Hvers virði er traust kvenna?

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Í byrj­un árs voru gerðar breyt­ing­ar á skimun­um fyr­ir krabba­mein­um í brjóst­um og leg­hálsi í kjöl­far þess að heil­brigðisráðherra ákvað að breyta skipu­lagi, stjórn og fram­kvæmd skimun­ar. Frétt­irn­ar komu illa við marga og komu flest­um í opna skjöldu enda hafði lít­il kynn­ing farið fram á for­send­um, ástæðum og af­leiðing­um þess­ara breyt­inga. Þetta sam­fé­lags­lega mik­il­væga verk­efni flyst nú al­farið yfir til hins op­in­bera með auk­inni miðstýr­ingu.

Val­frelsi kvenna skert

Eft­ir hörð viðbrögð við því að ætla að hefja skimun fyr­ir brjóstakrabba­meini fyrst við 50 ára ald­ur í stað 40 ára til­kynnti heil­brigðisráðherra að fresta ætti gildis­tök­unni hvað varðar ald­ur­sviðmið brjósta­skimun­ar. Ákvörðun stjórn­valda um skimun leg­hálskrabba­meins stend­ur. Al­menn­ing­ur hef­ur enn litl­ar rök­semd­ir heyrt um ástæður þess að nú eigi að skima fyr­ir leg­hálskrabba­meini á fimm ára fresti í stað þriggja ára eða hvers vegna það er betra að heilsu­gæsl­an sinni þessu verk­efni nú al­farið.

Að lok­um var rann­sókn­ar­stofa í Dan­mörku feng­in til að rann­saka sýn­in en svo hef­ur komið í ljós að hóp­ur kvenna mun þurfa að fara aft­ur í sýna­töku. Á sama tíma liggja 2.000 sýni óhreyfð í pappa­köss­um og hafa gert um nokk­urra vikna skeið. Al­veg hef­ur vantað að út­skýra hvers vegna Land­spít­al­inn má ekki greina þessi sýni eða hvort stjórn­völd leituðu yf­ir­leitt til Land­spít­al­ans um að sinna þessu verk­efni. Hvers vegna er betra fyr­ir al­menn­ing að þetta verk­efni flytj­ist til Dan­merk­ur?

Margt bend­ir til þess að und­ir­bún­ing­ur þessa flutn­ings hafi verið illa unn­inn. Sam­fella í þjón­ustu er ekki tryggð þegar kon­ur þurfa að fara aft­ur í sýna­töku og standa uppi með tak­mörkuð svör um hvenær sýni verða greind og af hverj­um. Nú síðast heyr­ist svo í umræðunni að kon­ur sem eru van­ar að fara til kven­sjúk­dóma­lækn­is í skimun fyr­ir leg­hálskrabba­meini og vilja gera það áfram muni greiða fyr­ir það fullt gjald en þær sem leita til heilsu­gæsl­unn­ar greiða lægra gjald. Af­leiðing­in er tvö­falt kerfi.

Stefn­an virðist vera að all­ar kon­ur eigi að fara á heilsu­gæsl­una. Raun­veru­legt val­frelsi verður því ekki til staðar, nema fyr­ir þær kon­ur sem geta og vilja greiða hærra gjald fyr­ir grund­vall­ar­heil­brigðisþjón­ustu. Kon­ur sem eiga erfiða eða sára reynslu af meðgöngu og fæðingu, vegna kyn­ferðisof­beld­is eða af öðrum ástæðum þekkja vel hversu miklu skipt­ir að skoðunin fari fram af lækni sem hef­ur inn­sýn í þær aðstæður. Þær aðstæður eru fyr­ir hendi hjá kven­sjúk­dóma­lækn­in­um sem þekk­ir sögu kon­unn­ar. Sú breyt­ing að vilja ýta þess­ari skoðun nán­ast al­farið til heilsu­gæsl­unn­ar er í mín­um huga aft­ur­för.

Miðstýr­ing ofar öllu

Stefna rík­is­stjórn­ar Vinstri grænna, Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar­flokks hef­ur verið að auka miðstýr­ingu í heil­brigðis­kerf­inu. Við þekkj­um nú þegar til dæm­is þá absúrd fram­kvæmd rík­is­stjórn­ar­flokk­anna sem bjóða skatt­greiðend­um upp á að sjúk­ling­ar séu t.d. send­ir í liðskiptaaðgerðir til Svíþjóðar fyr­ir næst­um þris­var sinn­um hærri kostnað frek­ar en að bjóða fólki mun þægi­legri val­kost sem er að fara í aðgerð hér heima.

Þessi kostnaðar­auki, sem mjög auðveld­lega mætti kom­ast hjá, veit­ir sjúk­ling­um auk þess það óhagræði að þurfa að fljúga til annarra landa að sækja heil­brigðisþjón­ustu sem auðveld­lega má veita hér heima. Þarna fer því sam­an hærri kostnaður og verri þjón­usta.

Miðstýr­ing­in virðist ofar öllu hjá rík­is­stjórn­ar­flokk­un­um. Þögn þing­manna Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar­flokks­ins er áber­andi í þess­ari umræðu, flokka sem tala stund­um fyr­ir ann­arri stefnu en þeir styðja svo í verki í þingsal.

Ell­efta boðorðið

Ein af­leiðing þess­ar­ar stefnu stjórn­valda er að traust kvenna til kerf­is­ins er laskað. Það mun þurfa átak til að efla traust kvenna til þessa kerf­is eft­ir vinnu­brögð stjórn­valda. Allt frá óvænt­um frétt­um um að skimun fyr­ir brjóstakrabba­meini ætti ekki að hefjast fyrr en við 50 ára ald­ur­inn, yfir í að 2.000 sýni liggja í pappa­köss­um og nú að beina eigi kon­um frá því að sækja sér þjón­ustu kven­sjúk­dóma­lækna, með því að heilsu­gæsl­an sé kom­in með þetta verk­efni. Allt í þágu 11. boðorðsins um að heiðra skuli miðstýr­ingu ofar öllu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. febrúar 2021