Silkislaufa um tóman kassa

Ég hef sjald­an verið jafn sam­mála Katrínu Jak­obs­dótt­ur og þegar ég las þessa setn­ingu í grein henn­ar í Morg­un­blaðinu í fyrri viku um auðlinda­ákvæðið: „Nú er tæki­færi til raun­veru­legra breyt­inga ef við leyf­um þeim ekki að ráða sem líður svo vel í göml­um skot­gröf­um að þeir mega ekki hugsa sér að málið leys­ist.“

Þetta er ein­mitt kjarni máls­ins. Í fyrsta lagi er kom­inn tími á raun­veru­leg­ar breyt­ing­ar. Og í öðru lagi er kom­inn tími á ljúka skot­grafa­hernaðinum.

Ástæðan fyr­ir gagn­rýni minni á auðlinda­ákvæðið er sú að það rím­ar ekki við þessi orð for­sæt­is­ráðherra.

Fram­lag til sátta

Í umræðum formanna flokk­anna und­an­far­in þrjú ár hef ég lagt mig alla fram við ná sátt­um.

Þegar lagt var af stað með þetta verk­efni um heild­ar­end­ur­skoðun stjórn­ar­skrár lofaði for­sæt­is­ráðherra að nýtt ákvæði um framsal vald­heim­ilda í alþjóðasam­starfi, og rétt þjóðar­inn­ar til að taka þær ákv­arðanir, yrði hluti breyt­ing­anna í fyrsta áfanga.

Þetta lof­orð var ein af for­send­un­um fyr­ir því að ég féllst á málsmeðferðina. Þegar í ljós kom að for­sæt­is­ráðherra ætlaði ekki að standa við þetta lof­orð tók ég samt þá ákvörðun að láta það ekki trufla mig.

Í upp­hafi stóð til að flytja aðskil­in frum­vörp um ein­staka efn­isþætti. Ég bauðst til að styðja þau öll nema auðlinda­ákvæðið. Því boði var hafnað. Þó að ég hefði ýms­ar at­huga­semd­ir um hin frum­vörp­in ákvað ég eigi að síður að leggja mitt af mörk­um til sátta.

Ég hef ekki enn séð formann VG leggja sitt af mörk­um í þeim til­gangi.

Spurn­ing um af­nám sérreglu

Auðlinda­ákvæðið er eitt af stærstu prinsipp­mál­um sam­fé­lags­ins. Leyfi til nýt­ing­ar á sam­eig­in­leg­um auðlind­um eru í öll­um til­vik­um, nema í sjáv­ar­út­vegi, bund­in við til­tek­inn tíma. Eina sérregl­an í al­menn­um lög­um er ótíma­bund­inn nýt­ing­ar­rétt­ur fiski­stofna. Hin al­menna regla er því og hef­ur verið sú að verja auðlind­ir með því að tíma­binda nýt­ingu.

Eina leiðin til að eyða þeirri mis­mun­un og tryggja rétt­læti er að festa al­mennu regl­una í stjórn­ar­skrá. Ástæðan er sú að kjós­end­ur eiga óbeina aðkomu að setn­ingu stjórn­skip­un­ar­reglna því þær þarf að staðfesta á nýju þingi að und­an­gengn­um kosn­ing­um.

Rík­is­stjórn­in hef­ur ríf­leg­an meiri­hluta fyr­ir auðlinda­ákvæði for­manns VG. Stjórn­ar­andstaðan ræður engu um það. Kjós­end­ur ráða svo hvort hún fær umboð til að staðfesta það óbreytt að kosn­ing­um lokn­um.

Vitn­is­b­urður um áhrifa­leysi til­lög­unn­ar

Eng­inn hef­ur með jafn skýr­um hætti og Katrín Jak­obs­dótt­ir sjálf sýnt fram á að í til­lögu henn­ar að auðlinda­ákvæði fel­ast eng­ar efn­is­leg­ar breyt­ing­ar. Í grein­ar­gerð með frum­varpi henn­ar seg­ir:

„Tekið skal fram að verði frum­varpið að stjórn­skip­un­ar­lög­um rask­ar ákvæðið ekki sjálf­krafa rétt­ind­um sem kunna að fel­ast í nýt­ing­ar­heim­ild­um sem þegar hef­ur verið stofnað til gagn­vart auðlind­um og lands­rétt­ind­um í eigu rík­is­ins eða í þjóðar­eign.“

Með gleggri og ákveðnari hætti er ekki unnt að lýsa því að til­lag­an fel­ur ekki í sér að tæki­færið hafi verið nýtt til raun­veru­legra breyt­inga. Og hér eru enn af­drátt­ar­laus­ari orð:

„Að því er varðar fisk­veiðistjórn­ar­kerfið fel­ur frum­varpið í sér árétt­ingu þess fyr­ir­vara sem 3. málsl. 1. mgr. laga um stjórn fisk­veiða, nr. 116/​2006, hef­ur að geyma og fel­ur því ekki í sér sjálf­krafa breyt­ingu á stöðu út­hlutaðra afla­heim­ilda.“

Gam­alt vín á nýj­um belgj­um

Til viðbót­ar má nefna að fyr­ir meira en tutt­ugu árum komst Hæstirétt­ur í svo­kölluðum Vat­n­eyr­ar­dómi að þeirri niður­stöðu „að nytja­stofn­ar á Íslands­miðum séu sam­eign ís­lensku þjóðar­inn­ar“ með vís­un í 1. grein fisk­veiðistjórn­ar­lag­anna.

Í óbreyttu auðlinda­ákvæði fel­ast því eng­in ný­mæli. Það rask­ar ekki þeirri sérreglu að þeir sem hafa einka­rétt á nýt­ingu Íslands­miða eru og verða ein­ir und­anþegn­ir meg­in­regl­unni um tíma­bund­inn af­nota­rétt. Al­veg eins og SFS og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn vilja hafa það.

Það má tíma­binda veiðirétt­inn. Það er bara ekki gert í al­menn­um lög­um og ger­ist ekki held­ur með stjórn­ar­skrár­til­lögu Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur. Hún er gam­alt vín á nýj­um belgj­um.

Minn­ist ekki á mála­miðlun Viðreisn­ar

Katrín bend­ir á um­sagn­ir Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi, Versl­un­ar­ráðs, Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, Stjórn­ar­skrár­fé­lags­ins og Þor­vald­ar Gylfa­son­ar til marks um fólk, sem hef­ur svo mikla ánægju af skot­grafa­hernaði, að það vilji engu breyta.

Þögn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur um mála­miðlun­ar­til­lögu Viðreisn­ar er hins veg­ar at­hygl­is­verð. Ég hef ekki viljað blanda deil­um um upp­hæð auðlinda­gjalda eða aðferðafræði við fisk­veiðistjórn­un inn í efn­is­lega umræðu um auðlinda­ákvæðið. Ég ætla ekki að skil­greina til­lög­ur stjórn­lagaráðs sem skot­grafa­hernað. En þær ganga vissu­lega það langt að samþykkt þeirra gæti raskað þjóðhags­legri hag­kvæmni veiðanna.

Hags­muna­sam­tök út­gerðanna eru and­víg öll­um breyt­ing­um. En í um­sögn­um sín­um halda þau því hvergi fram að til­lag­an leiði til breyt­inga. Hitt er rétt að þau vilja stoppa þá umræðu, sem áhrifa­laus til­laga hef­ur vakið. Það er göm­ul saga og ný.

Viðreisn vill varðveita þjóðhags­lega hag­kvæmni fisk­veiðistjórn­ar­kerf­is­ins. En um leið vilj­um við tryggja rétt­læti. Inn­an þess­ara marka felst mála­miðlun okk­ar í því að fall­ast á til­lögu for­manns VG með því að skjóta inn einu orði: „Tíma­bund­in.“

Spurn­ing um lýðræði

Þetta mál er um leið spurn­ing um lýðræði. Fyr­ir síðustu kosn­ing­ar töluðu sex af átta flokk­um, sem fengu kjörna þing­menn, fyr­ir því að meg­in­regl­an um tíma­bund­inn af­nota­rétt að auðlind­um í þjóðar­eign ætti einnig að ná til fisk­veiða. Þess­ir flokk­ar fengu tvo þriðju hluta þing­sæta.

Ég hef sjálf setið í tveim­ur rík­is­stjórn­um og veit að í sam­starfi þurfa menn að semja. Þetta er hins veg­ar í fyrsta skipti sem stjórn­ar­sam­starf bind­ur hend­ur stjórn­ar­flokka við breyt­ing­ar á stjórn­ar­skrá.

Miðflokk­ur­inn, sem get­ur fall­ist á auðlinda­til­lög­una, hef­ur þó varað við því að knýja hana fram í ágrein­ingi. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn með fjórðung at­kvæða í þing­inu er eini flokk­ur­inn, sem hef­ur það bein­lín­is á stefnu­skrá að viðhalda því rang­læti sem felst í sérreglu út­gerða um nýt­ingu fiski­miðanna. Og fékk til þess umboð í síðustu kosn­ing­um.

Í svo stóru prinsipp­máli verður skýr­um úr­slit­um síðustu kosn­inga hins veg­ar ekki breytt nema með nýrri ákvörðun kjós­enda. Þá er unnt að kjósa á milli Sjálf­stæðis­flokks­ins og þeirra flokka, sem nú eru til­bún­ir að viðhalda sérregl­unni, og annarra sem tala fyr­ir þeirri ein­földu breyt­ingu að sama regla gildi fyr­ir alla.

Annaðhvort er að virða úr­slit síðustu kosn­inga eða leyfa kjós­end­um að taka nýja ákvörðun. Katrín Jak­obs­dótt­ir þarf að gera þetta upp við sig.

Auðlinda­ákvæði henn­ar breyt­ir engu. Það er eins og snot­ur silk­is­laufa, sem hnýtt er um tóm­an kassa. Fal­leg­ar umbúðir án inni­halds.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2021