér bú­setu. Sneiðmynda­tæki á heilsu­gæsl­una í höfuðstað Aust­ur­lands væri lítið, sann­gjarnt og mik­il­vægt skref í þá átt að auðvelda fólki bú­setu á svæðinu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. febrúar 2021