Velferðin veðsett

Sagt er að skaft­fellsk­um vatna­mönn­um hafi þótt óráðlegt að snúa við í miðju straum­vatni. Þessi gömlu hygg­indi löngu liðins tíma komu mér í hug þegar rík­is­stjórn­in kúventi í stefnu sinni í pen­inga­mál­um án út­skýr­inga og nauðsyn­legr­ar póli­tískr­ar umræðu.

Í upp­hafi far­ald­urs­ins í fyrra sagði seðlabanka­stjóri að bank­inn hefði í verk­færa­tösku sinni öll þau tól, sem þyrfti til að bregðast við krepp­unni. Mik­il­væg­ast var að bank­inn sagðist hafa verk­færi til að tryggja rík­is­sjóði nauðsyn­leg lán á lág­um vöxt­um inn­an­lands.

Þetta er það sem kall­ast pen­inga­prent­un. Sá mögu­leiki að geta gripið til henn­ar við óvenju­leg­ar aðstæður hef­ur verið tal­inn helsti kost­ur þess að hafa sjálf­stæða mynt. Skýr­ar yf­ir­lýs­ing­ar um að þetta verk­færi yrði nýtt skapaði langþráð traust og fyr­ir­sjá­an­leika.

Á dög­un­um var frá því greint að verðbólg­an hefði brotið efri viðmiðun­ar­mörk pen­inga­stefn­unn­ar. Í öll­um öðrum ríkj­um Evr­ópu hef­ur sam­drátt­ur í þjóðarfram­leiðslu leitt til minni verðbólgu. Hér hef­ur hún hins veg­ar rokið upp úr öllu valdi í sam­drætti.

Nú eru verk­fær­in gegn verðbólgu ekki til

Kjara­skerðing er þekkt­asta af­leiðing verðbólg­unn­ar. En þessi mikla hækk­un verðbólgu virðist líka hafa leitt til þess að rík­is­stjórn­in hef­ur snúið hest­um sín­um við í miðju straum­vatn­inu. Í stað þess að nota verk­færi Seðlabank­ans til þess að tryggja rík­is­sjóði inn­lent láns­fé á nú að gera það með er­lend­um lán­um.

Verðbólg­an virðist hafa leitt til þess að Seðlabank­inn get­ur ekki bæði stutt við krón­una og staðið við fyr­ir­heitið um að búa til aðstæður fyr­ir rík­is­sjóð til að taka inn­lend lán á viðráðan­leg­um kjör­um.

Ráðgjöf Seðlabank­ans til stjórn­valda er að rík­is­sjóður taki er­lend lán til að halda uppi verðgildi krón­unn­ar. Ekki er hægt að draga aðra álykt­un af þessu en að pen­inga­stefnu Seðlabank­ans skorti trú­verðug­leika þannig að pen­inga­prent­un valdi ekki gjald­eyr­is­sölu, geng­is­sigi og verðbólgu. Ekki einu sinni hinn sögu­lega stóri gjald­eyr­is­vara­forði virðist duga til að byggja trú­verðug­leika.

Eng­inn, nema stjórn­völd, virðist hafa trú á krón­unni. Nú hafa stjórn­völd kúvent og hyggj­ast fjár­magna hall­ann með er­lendri lán­töku. Þar sem allt er með felldu ræðst gengi gjald­miðla af verðmæta­sköp­un. Hér er geng­inu hins veg­ar haldið uppi með lán­tök­um.

Geng­isáhætt­an

Evrulán­in eru sann­ar­lega hag­stæð. En þeim fylg­ir mik­il geng­isáhætta. Bara á síðasta ári hækkuðu er­lend­ar skuld­ir rík­is­sjóðs um 45 millj­arða króna vegna falls krón­unn­ar. Sal­an á Íslands­banka­bréf­un­um rétt dug­ar til að mæta þessu tapi.

Kjarni máls­ins er sá að er­lend lán­taka rík­is­sjóðs eyk­ur hætt­una á því að ekki verði til lengri tíma unnt að verja vel­ferðar­kerfið. Sú áhætta er veru­leg. Stefnu­breyt­ing rík­is­stjórn­ar­inn­ar þýðir að hækki skuld­irn­ar vegna geng­is­breyt­inga er vel­ferðar­kerfið sett að veði. Það kem­ur svo í hlut næstu og þar næstu rík­is­stjórn­ar að glíma við af­leiðing­arn­ar.

Aðeins er unnt að verja vel­ferðar­kerfið með lán­tök­um þegar vext­ir eru lág­ir og geng­isáhætt­an eng­in. En krónu án geng­isáhættu höf­um við aldrei haft. Þann veru­leika þekkj­um við ekki.

Yf­ir­lýs­ing­ar Seðlabank­ans í fyrra byggðu upp traust. Þess­ar aðgerðir stjórn­valda rýra það traust.

Viðvör­un­ar­merki kalla á umræðu

Stefn­an í pen­inga­mál­um heyr­ir und­ir for­sæt­is­ráðherra. Grund­vall­ar­breyt­ing af þessu tagi er ákveðin án skýr­inga og án umræðu á Alþingi. Það er til marks um umræðuflótta. Hann staðfest­ir aft­ur að stefnu­breyt­ing­in er gerð í veik­leika; fæt­urn­ir eru valt­ir.

Í þeim til­gangi að knýja fram póli­tíska umræðu um þessi efni hyggst Viðreisn óska eft­ir skýrslu for­sæt­is­ráðherra þar sem gerð yrði grein fyr­ir lík­legri þróun vaxta og geng­isáhættu í ljósi þeirra gíf­ur­legu lána, sem rík­is­sjóður þarf að taka. Jafn­framt er nauðsyn­legt að bera niður­stöðuna sam­an við þá mögu­leika sem evr­an myndi skapa.

Verðbólg­an og kúvend­ing rík­is­stjórn­ar­inn­ar eru viðvör­un og hættu­merki. Eins og í um­ferðinni verðum við að líta til beggja átta og meta aðstæður. Hitt er síðan óá­byrgt að loka aug­un­um þegar hættu­merk­in birt­ast.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. febrúar 2021