Þegar ríkisstjórnin yfirgaf krónuna

Í lok síðasta árs ákvað rík­is­stjórn­in að yf­ir­gefa krón­una og færa sig yfir í evr­ur til þess að fjár­magna halla rík­is­sjóðs. Þessi kúvend­ing hef­ur hins veg­ar ekk­ert verið rædd á Alþingi.

Þegar kór­ónu­veirukrepp­an skall á lýsti ríkisstjórnin því yfir að hún ætlaði að byggja á stuðningi Seðlabank­ans og fjár­magna halla rík­is­sjóðs á lág­um vöxt­um og án gengisáhættu í ís­lensk­um krón­um. Viðreisn studdi þá ábyrgu ákvörðun.

Af­leiðing­ar nýrr­ar lán­töku­stefnu

Þeir sem vilja halda í krón­una sem gjald­miðil hafa helst bent á að við sér­stak­ar aðstæður geti verið gott að grípa til pen­inga­prent­un­ar. Og vera þannig án geng­isáhættu inn­an eig­in gjaldmiðils. Það ætlaði ríkisstjórn­in að gera, en áður en til þess kom ákvað hún að snúa við blaðinu og taka lán í evr­um með hóflegri ávöxt­un­ar­kröfu en aug­ljósri geng­isáhættu. Þrátt fyr­ir að spor­in ættu að hræða. Engu að síður tek­ur rík­is­stjórn­in lán í er­lend­um gjald­miðlum meðan tekj­ur eru í ís­lensk­um krón­um. Og von­ar hið besta. Þetta er risa­ákvörðun sem rík­is­stjórn­in hef­ur ekki gert Alþingi grein fyr­ir.

Á dög­un­um freistaði ég þess að eiga orðastað við for­sæt­is­ráðherra um ástæður þess að ríkisstjórnin ákvað að yf­ir­gefa krón­una við fjár­mögn­un á hall­an­um og fá fram mat á því hvaða af­leiðing­ar það gæti haft. Fyr­ir heim­ili, fyr­ir­tæki og vel­ferðina.

Þjóðleg og ópóli­tísk afstaða

For­sæt­is­ráðherra hafði tvennt fram að færa:

Ann­ars veg­ar sagði hún að fyr­ir­spurn mín sýndi að ég væri í póli­tík. Þar hitti hún vissu­lega naglann á höfuðið. Þótt ég telji það alla jafna ekki undr­un­ar­efni að þing­menn séu í póli­tík. En það má gagnálykta út frá þess­ari at­huga­semd.

Þannig virðist for­sæt­is­ráðherra, sem forðast umræðu um stefnu­breyt­ingu í jafn stóru máli, ekki vera að gegna póli­tísku hlut­verki sínu. Þegar svo mikl­ir hags­mun­ir eru í húfi fyr­ir al­manna­hag lýs­ir ópóli­tísk afstaða ekki mik­illi póli­tískri ábyrgð.

Hins veg­ar sagði for­sæt­is­ráðherra að ég væri að tala krón­una niður og gaf um leið í skyn að slíkt at­hæfi væri óþjóðlegt.

Að tala krón­una niður

Skoðum þessa staðhæf­ingu aðeins:

  1. Þegar rík­is­stjórn hverf­ur frá því að taka lán í krón­um og ákveður að taka lán í evr­um er hún sjálf að lýsa því yfir að það sé ekki hægt að nota gjald­miðil­inn okk­ar. Það van­traust er ekki ópóli­tískt en kann að vera raun­sætt. Verðgildi krón­unn­ar verður hins veg­ar ekki haldið uppi á sjálf­bær­an hátt með er­lend­um lán­um rík­is­sjóðs.
  2. Stund­um er sagt að áhrifa­mesti seðlabanka­stjóri í heimi geti talað doll­ar­ann upp eða niður. Flest­ir ef­ast þó um að orð hans eða henn­ar dugi ein og sér. En geti formaður í stjórn­ar­and­stöðuflokki talað krón­una niður ber það vott um annað tveggja; ein­stak­lega mik­il póli­tísk áhrif eða afar veik­an gjaldmiðil.
  3. Fyr­ir tveim­ur árum ákvað rík­is­stjórn­in að gjöld vegna fisk­eld­is í sjó skyldu vera ákveðinn hundraðshluti af kílóverði í evr­um. Rík­is­stjórn, sem not­ar er­lend­an gjald­miðil í ís­lenskri lög­gjöf, er ekki að tala krón­una niður með laga­boði. Hún er ein­fald­lega raun­sæ á veik­leika krón­unn­ar og fjarri því að vera óþjóðleg.
  4. For­sæt­is­ráðherra sat í rík­is­stjórn, sem samþykkti í júlí 2012 að Ísland stefndi að upp­töku evru. Samþykkt­in um það samn­ings­mark­mið var send öll­um rík­is­stjórn­um aðild­ar­ríkja Evrópusambands­ins. Ekki er vitað til þess að hún hafi form­lega verið aft­ur­kölluð. En vissu­lega er þjóðlegt að þeir sletti skyri sem eiga það.

 

At­vinnu­lífið kall­ar á ábyrgð

Stefnu­breyt­ing rík­is­stjórn­ar­inn­ar er al­var­legra og stærra mál en svo að það sé ekki rætt mál­efna­lega á Alþingi. Geng­isáhætt­an er gríðarleg. Bara á síðasta ári juk­ust skuld­ir rík­is­sjóðs um 45 millj­arða vegna geng­is­breyt­inga. Að svara með inn­an­tóm­um út­úr­snún­ing­um er ekki boðlegt.

Það er alla jafna ólíkt for­sæt­is­ráðherra að ræða mál á Alþingi með þeim hætti. Þessi und­an­tekn­ing gæti bent til þess að stefnu­breyt­ing­in hafi ekki verið rædd í þaula eða hugsuð til enda.

Sam­tök at­vinnu­lífs­ins vara við óá­byrgri af­stöðu til lána­mála rík­is­ins. Lán­tök­urn­ar hafa þó fyrst og fremst farið til að hjálpa skjól­stæðing­um þeirra. Þær voru óhjá­kvæmi­leg­ar. En það er rétt hjá Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins að öllu máli skipt­ir hvernig á er haldið.

Rúss­nesk rúll­etta

Skuld­irn­ar geta ekki orðið sjálf­bær­ar nema vext­irn­ir og geng­isáhætt­an verði lægri en nafn­vöxt­ur þjóðarfram­leiðslunn­ar. Ann­ars þarf niður­skurð eða skatta­hækk­an­ir. Það þarf að segja hreint út.

Hvarvetna er litið svo á að rík­is­stjórn­ir verði að fjár­magna halla vegna krepp­unn­ar í eig­in gjald­miðli. Geng­isáhætt­an af svo stór­tæk­um er­lend­um lán­um er al­mennt tal­in of mik­il til að vera ábyrg. Hún get­ur virkað eins og rúss­nesk rúll­etta.

Vel má vera að rík­is­stjórn­in telji sig yfir það hafna að svara stjórn­ar­and­stöðunni á Alþingi. En ætl­ar hún að láta vera að skýra út fyr­ir Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins, sem nú kalla á ábyrgð í rík­is­fjár­mál­um, hvers vegna áhættu­sam­ari lán­taka var val­in en upp­haf­lega var ráðgert?

Hvað með verka­lýðshreyf­ing­una? Mun hún kalla eft­ir út­skýr­ingu á hvers vegna stjórn­völd fara í þessa áhættu­töku með vel­ferðar­kerfið að veði fyr­ir er­lend­um lán­um? Eða verða það á end­an­um heim­il­in í land­inu sem borga brús­ann, ef illa fer?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. febrúar 2021