Spöngin 12 mínútum nær

Klukkan er 8.00. Lárus leggur af stað frá heimili sínu við Langarima. Hann keyrir út á Borgarveg, svo Víkurveg út á Vesturlandsveginn, niður Ártúnsbrekkuna. Hann beygir til hægri inn á Sæbraut, keyrir hana í sæmilega þéttri morgunumferð. Hann er mættur niður í bílakjallara Höfðatorgs þar sem hann finnur stæði og röltir svo í nálæga skrifstofu í Borgartúni. Lárus er sestur við skrif borðið klukkan 8.35.

Klukkan 8.00 gengur Laufey af stað frá heimili sínu við Langarima. Hún nær Borgarlínunni og keyrir í átt að Ártúnshöfða, frá Ártúnshöfðanum niður í Vogabyggð og síðan eftir Suðurlandsbraut. Hún keyrir á 40 km hraða eftir sérakreinum. Hún skoðar fréttirnar í símanum, lækar nokkra statusa og svarar skilaboðum. Hún er mætt á Hlemmi á innan við hálftíma frá því hún lagði af stað. Hún gengur í nálæga skrifstofu í Borgartúninu. Laufey er sest við skrif borðið klukkan 8.35.

Með Borgarlínunni mun ferðalag frá Spönginni niður á Hlemm styttast úr 33 mínútum niður í 21 mínútu. Það gerist strax með fyrsta áfanga Borgarlínu. Styttingin verður enn meiri þegar þriðji áfangi, Krossmýri-Spöng, klárast. Svipaðar styttingar verða víðar. Strætóferð frá Hamraborg í HR styttist um 11 mínútur. Ferðin frá Seltjarnarnesi upp í Kringlu helmingast og fer úr 23 mínútum niður í 12. Borgarlínan mun breyta borginni. Frá Ártúnshöfða niður á Hlemm mun hún öll liggja í sérrými auk þess sem hjólandi og gangandi fá meira pláss. Með sérrýmum verður Borgarlínan samkeppnishæf við einkabílinn á stórum hluta höfuðborgarsvæðisins.

Þeir sem munu vilja ferðast ódýrt og umhverfisvænt munu ekki þurfa að gjalda fyrir það með lengri ferðatíma. Um þetta snýst Borgarlínan. Hún snýst ekki um þvingun. Hún snýst um að gefa fólki raunverulegt val.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. febrúar 2021