Hvað þarf marga stjórnmálamenn?

Það er von að spurt sé. Aðkoma stjórnvalda að íslenskum póstmarkaði er minnsta kosti ekki til þess að bera hróðurinn út. Stjórnvöldum hefur nú í rúmt ár verið bent á ólögmæti undirverðlagningar Íslandspósts á pakkasendingum. Undirverðlagningu sem annars vegar kippir rekstrargrundvelli undan samkeppnisaðilum víðs vegar um landið. Eins og þessar afleiðingar séu ekki nægilega slæmar þá leiðir undirverðlagningin auðvitað til tapreksturs sem skattgreiðendur borga með samþykkisstimpli ríkisstjórnarinnar.

Málið varðar svokallaða alþjónustu þar sem markmiðið er að tryggja hag notenda sem fengu ekki þjónustu hjá póstrekanda sem starfaði á viðskiptagrundvelli og væri ekki skylt að veita þjónustuna. Í skjóli alþjónustusamnings við Íslandspóst er ríkið að fjármagna grímulaus undirboð fyrirtækisins á samkeppnismarkaði.

Þegar lög um póstþjónustu voru afgreidd á Alþingi vorið 2019 felldu stjórnarflokkarnir þrír, auk Miðflokks, breytingartillögu sem ég mælti fyrir fyrir hönd Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata um að ráðherra yrði gert að taka saman upplýsingar um kostnað Íslandspósts við framkvæmd alþjónustu frá árinu 2011. Upplýsingarnar yrðu gerðar opinberar og aðgengilegar almenningi, ekki síðar en 1. nóvember 2019. Hefði þessi gegnsæiskrafa verið samþykkt, værum við í betri stöðu núna.

Fyrirtækjum sem eiga hér hagsmuna að gæta með rekstur sinn er gert að ganga þrautagöngu á milli Pontíusar og Heródesar til þess eins að upplifa meðvirkni og aðgerðaleysi í kerfinu. Þó vantar ekki umbúðirnar. Við erum að tala um tvo ráðherra, fjármálaráðuneyti og samgönguráðuneyti. Þar undir eru tvær eftirlitsstofnanir: Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppniseftirlitið. Svo er pólitísk skipuð stjórn yfir Íslandspósti. Loks er það Alþingi sjálft.

Hvað þarf þá marga stjórnmálamenn til að reka póstþjónustu? Svarið er auðvitað: Engan. Allra síst stjórnmálamenn sem eru samofnir kerfinu og andsnúnir viðskiptafrelsi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. febrúar 2021